Morgunblaðið - 25.05.1989, Page 40

Morgunblaðið - 25.05.1989, Page 40
40 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 25. MAÍ 1989 Áríðandi að fólk geti gert greinarmun á, hvað er íslenska og hvað enska Það var sagt um Pétur mikla Rússa- keisara að hann hafi: „opnað gluggann til vesturs" eða með öðrum orðum opnað vestrænum menningarstraum- um leið til Rússlands. Erfitt er að full- yrða neitt um það hver opnaði glugga Islendinga til vesturs en hitt dylst ekki nokkrum manni að sá gluggi er galopinn og ef marka má skrif manna þá eru þeir til sem helst vildu halla honum aðeins aftur ef það mætti verða til þess að varðveita betur íslenska menningu sem sumir telja að sé nú í hættu vegna yfirþyrmandi engilsaxne- skra áhrifa. Við íslendingar eru lítil eyþjóð og þess vegna verðum við að sækja mikið til útlanda ef við viljum fylgjast með hinni öru framþróun sem stöðugt heldur áfram í þekkingu og vísindum. Gerum við þetta ekki myndum við drag- ast aftur úr á margan hátt og lífskjör okkar versna mikið í ýmsu tilliti. Við tölum tungumál sem mjög fáir skilja nema þær rösklega 250 þúsund mann- eskjur sem hér búa. Þess vegna er tungu- málakunnátta okkur íslendingum afskap- lega mikilvæg. Við lærum erlend tungu- mál m.a. til þess að geta tileinkað okkur þá þekkingu sem fyrir hendi er hjá millj- ónaþjóðfélögum. Einu sinni vorum við ánauðugir nýlendubúar hjá Dönum og þáðum af þeirra náðarborði allmikið af þeirri þekkingu sem hingað barst. Okkar bestu menn þá sáu hve við vorum aftar- lega á merinni í þessum efnum og sveið það. Þeir höfðu sjálfir menntun, þekkingu og aðstöðu til þess að fylgjast með því sem var að gerast utan Danmerkur og reyndu að bæta eftir föngum úr þekking- arskortinum sem var viðloðandi hér á landi á þeim tíma. Eftir að við íslendingar tókum ráðin í eigin hendur þá höfum við lagt mikið kapp á að kenna okkar fólki erlend mál, sérstaklega ensku og dönsku. Á sama hátt og danskan var okkur verðmæt og nauðsynleg er enskan nú þýðingarmikill tengiliður við framþróun í heiminum. Sennilega hefur enskan aldrei verið þýð- ingarmeiri en einmitt núna. Eftir að tölvu- byltingin varð að veruleika þá er það mörgum sem við slíkt vinna hrein nauð- syn að kunna ensku. Og nú er ekki bara um að ræða að skilja meiningu eða geta gert sig skiljanlegan. Nú verða menn að vera vel að sér í enskri stafsetningu til þess að geta notað ýmis forrit og hug- búnað sem okkur stendur til boða að utan. En er tungumálakennslu og þá sérlega enskukennslu í dag þannig háttað að hún fullnægi þeim kröfum sem gera verður til hennar. Sumir telja það álitamál. Langa lengi fór tungumálakennsla þann- ig fram hér á landi að menn voru látnir gera stíla, læra málfræði utan að og þýða úr hinu erlenda máli á íslensku. Ifyrir alllöngu tók hins vegar sú hugmynd að ryðja sér til rúms að erlend tungumál ætti að kenna á svipaðan hátt og börn læra móðurmál sitt. Láta aldrei annað tungumál koma við sögu en það sem verið er að kenna. Allar orðabækur skulu samkvæmt þessari hugmyndafræði vera einsmálsorðabækur á viðkomandi máli og ekki skal fást við stílagerð eða þýðing- ar. Venjulega líður langur tími frá því að hugmynd er sett fram um breytta kennsluhætti og þar til hugmyndin