Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Page 84

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Page 84
82 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 100. árg. 2024 Eftirfylgni og árangur meðferðar hjá fólki með sykursýki gerð 2 innan tveggja sykursýkismóttaka á heilsugæslustöðvum Rannsóknum ber saman um mikilvægi þess að skjólstæðingurinn sé virkur þátttakandi í meðferð sinni og að reglulegt eftirlit hafi jákvæð áhrif á líffræðilega þætti eins og HbA1c gildi, blóðþrýsting, kólesteról, blóðfitur og líkamsþyngdarstuðul (LÞS) (Davies o.fl., 2022; Vugt o.fl., 2020). Miller o.fl. (2016) fylgdu eftir í rannsókn sinni nýgreindum einstaklingum (n=478) með T2DM í fimm ár þar sem skoðað var samband á milli upplifunar fólks á einstaklingsmiðaðri þjónustu, heilsuhegðunar og áhættunnar á að fá hjarta- og æðasjúkdóma. Eftir fimm ár í árlegu utanumhaldi mátti sjá lækkun á gildum eins og HbA1c (54,1 mmól/mól í 51,9 mmól/mól), ummáli mittis (109,9 cm í 107,9 cm), LÞS (32,4 kg/m2 í 31,9 kg/m2), blóðþrýstingi (136/80 mmHg í 132/73 mmHg) og kólesteróli (4,9 mmól/l í 4,2 mmól/l). Niðurstöðurnar sýndu að eftir eitt ár í eftirfylgd voru þeir sem voru ánægðir með þjónustuna líklegri til að auka líkamlega hreyfingu. Eftir því sem eftirfylgdin var lengri, eða eftir fimm ár, var ekki augljós fylgni á milli ánægju og breytinga á líkamlegri hreyfingu eða mataræði. Í rannsókn van Vugt o.fl. (2020) á Indlandi kom fram að meðferðarheldni jókst hjá 30% þátttakenda (n=1284) eftir árlegt eftirlit í einstaklingsmiðaðri þjónustu sykursýkismóttöku. Sameiginleg ákvarðanataka skjólstæðings og meðferðaraðila jók öryggi í markmiðasetningu og vitneskju um sjúkdóminn. Markmiðasetning virtist vera einn mikilvægasti þátturinn í að styrkja skjólstæðinginn til sjálfsumönnunar. Þeir sem fengu þéttara eftirlit voru líklegri til að setja sér markmið heldur en þeir sem nýttu sér lítið sem ekkert eftirlit. Einnig að þeir, sem fá litla sem enga þjónustu, eru líklegri til að þurfa lyf til að lækka blóðsykur. Í íslenskri afturvirkri rannsókn Hafdísar Lilju Guðlaugsdóttur og Árúnar K. Sigurðardóttur (2018) sem gerð var á sykursýkismóttöku yfir 10 ára tímabil (n=113) kom fram að um 30% einstaklinga með sykursýki náðu alþjóðlegum viðmiðum varðandi HbA1c- gildið. Þeir sem höfðu einkenni fylgikvilla í taugakerfi höfðu hærra HbA1c- gildi en þeir sem voru án fylgikvilla. Rúmlega helmingur náði alþjóðaviðmiðum í blóðþrýstingi eða 59,2-74,2% á meðan 32,6-78,4% náðu viðmiðum í blóðfitum en LÞS var hár öll árin eða í kringum 32 kg/m2. Klínískar leiðbeiningar leggja áherslu á að meðferð einstaklinga með sykursýki sé einstaklingsmiðuð og þverfagleg (Inzucchi o.fl., 2012; WHO, 2020). Í hjúkrunarstýrðum móttökum er lögð áhersla á fræðslu, eftirlit, hreyfingu og mataræði. Alþjóðasykursýkissambandið leggur áherslu á að fræðsla sé hornsteinn þegar kemur að meðferðarmarkmiðum T2DM. Fræðsla og stuðningur til sjálfsumönnunar við greiningu ætti að vera hluti af heilsugæsluþjónustu einstaklingsins (Davies o.fl., 2022; IDF, 2017). Mataræði og næringarmeðferð eru taldir góðir kostir til að bæta og viðhalda heilsu til lengri og skemmri tíma hjá einstaklingum með T2DM. Markmiðið er að bæta horfur, viðhalda lífsgæðum og draga úr fylgikvillum. Mælt er með að næringarmeðferð sé fyrst og fremst einstaklingsmiðuð og unnin í samráði við einstaklinginn sjálfan, þannig má tryggja að meðferðarheldnin verði sem