Goðasteinn - 01.09.2013, Blaðsíða 15
13
Goðasteinn 2013
En leið þín hefur sýnilega legið í höfuðstaðinn, eins og svo margra?
Já, en þó ekki alveg beina leið. Ég fór í framhaldsskóla og var fyrsta vet-
urinn í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Síðan fór ég alveg í bæinn og hef
ekkert farið þaðan aftur.
Fórstu þá í Myndlista- og handíðaskólann?
Ég byrjaði á því að fara í Fjölbrautaskólann í Breiðholti, en þaðan tók ég
stúdentspróf frá listasviði. Ég ákvað það mjög ung, hvað ég ætlaði að verða
þegar ég yrði stór, svona innan vissra marka. Ég ætlaði að verða myndlist-
armaður, arkitekt eða grafískur hönnuður. Ætli ég hafi ekki verið svona níu
ára, þegar ég ákvað, að ég yrði að gera eitthvað af þessu.
Hvað heldurðu að hafi valdið því?
Ég held að einn kennara minna á laugalandi, Birna Bjarnadóttir, hafi kveikt
áhugann hjá mér á þessu sviði. Hún var góð að ná því besta fram í nemendum
sínum. Já, ég held að hún hafi komið mér á flug. Annars var ég alltaf krotandi
eða teiknandi ef það var blað einhvers staðar nálægt, eða bara mjólkurferna,
það var nóg fyrir mig.
Þannig að það hefur ekki margt komið til greina eftir stúdentsprófið?
Nei, ég fór í Myndlista- og handíðaskólann í beinu framhaldi af stúdents-
prófinu og kláraði hann í Nýlistadeild. Ég fór einnig til Þýskalands, þar sem ég
var við myndlistarnám í Hamborg í tæpt ár. Þetta var mun opnara nám heldur
en í Myndlista- og handíðaskólanum hér heima. Hér var hefðbundin kennsla
með kennara, en þarna úti fékk maður herbergi og síðan mætti prófessor á
vissum dögum. Þá var maður tekinn í gegn; fékk að vita hvað gengi upp annars
vegar og hins vegar hverju mætti hreinlega henda. Þetta var vissulega ólíkt því
sem maður átti að venjast, en maður hafði aftur á móti mjög gott af því.
Hvort fannst þér betra?
Þarna fann ég það vel, hvað ég er mikill Íslendingur í mér. Samt finnst mér
gott að hafa farið til Þýskalands. Þetta var góður lífsins skóli. Það er eðlilegt,
að allir vilji komast út og sjá heiminn, en eftir þetta vissi ég, að minn heimur
er á Íslandi.
Eftir skólann tók ég mér smá frí frá listinni, í svona eitt og hálft ár. Svo
skrýtið sem það er, þarf maður að ná sambandi við sjálfa sig til að geta skap-
að. Ég sat mörg kvöld við, en ekkert gekk. Svo einn daginn kom það; ég náði
sambandi. Síðan hef ég ekki hætt. Það var þá, sem kindin datt inn.