er komin inn á kennsluskrá. Þannig var það með þessar nýjungar í tungumálakennslu sem þarna voru boðaðar. Sumir tóku þessari breytingu fagnandi og hófu strax að kenna samkvæmt henni, aðrir voru hikandi við að fella niður kennslu í mál- fræði, stílum og þýðingum sem svo lengi hafði viðgengist hér á landi. Þetta hefur leitt til töluvert mismunandi kennslu í tungumálum um árabil. Jón Skaptason enskukennari við Menntaskólann í Hamrahlíð hélt fyrir allnokkru fyrirlestur í Félagi enskukenn- ara þar sem hann fjallaði m.a. um notkun orðabóka við enskukennslu. I samtali sem blaðamaður átti við hann sagði hann að hann teldi sjálfur að það væri ekki rétt að móðurmálið skemmdi fyrir tungumála- námi. Ef farið væri öfganna á milli þá væri annars vegar sú skoðun uppi að kennslan eigi að fara fram í tómarúmi og móðurmálið megi þar hvergi nærri koma og svo hins vegar að ekkert gildi nema stílar, málfræði og þýðingar. Jón kvaðst telja að einhvern milliveg þyrfti þama að fara ef vel ætti að takast. Það væri ljóst mál að þegar kennari væri búinn að kenna eitt tiltekið atriði í lang- an tíma á ensku en margir virtust ekkert skilja þá væri freistandi að halla sér að gömlu aðferðunum. Jón tók sem dæmi enska orðið subject. Þetta kvaðst hann stundum hafa reynt að útskýra á ensku með mörgum orðum. „Á móti manni stara 60 augu sem ekkert botna í hvað verið er að fara,“ segir Jón. „Svo segir maður: „Þetta er frumlag" þá vakna allir til lífsins. Frumlag þekkja allir.“ Jón gat þess að í þessari beinu kennslu hafi þýð- ingar horfið á prófum og í staðinn hafi komið krossapróf eða próf þar sem nem- endur fylla inní eyður, t.d. rétta mynd af orði. „í slíkum prófum geta nemendur fengið góðar einkunnir án þess að kunna neitt að gagni í ensku, ef heppnin er með þeim,“ sagði Jón. „Gömlu prófin voru hins vegar miklu betri mælikvarði á kunn- áttu manna. Sumir telja að ritgerðir á ensku geri sama gagn, en það er ekki alltaf svo. I ritgerðum kemur oft fyrir að nemendur tala þvert um hug sér af því þeir ráða ekki við að setja fram skoð- un sína á ensku. Þeir einfaldlega halda því fram sem þeir treysta sér til ensku- kunnáttunar vegna. Ritgerðir eru þess vegna ekki einhlítur mælikvarði á ensku- kunnáttu manna.“ „Þessi tómarúmskennsla byggir eins og fyrr sagði á þeirri hugmyndafræði að fullorðnir skuli læra framandi tungumál á sama hátt og böm læra móðurmálið. Samkvæmt þessari kenningu er talið óheppilegt að nota aðrar orðabækur við kennsluna en einsmálsorðabækur á við- komandi tungumáli. „Gallinn við slíkt fyrirkomulag er hins vegar sá að nemend- ur á fyrstu stigum náms geta lítið sem ekkert nýtt sér þær bækur,“ sagði Jón. Sem dæmi um hve einstrengisleg þessi stefna gæti orðið vitnaði Jón í bók eftir Atkins þar sem sagt var frá skoskum prófessor sem var gagntekinn af fyrr- nefndri hugmyndafræði. Hann kenndi frönsku á fyrsta ári og ráðlagði nemend- um sínum þegar þeir væru að velta fyrir sér merkingu orða að fletta upp í Micro Robert, sem er frönsk-frönsk orðabók, mjög þung og erfið. Rökstuðningur hans var þessi: „Þau skilja kannski ekki orðin sem þau lesa, en þau eru þó allténd að lesa frönsku.