Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Síða 26
24 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 100. árg. 2024
sem skólahjúkrunarfræðinga á öllu landinu nota við skráningu í
heilsuvernd skólabarna. Í gegnum VPN-tengingu hef ég aðgang
að Sögunni og afgreiðslukerfi heilsugæslunnar og get t.d. séð
tímabókanir, gefið tíma, fylgt eftir niðurstöðum og sent skilaboð til
hjúkrunarfræðinga og lækna, án þess að þurfa að mæta á stöðina
eða hringja, sem sparar bæði spor og tíma. En fyrir covid hafði ég
ekki aðgang að Sögunni þegar ég var staðsett í skólanum, sem var
ákveðið flækjustig og fáránlegt til þess að hugsa svona eftir á. Ég
opna tölvupóstinn og Mentor þar sem ég hef allar upplýsingar um
nemendur, stundatöflur þeirra og fleira. Meðan þetta er allt saman
að komast í gang sæki ég mér fyrsta kaffibolla dagsins. Ég skil eftir
skilaboð á hurðinni hjá mér þegar ég fer svo fólk viti að ég sé mætt
í hús; „skrapp frá, kem eftir smástund …“ Á kaffistofunni hitti ég
á kennara tvítyngdra barna skólans sem minnir mig á að ég hafi
boðað til mín þrjú systkini sem byrjuðu nýlega í skólanum, ásamt
foreldrum og símatúlk í skólaskoðun, viðtal og bólusetningar síðar
í vikunni.
Þegar ég geng síðan ganginn með kaffibollann sé ég haltrandi
dreng sem er á leiðinni inn til mín. Ég næ honum og spyr hvað hafi
komið fyrir. Hann segist hafa snúið sig á ökkla kvöldinu áður þegar
hann var í körfubolta. Hann kemur til mín á skoðunarbekkinn, ég fæ
nánari upplýsingar frá honum og skoða fótinn með Ottawa-reglur
í huga. Ökklinn er bólginn, verkur yfir fimmta metatarsal og hann
stígur varla í fótinn og þarf því að fá röntgenmyndatöku til að
athuga hvort um beinbrot sé að ræða. Hann fær hjá mér teygjusokk
og ég hringi í foreldri og ráðlegg að leita á bráðamóttöku til nánari
skoðunar. Upplýsi svo umsjónarkennara um stöðuna. Ég skanna
síðan tölvupóstinn og svara því sem við á og skrái niður fundarboð
fyrir næsta nemendaverndarráðsfund.
Þá fer ég að stilla upp fyrir verkefni dagsins sem er kynþroska-
fræðsla fyrir nemendur í 6. bekk. Aðstaðan mín er mjög góð og ég
get haft fræðsluna á skrifstofunni minni þar sem þetta verða bara
sex nemendur. Ég finn til verkefnaheftin, varpa fyrirlestrinum upp
á skjá, sæki dömubindi, túrtappa og módel af kvenlíffærum sem
ég nota sem við kennsluna. Ég set svo skilaboð á hurðina „er með
fræðslu“ til að tryggja næði á meðan. Þetta er ein skemmtilegasta
fræðslan sem ég sinni og þessi kröftugi drengjahópur reynist líka
mjög áhugasamur, þeir spyrja og spekúlera og við reynum að
komast í gegnum allar vangaveltur þeirra.
Við taka frímínútur, ég gríp mér banana, sæki kaffibolla og rölti af
stað með hjúkrunarnemanum til að sýna skólann.
Á leiðinni heilsa ég krökkum og starfsfólki. Mér finnst mikilvægt
að vera sýnileg og í góðum tengslum og samskiptum við bæði
nemendur og starfsfólk svo auðveldara sé að leita til mín ef á
þarf að halda. Það er kominn tími á áfyllingu á plástrum hjá
1. bekk þannig að það verður tekið með í næstu ferð og bætt í
sjúkrakassann hjá þeim. Eftir útsýnisröltið er það næsti hópur
dagsins í kynþroskafræðslu. Þegar þeirri fræðslu er lokið þá býð
ég hjúkrunarnemanum að gefa mér endurgjöf á fræðsluna og við
ræðum það sem vel var gert og hvernig hefði mögulega verið hægt
að gera eitthvað öðruvísi. Við ræðum síðan verkefni sem hún á
að gera í tengslum við verknámið og hittum umsjónarkennara á
yngsta stigi sem er tilbúin að leyfa nemanum að koma inn með
stutta fræðslu tengt forvörnum og valdi hún að tala um mikilvægi
svefns. Stekk með plástrana inn í 1. bekk í leiðinni og kveð
hjúkrunarnemann sem fer í önnur verkefni inni á stöð í dag og
kemur aftur í fyrramálið.
