Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Qupperneq 14
12 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 100. árg. 2024
Spurt og svarað
Hvernig er Styrktarsjóðurinn fjármagnaður?
Það eru atvinnurekendur hjúkrunarfræðinga sem greiða í sjóðinn
í samræmi við ákvæði kjarasamninga. Greitt er mánaðarlega
0,75% af heildarlaunum hjúkrunarfræðinga sem vinna hjá ríkinu,
Reykjavíkurborg og sveitarfélögum en 1% iðgjald fyrir þá hjúkrunar-
fræðinga sem vinna á almenna markaðnum. Ástæðan fyrir mishárri
prósentu er að m.a. er réttur vegna veikinda sterkari hjá ríki,
Reykjavíkurborg og sveitarfélögum en á almenna markaðnum.
Hvenær get ég sótt um styrk í sjóðinn?
Rétt til að fá úthlutað styrk úr Styrktarsjóði Fíh á félagsfólk sem
atvinnurekendur hafa greitt styrktarsjóðsframlag fyrir í samtals sex
mánuði, þar af samfellt í þrjá mánuði, þegar stofnað var til útgjalda
vegna viðburðar sem sótt er um.
Hvar sæki ég um í Styrktarsjóð?
Sækja þarf um styrki til sjóðsins á rafrænu formi á Mínum síðum. Mínar
síður má nálgast efst í hægra horninu á vef Fíh, hjukrun.is. Nota þarf
rafræn skilríki eða Íslykil til að skrá sig inn.
Hvað styrkir Styrktarsjóður Fíh?
Veittir eru ferns konar styrkir: Heilsustyrkur, fæðingarstyrkur,
sjúkradagpeningar og útfararstyrkur.
Hverjar eru fjárupphæðir styrkja sjóðsins?
Veittur er heilsustyrkur allt að 60.000 krónur á ári vegna heilsu-
tengdra útgjalda. Heilsurækt og endurhæfing, s.s. líkams-
rækt, sjúkraþjálfun, sjúkranudd, kírópraktor, næringaráðgjöf og
sálfræðiþjónusta, er undanþegið skatti en heilbrigðiskostnaður er skatt-
skyldur. Þar má nefna gleraugnakaup, tannlæknakostnað, krabba-
meinsskoðun og áhættumat vegna hjarta- og æðasjúkdóma. Er þá
staðgreiðsla dregin af fjárhæð fyrir útborgun.
Fæðingarstyrkur er að hámarki 250.000 til foreldris fyrir hvert barn og
ákvarðast upphæðin af starfshlutfalli.
Hámarks mánaðargreiðsla sjúkradagpeninga hjúkrunarfræðinga er
starfa hjá ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélögum er 400.000 kr. og
miðast sú upphæð við fullt starf. Hjá hjúkrunarfræðingum er starfa
á almenna markaðnum er hámarks mánaðargreiðslan 610.000 kr.
og miðast við fullt starf. Sjúkradagpeningar eru greiddir í allt að fjóra
mánuði.
Aðstandendur hjúkrunarfræðinga geta sótt um útfararstyrk að
upphæð 350.000 kr.
Hvað mega kvittanir vera gamlar?
Kvittanir mega vera allt að 12 mánaða gamlar frá umsókn styrksins.
Hvenær þarf að skila inn umsóknum?
Umsóknir eru afgreiddar mánaðarlega, heilsustyrkur er þó ekki
greiddur út í júlí. Umsóknum ásamt viðeigandi gögnum skal skila inn
fyrir lok mánaðar.
Hvaða gögnum þarf að skila inn með umsókn?
Fyrir heilsustyrk: Sundurliðuðum reikningi, með nafni umsækjanda og
kennitölu, ásamt staðfestingu á greiðslu reikningsins. Á reikningnum
þarf að vera áritun/stimpill/merki þess sem gefur reikninginn út með
upplýsingum um nafn og kennitölu, ásamt lýsingu á því sem greitt er
fyrir.
