Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Síða 4
2 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 100. árg. 2024
Tímarit hjúkrunarfræðinga
Engjateigi 9 · 105 Reykjavík
Sími: 540 6400
hjukrun.is
Útgefandi: Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Ritnefnd: Helga Pálmadóttir, Sölvi Sveinsson, Þórunn
Sigurðardóttir, Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman
Ritstjóri ritrýndra greina: Kristín Linda H. Hjartardóttir
Ritnefnd ritrýndra greina: Páll Biering, Sigrún Sunna
Skúladóttir, Þóra Jenný Gunnarsdóttir
Yfirlestur: Ragnheiður Linnet
Auglýsingar: Erna Sigmundsdóttir
Umbrot: Prentmet Oddi
Forsíðumynd: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Prentun: Prentmet Oddi
ISSN 1022-2278
1
Maður er manns gaman stendur í Hávamálum sem voru skrifuð
fyrir mörg hundruð árum síðan. Sumt breytist ekki, við þrífumst
flest best á góðum og nærandi tengslum; samveru, snertingu og
hlýju og án samferðafólks, fjölskyldu og vina erum við eyland og
upplifum mögulega einsemd. Við viljum tilheyra, upplifa kærleika
og nánd en í sífellt tæknivæddari heimi fer einsemd vaxandi. Við
tengjumst í gegnum tæknina en slík tengsl koma ekki í staðinn fyrir
mannleg samskipti í raunheimi og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin
WHO hefur talað um farald einmanaleika. Í Bretlandi hefur frá
árinu 2018 verið starfandi ráðherra einmanaleika og í Japan er
sams konar ráðherra. Það er kannski tímabært að hér á landi verði
skipaður ráðherra í ríkisstjórn sem hafi andlega líðan þegna þessa
lands í brennidepli?
Í þessu tölublaði er áhugavert viðtal við Aðalbjörgu Stefaníu
Helgadóttur, hjúkrunarfræðing, doktorsnema og rithöfund
sem nýverið gaf út bókina Einmana – tengsl og tilgangur í heimi
vaxandi einsemdar. Aðalbjörg skoðar í þessari bók einsemdina út
frá ýmsum hliðum, hún segist alltaf hafa haft áhuga á tengslum
en þegar hún var í meistaranáminu má segja að áhuginn á
einmanaleikanum hafi kviknað fyrir alvöru. Hún tók þá viðtöl við
hjúkrunardeildastjóra um upplifun af starfi, álag, og bjargráð. „Þá
kom í ljós að þeim sem leið ekki vel í vinnunni sögðust upplifa sig
svo einar sem kveikti áhugann enn frekar og hvort við upplifum öll
þessa tilfinningu að vera einmana,“ segir Aðalbjörg og afraksturinn
varð svo þessi áhugaverða bók um mikilvægi tengsla, hvernig
bregðast má við einmanaleika og hvað sú tilfinning eða upplifun
getur kennt okkur.
Jórlaug Heimisdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Þróunarmiðstöð
íslenskrar heilsugæslu, kom líka í spjall til okkar en hún er
verkefnastjóri heilsueflandi þjónustu. Hennar starf felst í að
þróa, leiða og samræma starfsemi í heilsugæslu á landsvísu með
áherslu á fólk með langvinnan heilsuvanda og aldraða. Þegar hún
var spurð um helstu áskoranir í starfi sagði hún meðal annars: „Ein
af áskorununum eru langvinnur heilsuvandi; andleg líðan og þar
kemur svefnvandinn inn, kvíði og ýmislegt annað.“
Aftur komum við að andlegri líðan sem kannski má segja að
sé rauði þráðurinn í átt að hamingjunni. Ef við erum vansæl,
sofum illa, erum kvíðin, einmana eða allt í bland líður okkur
ekki vel. Kulnun hefur verið áberandi í umræðunni undanfarin
ár og sömuleiðis streitutengd heilsufarsvandamál. Þess vegna er
svo mikilvægt að taka sumarfrí og njóta þess að slaka sem mest
og best. Endurhlaða sig eftir veturinn með nægum svefni og
njóta þess að gera sem minnst nema kannski bara að vera úti í
náttúrunni eða liggja upp í sófa með góða bók. Sumir hlaða samt
best á hlaupum eða á sundi í köldum sjó.
Hvað sem það er, sem gefur þér orku og vellíðan, gerðu það og
njóttu þess. Ég held ég þori að fullyrða að gott frí sé andlegri heilsu
jafn nauðsynlegt og súrefni er heilastarfseminni.
Kæru hjúkrunarfræðingar, vonandi náið þið að taka gott frí og
njóta lífsins sem allra mest í sumar. Vonandi njótið þið líka lestur
blaðsins sem er fullt af áhugaverðum viðtölum og ritrýndum
greinum en þær eru fimm talsins að þessu sinni og allar mjög
fræðandi og áhugaverðar.
Sumarkveðjur,
Pistill ritstjóra
Frí jafn nauðsynlegt
andlegri vellíðan og
súrefni heilanum
(hún/she)