Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Blaðsíða 35
Viðtal
33Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 100. árg. 2024
Meistaranám í gjörgæsluhjúkrun eftir meistaranám í
verkefnastjórnun
„Ég fattaði það eiginlega ekki fyrr en ég kynntist núverandi
manni mínum hvað ég er mikill nörd. Ég var alltaf að gera grín að
honum, hvað hann væri mikill nörd, en svo benti hann mér á að
ég er líka algjör nörd. Mér finnst ótrúlega gaman að læra og það
liggur vel fyrir mér. Þegar ég byrjaði á gjörgæslunni vorið 2020 voru
hjúkrunarfræðingar á deildinni í sérskipulögðu meistaranámi í
gjörgæsluhjúkrun. Ég varð strax mjög spennt fyrir þessu námi
og sá mér leik á borði að með því að fara í þetta nám myndi ég
komast mjög hratt inn í sérþekkingu í gjörgæsluhjúkrun. Mér
finnst nefnilega ekki nóg að vita bara nokkurn veginn hvað ég
er að gera, ég vil vita nákvæmlega hvað ég er að gera. Ég hafði
lokið meistaranámi í verkefnastjórnun (MPM) árið 2015 en ákvað
haustið 2021 að sækja um þetta M.S.-nám og komst inn. Í náminu
hélt ég áfram að vinna með heilasírita. Mér fannst ég ekki hafa
lesið alveg nógu margar greinar um heilasírita,“ segir Sjöfn á
léttu nótunum. „Það hafa auðvitað orðið þvílíkar framfarir á
síðastliðnum 20 árum. En þetta voru hundruð greina sem komu
í ljós við heimildaleit. Í raun er búið að setja niður leiðbeiningar
um að það eigi að nota heilasírita hjá ákveðnum sjúklingum á
gjörgæslu,“ segir Sjöfn sem talar vel um meistaranámið. „Náminu
lauk ég svo vorið 2023 og hefur það reynst mér frábært veganesti.
Maður verður miklu öruggari með þennan þekkingargrunn á
bak við fagið. Maður lærir að hafa kjark til að efast um aðferðir
og meðferðir. Svo var auðvitað ómetanlegt að verða samferða
góðum hópi af samnemendum. Í kjölfar námsins hóf ég sér-
fræðinám í hjúkrun hjá Landspítala og vonast til að verða
sérfræðingur í hjúkrun gjörgæslusjúklinga. Hluti af því er að
innleiða notkun á heilasírita með af meiri festu en áður.“
Aldrei of seint að sinna klínískri hjúkrun aftur
„Sumum fannst ég vera taka skref niður á við að fara sinna beinni
sjúklingavinnu aftur. Mér finnst hins vegar ég vera vinna við það
sem mig langar mest að gera, að hjúkra sjúklingum. Að því leyti
þvældist meistaranámið aðeins fyrir mér. Mig langaði að oft að
vera í vinnunni en ekki í skólanum. Mig langar ekkert annað en
að hjúkra. Þetta er rosalega krefjandi starf en mjög gefandi. Ég
hugsa næstum því á hverri vakt hversu skemmtilegt mér finnist
að starfa á gjörgæslunni. Auðvitað er þetta erfitt á köflum en við
sjáum langoftast góðan árangur af starfi okkar og erum dugleg að
hjálpa hvert öðru í gegnum erfiðar aðstæður,“ segir Sjöfn full af
innblæstri og ástríða hennar fyrir starfinu skín í gegn.
„Mér fannst mjög leiðinlegt að þurfa að fara úr þessu starfi á
sínum tíma en aðstæður voru bara þannig að ég gat ekki verið í
vaktavinnu. Í öll önnur störf var ég alltaf ráðin vegna þess að ég var
hjúkrunarfræðingur að undanskildu starfinu í ferðaþjónustunni.
Hjúkrunarnámið opnar svo margar dyr á ýmsum sviðum.
Hjúkrunarfræðingar njóta almennt trausts og eru eftirsótt
vinnuafl. Ég er ánægð með starfsferilinn og að hafa prófað að
vinna annars staðar en á Landspítala. Það gott að fara í burtu
og öðlast fjölbreyttari reynslu og víðari sýn,“ segir Sjöfn sem er
laus við eftirsjá þó að hún hafi verið lengi að snúa aftur til baka
í hjúkrun. „Ég held ég væri ekki sama manneskja ef ég hefði ekki
prófað hin störfin. Það getur verið gott að fara og prófa nýja hluti
en þegar maður kemur aftur er alltaf tekið vel á móti manni. Þetta
er algjörlega draumastarfið mitt.“
Sjöfn í garðinum heima.