Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Qupperneq 29
31
Þorgerður Einarsdóttir
kyngervi. Hugtakið þegnréttur gefur möguleika á að skoða hvernig konur eru „meðteknar“ í
samfélaginu (e. inclusion); hvernig hlutdeild þeirra og samfélagslegri þátttöku er háttað og á
hvaða forsendum þær eru taldar með, í stað þess að beina sjónum að útilokun þeirra (e.
exclusion) eins og títt er um kynjakerfiskenningar (e. patriarchy, gender order) (sjá t.d.
Walby, 1997).
Fyrri heimsstyrjöldin – lagalega rétthæstar kvenna í víðri veröld
Ísland var landbúnaðar- og fiskiveiðisamfélag árið 1917 þegar Kvenréttindafélagið gagnrýndi
fjarveru kvenna úr dýrtíðar- og bjargráðanefndunum. Um 60% landsmanna unnu við
landbúnað og fiskveiðar en iðnvæðing var varla hafin (Guðmundur Jónsson og Magnús S.
Magnússon, 1997). Fyrri heimsstyrjöldin stóð sem hæst og á Íslandi gekk í garð
erfiðleikatímabil sem stóð allt fram til 1920. Það hafði í för með sér versnandi viðskiptakjör
og hækkandi verðlag, auk minnkandi fiskafla vegna sölu á helmingi togaraflotans (Magnús S.
Magnússon, 1993). Í Kvennablaðinu var fjallað um atvinnuleysi, vöruskort og
skömmtunarkerfi (Bríet Bjarnhéðinsdóttir, 1917b). Eins og fram kom hér að framan talar
Guðjón Friðriksson um „neyðarástand“ í Reykjavík (Guðjón Friðriksson, 1994:3). Verkafólk
og bændur bjuggu við ótrygga afkomu. Fyrri heimsstyrjöldin raskaði því valdakerfi sem ríkt
hafði á heimastjórnartímabilinu og ýtti undir samtakamyndun bænda og verkafólks með
stofnun Framsóknarflokks og Alþýðuflokks árið 1916 (Gunnar Helgi Kristinsson, 1993).
Verkalýðshreyfingunni óx ásmegin og stéttaátök hófust fyrir alvöru. Áfram voru konur þó
jaðarsettar í hinu nýja valdakerfi og gilti þá einu hvort um var að ræða stéttarfélög, pólitíska
flokka eða stjórnkerfið.
Íslenska þjóðin var í miðri sjálfstæðisbaráttu og konur í kvenfrelsisbaráttu (Sigríður
Matthíasdóttir, 2004). Konur höfðu fengið rétt til náms, styrkja og embætta árið 1911. Annars
staðar á Norðurlöndum höfðu konur fengið rétt til að nema við háskóla talsvert fyrr, eða á
árunum 1873-1901. Ísland var hins vegar fyrsta landið til að veita konum rétt til opinberra
embætta á sama tíma og rétt til náms, hvergi annars staðar hafði slíkt verið gert. Konur í Dan-
mörku fengu rétt til embætta árið 1921 og konur í Noregi 1938 (Bergqvist, 1999, Sigríður Th.
Erlendsdóttir, 1993). Þegar kosningarétturinn fékkst þessu til viðbótar, fyrir konur 40 ára og
eldri, ríkti mikil bjartsýni meðal íslenskra kvenna sem töldu sig nú hafa ákveðna sérstöðu:
„Þannig erum vér, íslenzkar konur, lagalega rétthæstar allra kvenna í víðri veröld“, eins og
Inga Lára Lárusdóttir sagði í fyrsta tölublaði 19. júní árið 1917 (Inga Lára Lárusdóttir, 1917:
1).
Margar kvenréttindakonur töldu að pólitískum réttindum fylgdi skyldan til þátttöku.
Um leið og konur fengu rétt til þátttöku í bæjarmálum buðu þær fram sérstakan kvennalista og
fengu fjórar konur kjörnar í bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1908 (Sigríður Th. Erlendsdóttir,
1993). Bríet Bjarnhéðinsdóttir, sem var formaður Kvenréttindafélagsins og gaf út Kvenna-
blaðið, hvatti konur til að láta til sín taka á vettvangi stjórnmála, með beinni þátttöku þar sem
þær höfðu kosningarétt eins og í bæjarmálum, og með óbeinni þátttöku þar sem þær höfðu
hann ekki, svo sem í landsmálum (sjá [Bríet Bjarnhéðinsdóttir], 1911 og 1913). Sjálf nýtti
Bríet pólitísk réttindi sín óspart. Hún var fjórða á lista Heimastjórnarflokksins árið 1916.
Listinn fékk þrjá kjörna en Bríet féll niður um sæti vegna útstrikana. Hún var annar
varamaður og fór aldrei á þing (Sigríður Th. Erlendsdóttir, 1993: 139). Þetta gaf forsmekkinn