Jólapósturinn - 01.12.1948, Blaðsíða 44
Gisli Guðmundsson
Hrakningar á Winnipegvatni
Það hefir ekki þótt heiglum hent, að stunda veiðar á Winnipeg-
vatni í Kanada á haustvertíð. Þá er allra veðra von á vatninu, og
hafa fílefldir karlmenn oft gugnað við þenna starfa.
I eftirfarandi grein bregður Gísli Guðmundsson, tollvörður, upp
glöggri mynd af lífinu þarna vestur frá, en hann er þar vel kunnug-
ur; var þar um skeið og þekkir af eigin raun það, sem liann lýsir.
ETTA er saga um hrakninga og
harðfengi tveggja íslendinga, sem
þeir lentu í að haustlagi á Winnipeg-
vatni. Þessir menn, við skulum kalla þá
Magnús og Kristján, voru að veiðum í
verstöð á stórri eyju í norðanverðu
Winnipegvatni, ásamt nokkrum öðrum
fiskimönnum. Gæftir höfðu verið mjög
stirðar þetta haust, sífelld rok og
straumar svo stríðir, að þá daga, sem
gaf, var tæpast unnt að hemja netin í
vatninu. En um miðjan október fór tíð-
in að stillast og kólna og um leið kom
nægur fiskur, svo að nú var ekki slegið
slöku við. Þeir félagar voru báðir vík-
ingsmenn og eftir því kappsfullir, eink-
um þá Kristján, og mátti heita að þeir
ynnu nótt með degi og sinntu lítt svefni
eða hvíld, enda hver síðastur, áður en
ísa tæki að leggja.
Svo var það einn morgun, eftir lið-
lega viku aflahrotu, að þeir félagar fóru
að vitja um net, sem þeir áttu í vatn-
inu, við smáeyju, í um 5 km. fjarlægð.
Vegna stöðugra næturfrosta var vatnið
nú farið að leggja þar sem straumlaust
var og grynnra. Þeir félagar lögðu af
stað í myrkri, og höfðu með sér nesti:
ketbita, dálítið brauð og smjör, sykur
og teblöð. Ætlunin var sú, að skreppa
í land á eyjunni, er þeir væru búnir
að vitja um, og hita sér þar tesopa með
bitanum. Veður var stillt og heiðskírt
og frjósandi. Sóttist þeim vel róðurinn
og voru komnir á netin um birtingu.
Skömmu eftir að þeir voru farnir að
draga netin, tók að kula á norðan og
loftið að korgast, og innan stundar var
komið hraglandakafald. Þeir félagar sáu
fljótlega, að norðanóveður var í aðsigi
og þótti nú ráð sitt óvænkast, þar sem
þeir áttu móti veðrinu að sækja heim.
En ekki vildu þeir yfirgefa netin í vatn-
inu, fyrr en í fulla hnefana, því þeir
vissu, sem var, að þau sem þeir skildu
eftir, væru þeim töpuð að fullu. Þeir
kepptust við af öllum mætti, en veðrið
fór síversnandi og fannkoma óx stöð-
ugt. Ekki bætti það úr skák, að eyjan
var löng og mjó og lá frá suðri til norð-
urs, svo að stormurinn náði sér niðri
báðum megin við hana. Það leið því
42