Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Side 30
32
að því sem koma skyldi. Konum var ekki greiður aðgangur að hinu pólitíska kerfi. Fyrsta
konan á Alþingi var Ingibjörg H. Bjarnason, kosin af sérstökum kvennalista árið 1922.
Þróunin var afar hæg fram eftir öldinni. Í 68 ár eftir að konur fengu pólitísk réttindi, frá 1915
til 1983, voru þrjár eða færri konur á Alþingi og stundum engin. Margir flokkar voru seinir að
treysta konum fyrir þingmennsku og ráðherraembættum (Þorgerður Einarsdóttir og Guðbjörg
Lilja Hjartardóttir, 2009).
Á fyrstu áratugum 20. aldarinnar var ríflega þriðjungur kvenna virkur á vinnumarkaði.
Um það bil helmingur þeirra tilheyrði stétt vinnukvenna og ríflega þriðjungur vann í
landbúnaði og iðnaði (Guðmundur Jónsson og Magnús S. Magnússon, 1997).
Atvinnuþátttakan var mest meðal fátækra kvenna og kjör þeirra voru bágborin. Fiskvinna og
„eyrarvinna“ var algeng og þar voru laun kvenna oft um helmingur af launum karla (Bríet
Bjarnhéðinsdóttir, 1915: 2). Hagtölur sýna að árið 1917 átti hver kona 3,8 börn en ekki eru til
sundurgreindar upplýsingar um atvinnustöðu kvenna eftir hjúskap og barnafjölda. Vel yfir
helmingur ógiftra kvenna var virkur á vinnumarkaði, eða 57%, á móti um 5% giftra kvenna.
Um það bil tíunda hvert barn var fætt utan hjónabands á árunum 1900 til 1930 (Guðmundur
Jónsson og Magnús S. Magnússon, 1997). Líklegt er að mæður þeirra barna hafi þurft að
framfleyta sér og því má leiða getum að því að margar þeirra ógiftu kvenna sem voru á
vinnumarkaði hafi haft fyrir börnum að sjá.
Kvenréttindafélagið hafði starfað síðan 1907 og beitt sér í málefnum verkakvenna.
Eftir þreifingar og baráttu félagsins höfðu laun kvenna hækkað nokkuð en sumarið 1914
höfðu ýmsir atvinnurekendur lækkað launin (úr 20 aurum niður í 17 aura) ([Bríet
Bjarnhéðinsdóttir], 1915). Í framhaldi af þessu var verkakvennafélagið Framsókn stofnað árið
1914, en konum hafði verið meinuð innganga í Dagsbrún við stofnun þess árið 1906 (Sigríður
Th. Erlendsdóttir, 1993). Á nokkrum mánuðum voru félagskonur orðnar á annað hundrað
talsins. Í umfjöllun sinni sýnir Kvennablaðið skilning á að tímarnir séu erfiðir fyrir
útgerðarmenn en bætir við að þeir séu það ekki síður fyrir verkalýðinn: „Allar vörur, bæði
matvörur útlendar og innlendar, kol, olía, húsaleiga og skattar hækka gífurlega, og þeir sem
fyrir fáum árum gátu lifað af vinnulaunum sínum, geta það ekki nú“ ([Bríet
Bjarnhéðinsdóttir], 1915: 2).
Dagvistun fyrir börn útivinnandi mæðra var lítil sem engin. Bríet Bjarnhéðinsdóttir og
fleiri börðust fyrir dagvistun fyrir fátækar fjölskyldur. Árið 1906 var vöggustofan Karítas í
Reykjavík opnuð með vistun fyrir 3-18 mánaða gömul börn „fátækra einyrkja-kvenna, sem
eru að reyna að hafa ofan af fyrir sér, en verða ómagar af ungabarninu“ ([Bríet
Bjarnhéðinsdóttir], 1905: 10). Reikna má með að þörfin hafi verið allnokkur því Karítas var
rekin í nokkur ár (Guðjón Friðriksson, 1994: 135). Tveir opnir leikvellir voru opnaðir í
Reykjavík árið 1908 fyrir baráttu kvenna í bæjarstjórn Reykjavíkur. Eftir samstillt átak
Kvenréttindafélagsins og kvenna í bæjarstjórn voru fleiri leikvellir opnaðir 1915 (Sigríður Th.
Erlendsdóttir, 1993). Leikvellirnir buðu upp á hlutadagsvistun og þjónuðu því aðallega
mæðrum í hlutastarfi. Síðar urðu leikvellir hluti af hinni íslensku leið til að mæta þörfum
útivinnandi mæðra.
Þetta fyrirkomulag spratt úr og ýtti undir þær hugmyndir að konur væru fyrst og fremst
mæður og húsmæður sem sinntu launavinnu af nauðsyn eingöngu. Konur á Íslandi voru
þátttakendur í samfélaginu en launavinna þeirra og þegnréttur tók mið af hlutverki þeirra sem
mæðra og húsmæðra með kröfu um að þær gegndu ólíkum hlutverkum samtímis. Barátta