Goðasteinn - 01.09.2004, Side 161
Goðasteinn 2004
Látnir 2003
Ásta, eins og hún var svo oft kölluð, tók snemma á móti gleði vorsins í nálægð
fjallanna hennar við vatnið í mýrinni, þar sem svanirnir settust fyrst á vorin,
þreyttir eftir langt flug frá suðlægum löndum. Hiín var send að heiman aðeins níu
ára gömul, til að vinna fyrir sér hjá Jóhanni P. Reykdal, bakara og konu hans í
Vestmannaeyjum og var hjá þeim samfellt í þrjú ár. Hún kom síðan heim og fór
fljótlega að vinna fyrir sér og heimilinu, fyrst víða í kaupavinnu í sveitinni og
síðar í Vestmannaeyjum, í vist, en alltaf kom hún heim í Efri-Kvíhólma á sumrin
og hjálpaði við heyskapinn og störfin sem kölluðu á hana þar. Frásagnargleði hen-
nar kom snemma fram og naut hún þess heima í starfi og leik hjá Ung-
mennafélaginu Trausta, þar sem hún var þátttakandi í mörgum leikritum. Hún var
jafnan gleðigjafi heima í litlu baðstofunni, söng, flutti Ijóð og sagði sögur af því
hversdagslega, sem svo oft varð ævintýri í skemmtilegri frásögn hennar.
1935 stofnaði hún heimili að Langahvammi í Vestmannaeyjum með manni
sínum, Sigurgeiri Þorleifssyni frá Miðhúsum í Hvolhreppi og eignuðust þau dótt-
ur, Júlíu, 1937. Saman varð fjölskyldan að takast á við kreppu þessa tíma, berjast
um að fá vinnu og reyna að halda henni með því að vera trú og samviskusöm og
leggja sig fram. Sigurgeir var góður fiskaðgerðarmaður og Ásdís vann við fisk-
vinnslustörf utan heimilisins. Heimilið var alltaf í fyrirrúmi hjá henni. Hún talaði
við blómin sín, söng heima og las nær allar bækur bókasafnsins í Eyjum. Garður-
inn hennar blómstraði á vorin með fyrstu görðum bæjarins og bar með sér
umhyggju hennar gagnvart öllum gróðri. Og nær alltaf átti hún sinn heimiliskött,
sem hún talaði við. Á þessum árum tók hún þátt í réttindabaráttu verkafólks og
var valin til forystu og trúnaðar. Hún var tilbúin að beita verkfallsrétti í baráttunni
og 1. maí var dagurinn hennar. Hún vildi fá að njóta starfs síns, en bætur var hún
ekki tilbúin að þiggja. Öll þessi ár fór hún heim í Efri-Kvíhólma á sumrin og því
hélt hún áfram fram undir 1960. Svo sterkt höfðaði æskuheimilið alltaf til hennar.
1950 dó maður hennar og 1953 eignaðist hún Héðin Heiðar með Baldri
Sigurlássyni. Börnin hennar tvö voru gleðigjafi hennar, sem hún lifði fyrir. Hún
vildi vera þeim sem móðir og faðir og þegar þau urðu eldri, vildi hún vera þeim
sem jafningi og félagi. Júlía flutti ung að heiman og stofnaði sitt heimili, en
Héðinn ólst upp með móður sinni.
Við gosið í Vestmannaeyjum 1973 flutti hún með syni sínum til Keflavíkur og
áttu þau sitt heimili þar. Eins og í Vestmannaeyjum starfaði hún þar við fisk-
vinnslu, átti sitt fallega heimili, ræktaði garðinn sinn og líf sitt í samfélagi við
fólkið sitt, eins og hún kallaði það, ættingja sína, frændfólk og vini.
Þannig liðu árin með sínum fasta og óbifanlega hrynjanda hjá Ásdísi, þar sem
hún var sátt og glöð. Árin færðust yfir og hún var heilsuhraust og því vildi hún
vera heima eins lengi og hægt var, enda naut hún nálægðar við fólkið sitt. Árið
2000 flutti hún á hjúkrunarheimilið Víðihlíð í Grindavfk þar sem hún andaðist 10.
maí. Útför hennar fór fram frá Ásólfsskálakirkju 24.5. 2003.
Sr. Halldór Gunnarsson
-159-