Goðasteinn - 01.09.2004, Page 52
Goðasteinn 2004
Matur og drykkur var ekki við nögl skorinn og hljómlistarmenn gengu milli
borða og spiluðu, þó mest nær æðri endanum. Aftur fórum við á hátíðarsvæðið
um kvöldið og hafði fólki fjölgað þar til muna.
Á sunnudeginum fórum við frá hótelinu kl. 9, kappklædd í þjóðbúning í yfir 40
gráðu hita. Þegar á hátíðarsvæðið kom, var allt orðið fullt af fólki. Bílastæðin
voru full af gömlum Lödum, Traböntum og mikið af IMT-dráttavélum af eldri
gerðum, flestum með greiðusláttuvélar áfastar. Þetta voru faratæki bænda og búa-
liðs úr nágrannabyggðum, og var algengt að sjá 5-6 manna fjölskyldur koma
akandi á dráttarvélum í sínu fínasta pússi, karlinn ók, konan sat aftan á en
krakkarnir hengu einhvers staðar utan á.
Sölumennska var þarna í algleymi, sölutjöldin í tugum með alls kyns dót á
hlægilegu verði.
Undrandi var ég að sjá sölubás fyrir búvélavarahluti þar sem mest bar á tindum
og Ijáblöðum og þessháttar í greiðusláttuvélar, eins og notað var hér heima á
síðustu áratugum.
Um hádegisbil voru sláttukeppendur kallaðir saman og var það æði skrautlegur
hópur. Hvert hérað í Serbíu hafði sérstakan búning, mjög litskrúðugan en
smekklegan.
Hópurinn taldi á þriðja tug þátttakenda. Var þeim stillt í einfalda röð með orfin
um öxl. Gengið var í átt til sláttuvallarins sem var í 4-500 m fjarlægð. Sungu
Serbar við raust alla leiðina og skemmtu sér hið besta.
Þegar á völlinn var komið var tekin æfing, menn slógu nokki'ar brýnur eins og
sagt var. Serbar sungu, hlógu og skemmtu sér auðsjáanlega vel. Meðan á æfing-
unni stóð gengu prúðbúnar blómarósir um beina og skenktu sláttumönnum eld-
sterkan landa úr leirbrúsa. Ekki varð maður var við nein áhrif af þessum drykk,
enda hitinn yfir 40 gráður og ég kappklæddur í íslenska ull.
... Fljótlega kom í ljós að hvorki maður né orf frá íslandi voru
samkeppnishæf við Serba. Þegar ég hafði slegið hvað mest ég mátti í
nokkurn tíma hafði sá við hlið mér lokið sinni spildu og kom mér til
hjálpar....
Þá var komið að sjálfri keppninni. Hver maður fékk sinn reit, sem var ca. 4 x
15 m. og var þeim raðað hlið við hlið. Fyrst var blásið í lúðra og síðan var gefið
merki um að hefja sláttinn. Fljótlega kom í ljós að hvorki maður né orf frá Islandi
voru samkeppnishæf við Serba. Þegar ég hafði slegið hvað mest ég mátti í
nokkurn tíma hafði sá við hlið mér lokið sinni spildu og kom mér til hjálpar. Varð
það til þess að Island varð ekki í neðsta sæti.
-50-