Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Side 17
Viðtal
15Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 100. árg. 2024
komið upp á og stundum þurfum við að hringja út sjúkrabíla því
fólk er misjafnlega á sig komið en það er yndislegt að vera þarna.“
Hlúir að tengslamyndun á vökudeildinni
Aðalbjörg starfar ekki eingöngu á Heilsustofnun í Hveragerði
því árið 2022 fór hún aftur að starfa á vökudeildinni. „Bæði
vökudeildin og heilsustofnun eru gefandi vinnustaðir. Vökudeildin
fangaði hjarta mitt þegar ég kom þangað fyrst í verknám sem
sjúkraliðanemi. Þar er ég núna í 40% starfi og finnst það vera
forréttindi. Þessi tvö ólíku störf mín sýna vel tækifærin sem felast
í því að vera í hjúkrun. Þetta eru mjög ólíkir vinnustaðir, gjörgæsla
og endurhæfing, en mér finnst ég aldrei vera slitin í sundur,
þetta gengur allt upp. Á vökudeildinni er gjörgæsla, hágæsla og
svo vaxtarrækt þar sem börnin eru orðin meira stabíl en eru enn
að læra að drekka og slíkt. Ég flakka svolítið milli þess að vera í
vaxtarræktinni og hágæslunni. Skemmtilegast finnst mér að
hlúa að tengslamyndun milli foreldra og barna. Það eru þessi
augnablik í starfinu eins og til dæmis að færa lítinn fyrirbura í fang
móður þess eða föður í fyrsta skiptið, sem er mest gefandi. Það
getur verið mjög krefjandi fyrir foreldra að vera með barnið sitt á
vökudeild og það að geta valdeflt foreldra til að taka á sig þetta
stóra hlutverk er líka mjög gefandi fyrir mig í starfi.“
Hún segir enn meiri áherslu vera á fjölskylduhjúkrunina en var
fyrir nokkrum árum. „Það eru fleiri fjölskylduherbergi og við erum
meira að fara til fjölskyldunnar; inn á sængurkvennagang og
fæðingardeildina, í stað þess að barnið fari frá fjölskyldunni og til
okkar. Það gerir það að verkum að starfið okkar er umfangsmeira,
við þurfum að vera í öllum þessum tæknilega krefjandi atriðum og
líka að sinna þessari fjölskylduhjúkrun og starfið meira krefjandi.
Á sama tíma, þegar það gengur vel, þá er það meira gefandi.“
Mikilvægt að hlúa vel að starfsfólki
Í B.S.-náminu í hjúkrun gerði ég rannsókn á handleiðslu fyrir
hjúkrunarfræðinga, sem var ekki áberandi í umræðunni á þeim
tíma en er það í dag. Það getur verið snúið að sinna alls konar
fjölskyldum og stuðningur fyrir fagfólk hefur aukist. Stuðnings-
og ráðgjafateymi spítalans kemur til dæmis inn og býður upp á
stuðning en ég tel það vera lykilatriði fyrir starfsfólk að fá stuðning
til að geta verið í þessu starfi. Við erum að takast á við erfiða hluti,
jafnvel á hverjum degi og svo má ekki gleyma því að það eru ekki
öll börn sem hafa það af. Þess vegna skiptir máli að það sé gætt að
því að hlúa vel að starfsfólkinu, hjúkrunarfræðingar eru dýrmætir
starfskraftar og sinna oft skjólstæðingum við erfiðar aðstæður,
það þarf þá líka að hlúa að þeim sjálfum og það hefur aukist að
það sé gert, að ég tel.“
Aðalbjörg nefnir líka að stór hluti gestanna sem komi á
Heilsustofnunina í Hveragerði sé fólk sem er komið í kulnun eða í
veikindaleyfi af einhverjum orsökum. „Þetta er oft fólk sem starfar
með fólki, eins og til að mynda kennarar og hjúkrunarfræðingar,
og þess vegna er svo mikilvægt að við pössum upp á okkur sjálf.“
Vanlíðan í starfi tengd einmanaleika
Þá vindum við okkur að öðru; bókaskriftum og spyrjum Aðalbjörgu
fyrst að því hvort hún hafi alla tíð haft áhuga á skrifum? „Já, ég
hef alltaf haft mjög gaman af því að skrifa, það hefur verið mitt líf
og yndi. Varðandi bókina Samskiptaboðorðin, þá var ég eiginlega
beðin um að skrifa hana. Fyrst byrjaði ég á því að skrifa fræðibók
um samskipti en hún var of þurr. Ég hafði í þá bók sett sögur úr
mínu lífi sem tengdust samskiptum og var með dásamlegan
ritstjóra sem heitir Guðrún. Hún eiginlega lagði til að ég skrifaði
mína sögu og samskiptin út frá því, þannig að við snerum þessu
Aðalbjörg á heimili sínu. Aðalbjörg í útgáfuboði bókarinnar Einmana.