Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Síða 93
Fræðslugrein
91Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 100. árg. 2024
Á milli kafla í fræðslugreininni eru verkefni (merkt ,,staldraðu við“)
sem ætluð eru til þess að styðja við nám lesenda. Eftir að hafa lesið
greinina og lokið verkefnunum sem henni fylgja ætti lesandi að:
1. Geta útskýrt hvað felst í endursagnaraðferðinni.
2. Geta útskýrt af hverju er mikilvægt að nota aðferðina í
sjúklingafræðslu.
3. Geta beitt aðferðinni í samskiptum við sjúklinga.
4. Hafa ígrundað eigin hæfni í samskiptum og fræðsluhlutverkinu.
Staldraðu við
Ígrundaðu starf þitt
Manstu eftir atviki þar sem sjúklingur sem þú veittir fræðslu:
- Sýndi lítinn áhuga á fræðslunni?
- Tók ekki þátt í fræðslunni, hlustaði en spurði einskis?
- Fylgdi ekki þeim leiðbeiningum sem komu fram í fræðslunni?
- Spurði þig spurninga um það sem þú taldir þig þegar hafa frætt hann um?
Hvernig brást þú við?
- Veltir þú því fyrir þér hver ástæðan gæti verið?
- Hvað hefðir þú getað gert öðruvísi?
Sjúklingafræðsla
Skýr upplýsingagjöf og sjúklingafræðsla er mikilvæg í heil-
brigðisþjónustu. Það er sífellt lögð meiri áhersla á samráð
og þátttöku sjúklinga í ákvarðanatöku um eigin meðferð og
sjálfsumönnun. Einnig er lögð áhersla á þátttöku þeirra á öllum
stigum í undirbúningi og framkvæmd rannsókna, við gerð klínískra
leiðbeininga og þegar opinberar stefnur eru mótaðar samanber
Heilbrigðisáætlun Íslands til 2030 (heilbrigðisráðuneytið, 2019).
Til þess að sjúklingar geti verið þátttakendur þurfa þeir meðal
annars að búa yfir nægilegri færni og þekkingu og skilja þær
upplýsingar og leiðbeiningar sem þeir fá. Í sjúklingafræðslu hefur
notkun endursagnaraðferðarinnar verið skilgreind sem einn af tíu
mikilvægum þáttum sem einkenna árangursríka sjúklingafræðslu
(HCEA, 2022; Institute for Healthcare Advancement, e.d). Þessir 10
þættir eru sýndir í töflu 1.
Þættir sem hafa áhrif á nám sjúklinga
Það eru margir þættir sem geta hindrað nám sjúklinga og
dregið úr árangri fræðslu. Þessir þættir geta tengst stofnunum,
heilbrigðisstarfsmönnum eða sjúklingunum sjálfum eins og fram
kemur á mynd 1.
Staldraðu við
- Kynntu þér hvort stofnunin sem þú starfar hjá hafi stefnu um fræðslu til notenda
þjónustunnar og ef svo er, hvað stendur í henni?
- Ígrundaðu hvernig fyrirkomulag fræðslu er á stofnuninni.
- Ígrundaðu eigin hæfni til að skipuleggja og veita fræðslu. Hversu góð er hún,
hvar og hvernig öðlaðist þú hæfnina og eru einhverjir þættir sem þú myndir vilja
bæta hæfni þína í?
Fræðsluferlið í fjórum skrefum
Til þess að sjúklingafræðsla beri árangur þarf að nota gagn-
reyndar aðferðir við framkvæmd hennar. Leiðbeiningar um
slíkar aðferðir má finna í nýlegum klínískum leiðbeiningum um
skipulagningu og framkvæmd sjúklingafræðslu en íslensk útgáfa
þeirra er aðgengileg á heimasíðu Miðstöðvar sjúklingafræðslu á
Landspítala (HCEA, 2022). Fræðsla byggð á gagnreyndri þekkingu
felur í sér að fylgja fjórum skrefum fræðsluferlisins sem eru
forkönnun (upplýsingaöflun eða mat á sjúklingi og aðstæðum),
skipulagning, framkvæmd og mat á árangri fræðslu (HCEA, 2022).
Það er okkar reynsla að heilbrigðisstarfsfólk leggur megináherslu
á að veita upplýsingar þegar það fræðir sjúklinga og aðstandendur
en mat á árangri fræðslunnar sem er eitt það mikilvægasta, er það
skref sem oftast er vanrækt í fræðsluferlinu. Mælt er með að nota
endursagnaraðferðina til þess að meta árangur af fræðslunni.
Staldraðu við
Skoðaðu eftirfarandi efni og umfjöllun þar um fræðslu:
1. Heilbrigðisstefnu til 2030¹
2. Leiðbeiningar um skipulagningu og framkvæmd sjúklingafræðslu²
3. Siðareglur hjúkrunarfræðinga³
Hvar sérðu tækifæri til að efla þig í hlutverki fræðarans í starfi þínu?
Vefslóðir:
¹https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/
Heilbrigdisstefna_4.juli.pdf
²https://www.landspitali.is/library/Sameiginlegar-skrar/Fagfolk/Midstod-sjuklingafraesdlu/
Leidbeinginar-um-skipulag-og-framkvaemd-sjuklingafraedslu.pdf
³https://prismic-io.s3.amazonaws.com/hjukrun/62abbf82-8c5f-446b-9991-638795d72fa0_
Si%C3%B0areglur_2022.pdf
Tafla 1. Tíu atriði sem einkenna árangursríka
sjúklingafræðslu
1. Fræðsla er einstaklingshæfð og tekur mið af þörfum og aðstæðum
sjúklinga og aðstandenda.
2. Fræðsla er byggð á mati á fræðsluþörfum og heilsulæsi.
3. Valin er sú fræðsluaðferð sem hentar sjúklingi.
4. Sjúklingur tekur þátt í fræðslunni.
5. Notað er lesvænt skriflegt fræðsluefni til stuðnings munnlegri fræðslu.
6. Notað er einfalt og skýrt mál, án slangurs.
7. Áhersla er lögð á 2-3 mikilvæg lykilatriði hverju sinni og byrjað á mikil-
vægustu atriðunum.
8. Fræðsla er ferli. Hún þarf að fara fram reglulega og endurtekið og taka
mið af breytingum á þörfum sjúklings yfir tíma.
9. Aðstandendur eru þátttakendur ef sjúklingur samþykkir það.
10. Endursagnaraðferðin er notuð til að meta árangur fræðslunnar.
Þættir sem geta
ha áhrif á nám
sjúklinga
STOFNUN
-Sýn og stefna
-Forgangur í daglegri þjónustu
-Aðstaða, kennslugögn
-Hæfni starfsfólks
HEILBRIGÐISSTARFSMAÐUR
-Hæfni í samskiptum og fræðsluhlutverki
-Beiting gagnreyndrar þekkingar
SJÚKLINGUR
-Ófullnægjandi heilsulæsi
-Tungumálaerfiðleikar
-Hugræn skerðing
-Vanlíðan og einkenni
Mynd 1. Nokkrir þættir sem geta haft áhrif á nám sjúklinga.