Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Blaðsíða 27
29
Þorgerður Einarsdóttir
Íslands, með yfir 90 ára millibili. Sú fyrri er sett fram á erfiðleikaárinu 1917 og sú síðari eftir
hrunið 2008.4 Báðar ályktanirnar fela í sér mikilsverðar upplýsingar um þjóðfélagsástandið,
samfélagslega hlutdeild kvenna og gerendahæfni (e. agency). Ályktanirnar hljóða svo:
Fundurinn mótmælir þeirri ráðstöfun landsstjórnar og bæjarstjórnar að ganga fram
hjá konum við skipun dýrtíðarnefnda, og skorar á þessi stjórnvöld að bæta tveimur
konum við í verðlagsnefnd, matarnefnd og húsaleigunefnd, hverja fyrir sig. Sömuleiðis
að verði fleiri nefndir skipaðar í dýrtíðarmálum, þá verði þær hlutfallslega jafnt
skipaðar konum og körlum ([Bríet Bjarnhéðinsdóttir], 1917c: 41).
Kvenréttindafélag Íslands harmar það ástand sem upp er komið á fjármálamörkuðum
og hjá fjármálastofnunum landsins. Við yfirtöku ríkisins á fjármálastofnunum hefur
Fjármálaeftirlitið skipað þrjár skilanefndir. Aðeins tvær konur eru meðal þeirra
fimmtán sem skipaðir hafa verið í nefndirnar. Kvenréttindafélag Íslands krefst þess að
Fjármálaeftirlitið fari að íslenskum lögum eins aðrar stofnanir og gæti að hlutfalli
kynjanna þegar skipað er í nefndir (Kvenréttindafélag Íslands, 2008).
Kreppa. Nokkur orð um hugtakið kreppu áður en lengra er haldið, en orðið „kreppur“ kemur
fyrir í yfirskrift greinarinnar. Ólafur Páll Jónsson og Guðmundur Jónsson ræða margvíslega
merkingu hugtaksins í þemahefti Ritsins, „Eftir hrunið“, árið 2009. Ólafur Páll vísar í
hagfræðilega skilgreiningu á kreppu en hún er þegar þjóðarframleiðsla dregst verulega saman
tvo ársfjórðunga í röð. Ólafur Páll undirstrikar mikilvægi þess að horfa ekki einungis á ytri
hlið kreppunnar heldur einnig aðrar hliðar svo sem sjálfsmyndarkreppur og sálrænar kreppur
og hvernig þær hafa sett mark sitt á íslenskan samtíma (Ólafur Páll Jónsson, 2009).
Guðmundur rýnir í kreppur frá sögulegu sjónarhorni, m.a. ástandið í fyrri heimsstyrjöldinni,
eftirstríðsárakreppuna 1920-1923, efnahagserfiðleika, pólitíska ólgu, heimskreppuna á 4.
áratugnum og seinni heimsstyrjöldina (Guðmundur Jónsson, 2009).
Í íslensku samhengi er algengast að vísað sé til 4. áratugar síðustu aldar sem
„kreppuáranna“ og ekki er venja að tala um erfiðleikaárin í kringum fyrri heimsstyrjöldina
sem kreppuástand. Lýsingar og vitnisburður um ástandið á þeim tíma gefa þó til kynna að
mjög hart hafi verið í ári og í því samhengi er vert að huga að orðum Ólafs Páls um huglægar
og sálfræðilegar hliðar á kreppum. Þótt kreppan á fjórða áratugnum hafi fengið það heiti í
sögulegu minni þjóðarinnar er ljóst að erfiðleikar voru mjög miklir á árunum kringum fyrra
stríð. Guðjón Friðriksson fjallar um tímabilið 1914-1918 undir yfirskriftinni „Stríðsþreng-
ingar“ í bók sinni Saga Reykjavíkur (1994: 3). Hann segir að frá 1916 til 1918 hafi ríkt
neyðarástand í Reykjavík og hafi það lýst sér í atvinnuleysi, húsnæðisvandræðum, verðbólgu
og skorti á eldsneyti, matvælum og byggingarefni. Við þetta bættist frostaveturinn mikli 1918
og spænska veikin (Guðjón Friðriksson, 1994). Það er með tilvísun í þessar aðstæður sem hér
á eftir er vísað til samtíma okkar og áranna kringum fyrri heimsstyrjöldina sem kreppu-
ástands.
Kyngervi. Kynjavíddin í fræðilegri umræðu er gjarnan á tveimur plönum sem birtast í
aðgreiningu í kyn (e. sex) og kyngervi (e. gender). Á nokkuð einfaldan hátt má segja að
hugtakið kyn snúist um líffræðilegt kyn og hausatölu. Hugtakið kyngervi er eitt helsta grein-
ingartæki nútíma kynjarannsókna og hefur víðari skírskotun. Með því er hugtakið kyn víkkað