Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Side 77
79
Sigrún Ólafsdóttir og Jón Gunnar Bernburg
Ekki er hægt að túlka áhrifastuðlana úr raðbreytuaðhvarfi á sama hátt og gert er í línulegri
aðhvarfsgreiningu og því höfum við reiknað forspárlíkindi (e. predicted probabilities) á
grundvelli niðurstaðna úr líkani 4. Niðurstöður úr þessum útreikningum eru birtar á mynd 1
sem sýnir líkindi þess að svarandi telji einstaklinginn í persónulýsingu hættulegan öðrum (þ.e.
líkindi þess að svarandi telji mjög eða frekar líklegt að einstaklingurinn beiti aðra ofbeldi).
Þessar niðurstöður sýna vel áhrif persónulýsinganna á þetta tiltekna viðhorf.
Á Íslandi eru um 5 til 6% líkur á því að svarandi telji einstakling með astma- eða
þunglyndiseinkenni vera hættulegan en um 13% líkur á því að svarandi telji einstakling með
geðklofaeinkenni vera hættulegan. Sambærilegar tölur eru nokkuð hærri í Þýskalandi, en þar
kemur enn fremur í ljós að fleiri telja einstakling með þunglyndiseinkenni vera hættulegan
(15% líkur) en einstakling með astmaeinkenni (8% líkur). Aftur telja flestir að einstaklingur
með geðklofaeinkenni sé hættulegur (18% líkur). Loks sýna niðurstöður á mynd 1 verulegan
mun á milli Bandaríkjanna og hinna landanna tveggja. Sú hugmynd virðist vera afar útbreidd í
Bandaríkjunum að einstaklingar með geðræn vandamál séu hættulegir. Um 12% líkur eru á
því að svarandi í Bandaríkjunum telji einstakling með astmaeinkenni vera hættulegan. Banda-
rískir svarendur eru aftur á móti mun líklegri til að telja einstakling með geðræn vandamál
vera hættulegan, en líkindi þess eru 27% fyrir þunglyndiseinkenni og 50% fyrir geðklofa-
einkenni. Svo virðist sem bandarískur almenningur tengi saman geðræn vandamál, sérstaklega
geðklofa, og ofbeldishegðun í mun ríkari mæli en almenningur í hinum löndunum tveimur.
Nánar verður fjallað um samanburðinn milli landa hér á eftir.
Tengjast hugmyndir almennings um læknisfræðilegar skýringar neikvæðum
viðhorfum?
Næst skoðum við hvort fólk í löndunum þremur hafi neikvæðari viðhorf gagnvart einstakl-
ingum með þunglyndi eða geðklofa ef það telur ástandið eiga sér læknisfræðilega skýringu,
það er að segja ef svarandi telur ástandið stafa af geðsjúkdómi, sjúkdómi í heila eða genum
(tilgáta 2). Þessi tilgáta er prófuð í töflu 2 sem sýnir niðurstöður úr aðhvarfsgreiningu þar sem
áhrif læknisfræðilegra skýringa á neikvæðu viðhorfin eru metin. Rétt er að ítreka að
niðurstöður í töflu 2 eru fengnar eftir að stjórnað hefur verið fyrir bæði bakgrunnseinkennum
og persónulýsingum (sjá viðauka 2).
Niðurstöður í töflu 2 styðja tilgátu okkar að verulegu leyti. Í öllum löndunum kemur
fram að þeir sem telja ástand einstaklings í persónulýsingu stafa af geðsjúkdómi hafa
neikvæðari viðhorf, að teknu tilliti til þeirra einkenna sem lýst er (þ.e. burtséð frá því hvort
einstaklingi er lýst með þunglyndis-, geðklofa- eða astmaeinkenni). Þetta samband kemur
fram fyrir mælingarnar á hefðbundnum fordómum (líkan 1), neikvæðar tilfinningar (líkan 2)
og félagslega fjarlægð (líkan 3) og ógn (4) og er tölfræðilega marktækt í nær öllum tilfellum.
Á sama hátt kemur fram í flestum tilfellum að svarendur sem telja að ástandið stafi af
sjúkdómi í heila hafa marktækt neikvæðari viðhorf til einstaklingsins sem lýst er, en þau áhrif
eru sterkust í Þýskalandi (þess má geta að áhrifin eru marktækt sterkari í Þýskalandi en í
hinum löndunum tveimur). Hugmyndir svarenda um genetískar skýringar tengjast þó ekki
neikvæðum viðhorfum. Reyndar kemur fram í Bandaríkjunum, þvert á tilgátu okkar, að
svarendur sem telja að ástandið orsakist af genetísku vandamáli vilja minni félagslega
fjarlægð en aðrir.