Goðasteinn - 01.09.2004, Qupperneq 130
Goðasteinn 2004
voru þeir einnig dregnir af 2-3 hestum. Til flutninga innan sveitar voru notaðir
hestvagnar sem var mikil framför frá reiðingunum sem voru einu flutningatækin
um aldamótin]900. Mig minnir að fyrstu hestvagnarnir hafi komið í Austur-
Landeyjar 1904-5.
Árið 1943 held ég að kennt hafi verið á tveimur stöðum, á Krossi þar sem var
sérstök skólastofa í þinghúsinu með borðum og áföstum bekkjum og svartri töflu
á vegg, og í Álftarhól var kennt í 5-6 ár í litlu herbergi, sem var 2,38x2,38 m, eða
5,66 fermetrar, það er að segja minna heldur en flest barnaherbergi eru í dag í
eldri húsum, sem þykja þó lítil. Þarna voru að sjálfsögðu engin hjálpartæki, enda
ekki pláss. Bara borð og bekkir. Upphitunin í stofunni var dálítið sérstök. Það var
ofn sem þeir bræður Engilbert og Björgvin Olafssynir í Álftarhól höfðu smíðað
með því að leiða reykinn frá eldavélinni sem var hinum megin við vegginn í röri
gegnum stofuna.
Kennari og skólastjóri var Elimar Tómasson, ættaður úr Mýrdalnum. Hann var
faðir hennar Gerðar sem bjó í Hólmum, listagóður kennari sem kenndi 15 ár í
Austur-Landeyjum. Hann kenndi allar greinar, var listaskrifari og skrifaði for-
skriftina sjálfur með þeim árangri að mikill fjöldi af nemendum hans hafði óvenju
fallega rithönd, þó að sjálfsögðu væru á því undantekningar sem ég er góður full-
trúi fyrir.
Það var venja að seinnipart vetrar þegar börnin voru orðin 9 ára fóru þau eina
viku í skólann til að venjast við, en í skólanum voru allir samtímis í stofunni frá 9
til 14 ára.
Allir fóru gangandi. Ég gekk t.d.upp að Álftarhól með Hólmfríði systur minni.
Við gengum beint austur á horn þar sem vegurinn niður að Bakka kemur. Við
fórum í beina sjónhendingu yfir mýrina því vegurinn var ekki kominn nærri alla
leið. Síðan fórum við veginn upp á móts við bæinn og svo beint heim að Álftar-
hól.
Fátt man ég frá þessari fyrstu skólaviku, nema það að ég fór einn daginn fram í
eldhús til Sigurbjargar húsfreyju, langömmu þeirra systkina í Álftarhól, Gularási
og Lágafelli, og bað um að gefa mér að drekka, bjóst við vatni, en hún fékk mér
fullan bolla af rjómablandi og gott klapp á kollinn. Enn finn ég hlýjuna sem
fylgdi þessu klappi.
Þetta vor fór ég í vorpróf að Krossi. Þar mættu allir nemendur í sameiginlegt
próf. Þangað fór ég ríðandi. Eins og ég minntist á fyrr var vegurinn sem við
þekkjum í dag ekki kominn nema á blaði, heldur lá leiðin fyrst í norður frá
bænum eftir rimateygingum í norðvestur, upp fyrir Vatnshólsfjárhús sem voru um
það bil 5-600 m beint í norður frá Ljótarstaðaveginum. Þaðan lá leiðin vestur fyrir
Borgarhól, sem eru háu hólarnir í norðaustur frá Kúfhól, síðan í suðvestur
skammt fyrir vestan Kúfhólsbæ eftir rimateygingum og upphlöðnum vegaspottum
-128-