“ „Þetta er auðvitað mjög öfgafullt dæmi,“ sagði Jón. „I bók Atkins er þessari stefnu lýst sem „hollri" ef svo má segja, sbr. þegar börn taka lýsi og borða meinhollan mat. Því, að nota orðabækur á móðurmáli sínu, er líkt við sykumeyslu, þar sem menn fá strax svar við spumingu, líkt og sykurinn gefur tafarlausa orku.“ Jón sagði ennfremur að nú teldu marg- ir kennarar að heppilegast væri að blanda saman þessari fyrmefndu hugmynda- fræði og svo hinni gömlu kennslu þar sem aðal áherslan var lögð á stíla, málfræði og þýðingar. Nota þá móðurmáls- orðabækur fyrst en kenna samhliða því að nota einsmálsorðabækur á tungumáli Rætt við Jón Skaptason enskukennara við Menntaskólann í Hamrahlíð því sem verið er að kenna. Jón sagði að það væri ljóst að þegar fram í sækti þá dygðu ekki lengur tvímálsorðabækur og þá væri nauðsynlegt að snúa sér alger- lega að einsmálsorðabókum. „Með þetta í huga þarf að gera tvímálsorðabækur þannig úr garði að notkun þeirra nýtist nemendum þegar þeir fara að nota eins- málsorðabækur,“ sagði Jón. „Gallinn við íslenskar orðabækur, eins og þær hafa löngum verið, er að þær eru alveg sér á báti ef svo má segja, ólíkar öðrum orða- bókum í heiminum. Það er því ekki sjálf- gefið að menn sem geta notað þær bæk- ur geti síðan notað erlendar orðabækur. Við íslendingar erum miklir málvöndun- armenn og þess vegna hafa orðabækur okkar haft m.a. það hlutverk að halda til haga alls konar fomu, sjaldgæfu og staðbundnu málfari. í þessum orðabókum er því ekki lýst málinu sem talað er í dag heldur er í þeim reynt að varðveita með- fram gömul orð, þetta er því öðrum þræði orðasafn í líkingu við þjóðminjasafn. í slíkum bókum má fræðast um t.d. forna atvinnuhætti o.þ.h. en þetta er allt annað sjónarmið en það sem ræður ferðinni t.d. í nýjum ensk-enskum orðabókum sem fyrst og fremst miðast við notagildi fyrir daginn í dag. Varðveislusjónarmiðið er auðvitað nauðsynlegt með, en við þurfum líka orðabækur fyrir daginn í dag. Við þurfum sem sé orðabækur af ýmsu tagi. Þar á móti kemur svo að við erum fá og slíkar útgáfur eru dýrar. Við tungumálanám þurfa menn að eiga einsmálsorðabækur og tvímálsorðabæk- ur. Ég tel að það sé eins og að berja höfðinu við stein að neita mönnum um að nota fljótvirkustu leiðina til þess að læra. Það þarf hins vegar að kenna mönn- um að þær upplýsingar sem þeir fái úr ákveðnum orðabókum þurfi ekki að vera algildar og séu það raunar sjaldnast. Eitt af því sem tvímálsorðabækur eru gagn- rýndar fyrir er að þýðingar orða séu aldr- ei nákvæmar. Það sé aldrei nákvæm sam- svörun milli tungumála. Ef nemendum er gert þetta ljóst þá vara þeir sig á þessu og reka sig á þetta smám saman. En slíka málkennd fá menn sjaldnast á er- lendu máli fyrr en eftir nokkurra ára nám. Þetta gerist því ekki fyrr en á síðustu stigum menntaskólanáms og svo í háskólanámi. Málkennd á ensku kemur þó tiltölulega fljótt hjá nemendum hér, því enskan dynur hér á börnum og ungl- ingum frá því fyrsta, bæði í sjónvarpi og kvikmyndum.