Fyrir fæðingarstyrk: Fæðingarvottorði barns og launaseðlum síðustu
þriggja mánaða með starfshlutfalli.
Fyrir sjúkradagpeninga: Umsóknareyðublað, læknisvottorði,
launaseðlum síðustu þriggja mánaða með starfshlutfalli og vottorði
um tæmingu veikindaréttar frá vinnuveitanda.
Fyrir útfararstyrk: Dánarvottorð.
Hvenær eru styrkir greiddir út?
Að jafnaði er greitt út 24.–26. dag næsta mánaðar (eftir að umsókn
berst) eða næsta virka dag á eftir. Umsóknir sem berast í desember
greiðast út í janúar en færast sem styrkur á sama ár og umsókn barst.
Er tekinn skattur af styrkjum sjóðsins?
Greiðslur úr Styrktarsjóði eru almennt staðgreiðsluskyldar og er stað-
greiðsla dregin af við afgreiðslu styrks. Dánarbætur og styrkir vegna
heilsuræktar og endurhæfingar eru þó undanþegnir staðgreiðslu-
skyldu.
Hvaða rétt hef ég í veikindaleyfi?
Sjóðsfélagar halda réttindum sínum í sjóðnum fyrir það tímabil
sem þeir fá greidda sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði Fíh. Eins
er farið með mál sjóðsfélaga sem þiggja endurhæfingarlífeyri hjá
Tryggingastofnun og greiða stéttarfélagsgjald.
Hvaða rétt hef ég í launalausu leyfi?
Heilsustyrkur: Sjóðsfélagar halda réttindum í launalausu leyfi í allt að
þrjá mánuði.
Fæðingarstyrkur: Sjóðsfélagar halda réttindum í launalausu leyfi í allt
að þrjá mánuði.
Sjúkradagpeningar: Sjóðsfélagi í launalausu leyfi heldur réttindum í
allt að þrjá mánuði.
Réttur til styrkjar miðast við að hjúkrunarfræðingur hefji störf á ný
um leið og launalausu leyfi lýkur. Ekki eru greiddir dagpeningar vegna
veikinda í launalausu leyfi.
Ég er atvinnulaus, á ég rétt á styrk?
Sjóðsfélagar með full réttindi við upphaf atvinnuleysis halda réttindum
sínum í eitt ár, enda hefjist bótatímabil eða ef til útgjalda sé stofnað
innan árs frá upphafi atvinnuleysis. Skilyrði er að greitt sé félagsgjald
af atvinnuleysisbótum til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Held ég rétti í sjóðinn þegar ég er komin/n á lífeyri?
Sjóðsfélagar halda réttindum í 12 mánuði eftir að þeir láta af störfum
og fara á lífeyri.
Dagpeningar eru þó ekki greiddir lengur en í þrjá mánuði.
Eru einhverjir fyrirvarar á styrkjum?
Heilsu- og útfararstyrkir eru styrkhæfir í allt að 12 mánuði frá því að
til útgjalda var stofnað. Kvittanir mega því vera allt að 12 mánaða
gamlar.
Fæðingarstyrk þarf að sækja um innan eins árs frá fæðingu barns.
Get ég fengið greitt fyrir fram úr styrktarsjóðnum?
Styrkur er aldrei greiddur út fyrir fram. Greiðsla styrkja felur alltaf í
sér endurgreiðslu útlagðs kostnaðar fyrir heilsustyrk, fullnægjandi
vottorðum og launaseðlum fyrir fæðingarstyrk, sjúkradagpeninga og
útfararstyrk.
Styrktarsjóður Fíh
Styrktarsjóður Fíh veitir hjúkrunarfræðingum fjárhagsaðstoð í veikinda- og slysatilvikum,
styður og eflir félagsfólk vegna endurhæfingar eftir slys eða veikindi, auk þess að efla forvarnir
sem varða heilsufar og heilbrigði. Í stjórn Styrktarsjóðs sitja fimm hjúkrunarfræðingar
sem kjörnir eru á aðalfundi félagsins annað hvert ár.