best (National Institute for Health and Care Excellence [NICE], 2022; Óla Kallý Magnúsdóttir o.fl., 2016; Sami o.fl., 2017). Hreyfing leikur stórt hlutverk þegar kemur að því að draga úr insúlínviðnámi, skertu sykurþoli og sykursýkis tengdum fylgikvillum hjá fólki með T2DM. Bæði þol- og styrktarþjálfun leiða af sér betri stjórn á blóðsykri, blóðfitum, blóðþrýstingi, hjarta- og æðavandamálum og auknum lífsgæðum en hreyfingu þarf að stunda reglulega (Colberg o.fl., 2010). Því er líkamleg hreyfing ásamt hollu mataræði mikilvægur hlekkur í heilsu þeirra sem eru með T2DM (Colberg o.fl., 2010; Umpierre o.fl., 2011). Í viðmiðum við meðferð á T2DM stendur að ef HbA1c- gildið er 48 mmól/mól, sem eru greiningarviðmið sykursýki, er mikilvægt að leggja áherslu á einstaklingmiðaða þjónustu, mataræði, hreyfingu, þyngdarstjórnun og lyfjameðferð. Fari HbA1c- gildið yfir 53 mmól/ mól þá er Metformin algengast sem fyrsta lyf en nú er einnig mælt með að nota sodium-glucose cotransporter 2-inhibitor (SGLT2i) lyf vegna verndandi áhrifa þeirra á hjarta- og æðakerfi. Ef HbA1c- hækkun heldur áfram þá er öðrum blóðsykurslækkandi lyfjum bætt við, eftir því sem við á, og/eða insúlínmeðferð. Einnig hafa glucagon-like peptide-1 (GLP-1 hliðstæðulyf (analog)) verið notuð vegna áhrifa á blóðsykursstjórn ásamt verndandi áhrifa á hjarta- og æðakerfi. Meta þarf meðferð á þriggja til sex mánaða fresti þar til tilsett markmið nást og að minnsta kosti árlega eftir það. Skoða þarf hverja meðferð út frá einstaklingnum sjálfum (Davies o.fl., 2022; Inzucchi o.fl., 2012; NICE, 2021). Mikilvægt er að einfalda fólki með sykursýki að sjá sjálft um sjúkdóminn. Einstaklingurinn þarf að takast á við áskoranir daglegs lífs sem fylgja sykursýkinni þar sem taka þarf tillit til og samþætta hreyfingu, mataræði og lyfjameðferð, allt þetta krefst þess að einstaklingurinn þekki sjálfan sig og sjúkdóm sinn. Til að ná sem bestum árangri þarf einstaklingurinn að hafa trú á eigin getu en það er talið ýta undir betri sjálfsumönnun en þar gegnir fræðsla lykilhlutverki (Aragón, 2019; Árún K. Sigurðardóttir 2009; Emery o.fl., 2019). Tilgangur rannsóknarinnar var að greina afturvirkt árangur eftirfylgni hjúkrunarstýrðrar sykursýkismóttöku innan heilsu- gæslu og bera saman við alþjóðleg viðmið. Ásamt því að rannsaka lyfjanotkun skjólstæðinganna og veitta þjónustu innan sykursýkismóttakanna. Sett var fram tilgáta um að lækkun verði á seinni mælingu HbA1c gildi, blóðfitum (kólesteróli, HDL og þríglýseríði), blóðþrýstingi og LÞS hjá einstaklingum sem notið hafa þjónustunnar. AÐFERÐ Megindleg afturvirk ferilrannsókn (e. retrospective cohort study). Þátttakendur Í þýði rannsóknarinnar voru skjólstæðingar (N=101) sem þáðu þjónustu sykursýkismóttöku innan heilsugæslu Heilbrigðis- stofnunar Norðurlands (HSN) í Fjallabyggð og Dalvík frá ársbyrjun 2019 til loka árs 2020. Í úrtaki voru allir (n=88) sem uppfylltu þau skilyrði að hafa tvær HbA1c-mælingar með a.m.k. sex mánaða millibili. Viðmið meðferðar Þegar viðmið meðferðar voru metin var horft til alþjóðlegra við- miða sem klínískar leiðbeiningar sykursýkismóttöku byggja á í þjónustu sinni (ADA, 2022; IDF, 2021b; ÞÍH, e.d.). Stuðst var við eftirfarandi alþjóðleg viðmið: HbA1c<53 mmól/mól, kólesteról<5 mmól/l, HDL>1,3 mmól/l, þríglíseríð <1,7 mmól/l, blóðþrýstingur<140/80 og LÞS<30 kg/m2 (ADA, 2022; IDF, 2017; WHO, 2020).

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.