Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Page 58

Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Page 58
 60 Lokun félagslega húsnæðiskerfisins Eftir Alþingiskosningarnar 1995 hvarf Alþýðuflokkurinn úr ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokkn­ um og í hans stað kom Framsóknarflokkurinn og varð Páll Pétursson ráðherra félagsmála. Hinn nýi félagsmálaráðherra boðaði þegar gagngerar breytingar á sviði húsnæðismála, sem að verulegu leyti gengu eftir á næstu árum. Tvö meginatriði þessara breytinga fólu í sér endalok tveggja meginþátta húsnæðismála landsmanna til þessa, félagslega húsnæðiskerfisins annars vegar og Húsnæðisstofnunar ríkisins hins vegar. Framkvæmd þessarar stefnu hófst með skipun nokkurra nefnda þegar á árinu 1995 og einnig unnu tveir starfshópar að gerð frumvarps. Aðkoma sveitarfélaganna að þessu starfi var áberandi, enda hafði rekstur félagslega íbúðakerfisins aukið mjög á fjárhagsvanda þeirra, einkum sveitarfélaga á landsbyggðinni (Alþingistíðindi 1997-1998 A:3579-3583, þskj. 877). Á hinn bóginn átti verkalýðshreyfingin litla sem enga aðkomu að undirbúningi hinna fyrir- huguðu breytinga. Það skýrðist að sjálfsögðu fyrst og fremst af fullri andstöðu hennar við áformin um lokun félagslega húsnæðiskerfisins (ASÍ og BSRB, 1998). Andstaða var einnig mikil af hálfu flestra félagasamtaka er störfuðu á sviði húsnæðismála, sem m.a. kom fram í heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu (Morgunblaðið 1998, 14. maí, bls. 33). Þá er ógetið stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi, sem lögðust eindregið gegn samþykkt húsnæðisfrum­ varpsins, kröfðust frestunar afgreiðslu þess og beittu málþófi í nokkra daga við lokaafgreiðslu þess. Þetta átti stóran þátt í því að þinglok vorið 1998 drógust um nær heilan mánuð og frest- uðust þar til eftir sveitarstjórnarkosningar í lok maí. Lokaorð Jóhönnu Sigurðardóttur við endanlega samþykkt frumvarpsins voru þessi: Herra forseti. Með atkvæðagreiðslunni sem hér fer fram er innsigluð ósvífnasta og grimmilegasta atlagan sem við höfum séð um áratuga skeið að kjörum fátæks fólks á Íslandi. Þetta er svartur dagur í sögu félagslegrar aðstoðar í húsnæðismálum fátæks fólks á Íslandi sem 40 verkalýðs- og félagasamtök hafa ítrekað mótmælt. Þetta er ljótur minnisvarði um Framsóknarflokkinn, flokk sem einu sinni kenndi sig við félags­ hyggju. Orrustan er töpuð en stríðið ekki. Þó flagg félagslegrar aðstoðar í húsnæðis­ málum láglaunafólks verði nú fellt í þessari atkvæðagreiðslu mun það rísa á nýjan leik þegar jafnaðarmenn komast til valda. Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem með svo ómannúðlegum, grimmum og miskunnarlausum hætti ræðst á húsnæðisöryggi þeirra sem höllustum fæti standa í þjóðfélaginu. Ég segi nei (Alþingis­ tíðindi 1997-1998 B:7616). Páli Péturssyni, félagsmálaráðherra, féllust hins vegar þannig orð: Herra forseti. Hér er um stórbætt skipulag húsnæðismála að ræða og vænlegri úrræði í húsnæðismálum fyrir tekjulitlar fjölskyldur í landinu, svo og sveitarfélögin í landinu. Ég segi já. (Alþingistíðindi 1997-1998 B:7617). Hin nýju húsnæðislög gengu í gildi þann 1. janúar 1999 og tók þá Íbúðalánasjóður til starfa í stað Húsnæðisstofnunar ríkisins. Miklar breytingar urðu á skipulagi og mannahaldi hins nýja lánasjóðs í samanburði við forverann, hluti starfseminnar var fluttur til Sauðárkróks – stærsta

x

Íslenska þjóðfélagið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Íslenska þjóðfélagið
https://timarit.is/publication/1165

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.