Næst á dagskrá er fyrir fram ákveðið viðtal við nemanda á
unglingastigi sem ég hef verið að fylgja eftir með styðjandi samtali
reglulega í nokkra mánuði þar sem verið er að einblína á kvíða
og sjálfsstyrkingu og hafa verkfæri hugrænnar atferlismeðferðar
reynst vel í þessu tilfelli. Ég er búin að mynda góð meðferðartengsl
við unglinginn sem hefur tekið ákveðnum framförum á þessu
tímabili. Hér er vert að taka það fram að um þverfaglega nálgun
er að ræða og unnið í samstarfi við barnalækni, deildarstjóra og
þroskaþjálfa skólans.
Þegar því viðtali er lokið bíða mín þrír nemendur fyrir utan. Sá fyrsti
í fylgd með vinum sínum fékk bolta framan á fingur í íþróttatíma,
líkleg tognun, ég kæli fingur meðan ég tek þann næsta í skoðun.
Sá er eitthvað slappur, illt í maganum og óglatt, fölur og með
glansandi augu. Reynist vera með hita og ég hringi í foreldri sem
kemur og sækir barnið. Þegar búið er að kæla fingurinn þá strappa
ég saman tvo fingur, veiti almennar ráðleggingar varðandi tognun
til nemandans og spjalla við vinahópinn um handboltamót sem
allir eru spenntir fyrir í sumar. Síðasti nemandinn er með flís í fæti
sem ég næ léttilega að fjarlægja.
Eftir hádegismat er yfirleitt minna um viðtöl, skipulagða fræðslu
eða skyndikomur enda skólinn búinn hjá flestum milli kl.13 og
14. Þá gefst tími fyrir skráningar og önnur verk. Ég fylgi eftir þeim
skoðunum sem ég var að vinna að í síðustu viku þegar nemendur
í 7. bekk voru í mælingum, sjónprófi og viðtali um lífsstíl og líðan.
Ef það voru einhver frávik í skoðun þá þarf að hafa samband við
foreldra og koma málum í farveg. Ég næ að taka þrjú slík símtöl.
Hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands erum við að vinna eftir sérstöku
verklagi í þessum málaflokki þar sem skólahjúkrunarfræðingar
eiga samtal við foreldra, annaðhvort símleiðis eða með viðtali,
taka nánari upplýsingar varðandi lífsstíl og líðan og geta veitt
ráðgjöf. Einnig er foreldrum barna boðin blóðprufa og tími hjá
heimilislækni í kjölfarið og er þá sem dæmi verið að athuga
hvort það séu frávik í skjaldkirtilsstarfsemi eða byrjandi þróun
á efnaskiptavillu. Þetta geta verið krefjandi og erfið samtöl um
viðkvæmt umræðuefni og mjög mikilvægt að gæta að nærgætni
og virðingu hér eins og annars staðar þegar maður á samskipti við
foreldra vegna heilsu barna þeirra.
Ég enda daginn á að fara aftur yfir tölvupóstinn og sendi út
tölvupóst til foreldra þeirra nemenda sem voru í kynþroskafræðslu
þennan daginn þar sem þeir eru hvattir til þess að eiga frumkvæði
að umræðum um kynþroskann við börnin sín, skoða með þeim
fræðsluheftið og vinn síðasta verkefnið með þeim. Ég sé svo að
ég er búin að fá sent afrit af fyrri bólusetningum á arabísku fyrir
systkinin sem eiga bókað hjá mér skoðun síðar í vikunni. Ég þarf
að gefa mér tíma til þess að fara yfir það og setja upp plan ef
eitthvað vantar upp á, það verður að bíða næsta dags. Ég slekk
á tölvunni, geng frá og læsi öll vinnugögn ofan í skúffu. Gríp með
mér hjálminn og hjóla af stað heim.
Vaktin mín
„Ég hef lokið framhaldsnámi
í klínískri heilsugæsluhjúkrun
og er í meistaranámi í
heilbrigðisvísindum, því mér
finnst svo brjálæðislega gaman
að vera hjúkrunarfræðingur og
læra meira um það sem nýtist
mér í mínu starfi“