“ Nú hafa margir áhyggjur af því ensku- flóði sem dynur yfir íslendinga í dag og óttast að íslenskan eigi í vök að verjast fyrir áhrifum enskunnar. Jón telur að enskukennslan hafi ekki þau áhrif. Hann bendir á að þegar enskan er ein sér, töluð eða skrifuð, þá sjái menn hana sem sérs- takt fyrirbæri, en þegar hún sé hins veg- ar farin að læða sér inn í íslenskuna sem sletta þá sé hætta á ferðum. Lélegar þýðingar séu þess vegna hættulegar málinu. Þó væru slettur ekki hættulegast- ar í þessum efnum heldur það ef mál- fræði, setningafræði og orðaröð sé tekin hrá uppúr málinu sem þýtt er úr á íslensku. Þannig leiðir Jón gild rök að því hve góðir þýðendur séu íslenskunni mikilvægir og nauðsyn þess að góð ensku- kennsla gefi okkur góða þýðendur. Á seinni árum hafa verið stórhertar kröfur um kunnáttu löggiltra skjalaþýðenda. Áður þurftu menn bara að sanna dvöl í viðkomandi landi til þess að fá löggild- ingu sem skjalaþýðendur. Seinna komu til próf, sem voru þyngd að miklum mun eftir að kvartanir komu að utan um að skjöl sem bærust frá íslandi væru ger- samlega óskiljanleg. Hins vegar er það svo að aðeins örfáir af þeim sem fást við þýðingar hafa gengist undir slík próf. Hitt er svo annað að það fer ekki alltaf saman að fólk sem leggur fyrir sig þýð- ingar hafi bæði vald á hinu erlenda tungu- máli og einnig íslenskunni. Það er of oft tekið sem gefið að menn hafi svo gott vald á móðurmálinu. Því miður er því ekki alltaf þannig varið. Jón gat þess að ensk stafsetning væri miklu lélegri hjá nemendum núna en hún var meðan fólk skrifaði enska stíla og skoðaði texta nákvæmlega. Nú lærði fólk hins vegar meira talmál. „Ekkert krefst jafn nákvæmrar skoðunar á texta eins og þýðing,“ sagði Jón. „Þess vegna hlýt- ur það að vera af hinu góða að láta nem- endur skoða texta af þeirri nákvæmni sem þarf til að koma honum yfir á annað tungumál. Það er áríðandi að fólk geti gert greinarmun á hvað er íslenska og hvað enska og eina leiðin til þess er að þýða úr ensku á hreina íslensku. Núna er það eingöngu undir kennurum komið hvort nemendur fá æfingu í þessu. Tungumálakennarar segja gjarnan sem svo: „Það er ekki okkar mál að kenna íslensku. Við erum að kenna erlent tungu- mál. Þess vegna er það ekki í okkar verka- hring að láta nemendur þýða, t.d. úr ensku á íslensku og leiðrétta svo íslensk- una.“ Þeir fallast hins vegar kannski á það sjónarmið að það sé í þeirra verka- hring að láta nemendur þýða íslenskan texta yfir á erlent tungumál. Vegna þessa teldi ég að það væri mik- ill ávinningur að samvinna væri meiri á milli tungumálakennara annars vegar og íslenskukennara hins vegar. í kennslu eiga menn að mínu viti að hafa það að leiðarljósi að koma nemendum til alhliða þroska en ekki bara að kenna eingöngu hver sitt fag. Kannski væri ekki svo ga- lið að kenna íslensku að einhverju leyti út frá erlendum tungumálum og benda jafnframt á þann mismun sem er á íslensku og erlendum tungumálum. Eitt er ljóst: Markmið með enskukennslu þarf að vera betur ljóst. Kennum við ensku til þess að geta talað hana, t.d. á sama hátt og hefðarstéttin lærði frönsku á síðustu öld, af því það var fínt að geta talað frönsku. Eða erum við að kenna ensku t.d. til að geta aflað okkur nauðsyn- legs fróðleiks úr þekkingarheimi þess tungumálasvæðis og komið honum frá' okkur á góða íslensku. Sé það markmiðið þá er það vissulega í verkahring ensku- kennara að gera fólk fært um það. Þá þarf líka að miða enskukennsluna við það markmið. Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.