Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Qupperneq 6
4 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 100. árg. 20241
Síðustu mánuði hafa samninganefndir hjúkrunarfræðinga
fundað með launagreiðendum með það að markmiði að ná
góðum kjarasamningum. Enn eru engin stór tíðindi af árangri við
samningaborðið, fyrir utan breytingar á betri vinnutíma en þó er
samtalið í gangi og það skiptir miklu máli. Við fundum reglulega
með trúnaðarmannaráði og stjórn félagsins um framgang
viðræðnanna. Ég hvet alla til að fylgjast með í gegnum vefinn
okkar, hjukrun.is, fréttabréfið okkar eða á samfélagsmiðlum Fíh.
Það er að mörgu að huga þegar samið er um kjör til framtíðar.
Það eru að verða miklar breytingar á þjóðfélaginu sem
hjúkrunarfræðingar fara ekki varhluta af. Árlega eru teknar saman
tölur um starfandi hjúkrunarfræðinga á landinu, í fyrra var í fyrsta
sinn frá upphafi fækkun á starfandi hjúkrunarfræðingum, þó
innan tölfræðilegra marka með teknu tilliti til fæðingarorlofa,
veikindaleyfa og annarra slíkra þátta.
Það að fjöldi starfandi hjúkrunarfræðinga fari lítillega fækkandi
milli ára þá er ekki tilefni til gífuryrða en það gefur tilefni til að
íhuga í hvaða átt þetta þjóðfélag er að stefna. Við höfum ekki efni
á því sem þjóð að halda áfram í sömu átt, allar rannsóknir sýna
að það þarf háskólamenntaða hjúkrunarfræðinga til að halda
heilbrigðiskerfinu gangandi. Það er hlutverk stjórnvalda að koma
í veg fyrir frekara brottfall hjúkrunarfræðinga úr starfi, halda þeim
í starfi og tryggja nýliðun.
Lína í sandinn
Tölurnar segja okkur einnig að hjúkrunarfræðingum af erlendu
bergi brotnu fjölgar úr rúmlega 6% í 8% milli ára. Þetta er eðlileg
þróun í takt við þjóðfélagsbreytingarnar þar sem stækkandi hluti
þjóðarinnar fæddist í öðru landi. Okkur mun aldrei takast að manna
heilbrigðiskerfið með einungis íslenskum hjúkrunarfræðingum,
það er einfaldlega ekki hægt að mennta nógu marga hérlendis til
að halda í við eftirspurnina. Það skiptir hins vegar máli hvernig
staðið er að fjölgun erlendra hjúkrunarfræðinga.
Hér á landi getum við stolt sagt að engin heilbrigðisstofnun
sæki markvisst hjúkrunarfræðinga til annarra landa. Slíkt
gengur gegn opinberri og alþjóðlegum stefnum um að sækja
ekki hjúkrunarfræðinga til annarra landa. Það er skortur á
hjúkrunarfræðingum um allan heim og það er ósiðlegt að nota
fjárhagslegan styrk okkar þjóðar til að sækja hjúkrunarfræðinga
frá efnaminni löndum sem þegar berjast í bökkum með að reka
sitt heilbrigðiskerfi. Við höfum séð ásakanir um slíkt t.d. á hendur
heilbrigðisstofnunum í Bretlandi og það væri miður ef slíkt kæmi
upp hér á landi.
Þetta málefni verður til umræðu á ráðstefnu Samvinnu
hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum (SSN) sem haldin verður
í Reykjavík í september næstkomandi. Sjálfbærni þjóða þegar
kemur að mönnun hjúkrunarfræðinga er langt frá því að vera
einkamál okkar á Íslandi, um allan heim stendur fólk í sömu
sporum og veltir fyrir sér framtíðinni. Það sem skiptir máli er að við
höfum dregið línu í sandinn. Við látum ekki aðrar þjóðir mennta
fyrir okkur hjúkrunarfræðinga en bjóðum þó að sjálfsögðu þá
hjúkrunarfræðinga velkomna sem vilja setjast að á Íslandi á eigin
vegum og ekki er um skipulagðan innflutning á þeim að ræða.
Stöðvum ofbeldið
Ólýsanlegur hryllingur á sér nú stað á Gazaströndinni, innviðir
eru í rúst, ráðist hefur verið á heilbrigðisstarfsfólk og almenna
borgara. Aðgangur fólks að heilbrigðisþjónustu eru mannréttindi
og árásir á heilbrigðisstarfsfólk og sjúklinga eru með öllu
óásættanlegar. Félagið hefur fordæmt ofbeldið sem á sér stað frá
upphafi og tekið þar m.a. undir tilmæli frá alþjóðlegum samtökum
hjúkrunarfræðinga og heilbrigðisstarfsfólks. Nauðsynlegt er að
koma á friði án tafar og koma hjálpargögnum til þeirra sem þurfa
á því að halda.
Þann 3. október verður haldið hjúkrunarþing og munum við ræða
þar hjúkrun við lok lífs. Málefni sem kemur hjúkrunarfræðingum
við og nauðsynlegt að tekin verði markviss umræða um. Það þarf
að hlusta á öll sjónarmið áður en félagið myndar sér formlega
afstöðu eins og t.d. um margumrædda dánaraðstoð. Það þarf
að skoða hlutverk hjúkrunarfræðinga, siðferðisleg álitamál og
reynslu annarra þjóða.
Nýr formaður á næsta ári
Á næsta ári fara fram kosningar um formann Fíh. Ég mun ekki gefa
kost á mér til áframhaldandi setu og verður þetta því mitt síðasta
starfsár. Þetta er búinn að vera mjög gefandi, lærdómsríkur og
krefjandi tími. Fram undan eru nú áframhaldandi kjaraviðræður
og mörg önnur stór verkefni. Í framhaldinu tekur svo nýr leiðtogi
við keflinu næsta vor.
Ég hvet alla hjúkrunarfræðinga, eins og fyrr, til að taka sér
lögbundið sumarfrí og eiga gefandi og góðan tíma með sínum
nánustu. Þá fyrst er hægt að mæta aftur til vinnu og halda áfram
því góða starfi sem þið þegar innið af hendi.
Pistill formanns
Breytingar
Sumarið er tíminn til að slaka á, hlaða batteríin og njóta
samverustunda með sínum nánustu. Ég vona að sem flestir
hjúkrunarfræðingar nái samfelldu fríi því fátt er mikilvægara
en að gefa sér góðan tíma til að hlúa að sjálfum sér og sínum.
Okkar
besta fólk
Okkar besta fólk í heilbrigðisgeiranum hefur reitt sig
á þjónustu okkar um árabil. Þau þurfa að geta treyst því
að öll tæki og búnaður sé örugglega í lagi og virki
eins og til er ætlast.
Höfðabakki 7, 110 Reykjavík | fastusheilsa.is