Skírnir - 01.08.1909, Qupperneq 71
Vistaskifti.
263
— Hver á þau þá?
— Hann Jónas minn.
— Hvar eru þá fötin hans Steina ?
— Þarna á rúminu, sagði Þorgerður,ogbenti á hrúguna.
Ragnhildur tók spjarirnar upp, hverja af annari, og
gretti sig.
— Eru þau ö 11 þarna ?
— Já, sagði Þorgerður. Blíðan var að hverfa úr
rómnum.
— Farðu aftur í vestið og treyjuna, Steini minn, sagði
Ragnhildur, með mestu hægð.
— I fötin hans Jónasar míns ? sagði Þorgerður. Eg
veit ekki, hvort undrunar eða reiði kendi meira í röddinni.
— í sparifötin hans Steina litla sjálfs, sagði Ragn-
hildur. Og á svipstundu hafði hún komið mér aftur í
vestið og treyjuna, áður en Þorgerður hafði fengið ráð-
rúm til að átta sig.
— Þú ætlar þó ekki að . . . að fara að stela . . .
fötunum barnsins míns!
Þorgerði var orðið örðugt um mál af æsingunni.
— Sé þetta þjófnaður, þá geturðu látið sýslumanninn
hegna mér . . . En eg tek ekki við barninu svona nöktu.
Og eg geymi þessa leppa og hefi þá til sýnis, ef til kem-
ur. . . . En kafflð verður kalt. Gerðu svo vel.
— Kaffi drekk eg ekki hjá þjófum og ræningjum,
sagði Þorgerður, tók keyrið sitt og gekk út.
Eg stóð eftir agndofa og hélt um krónuna í vestis-
vasa mínum. Eg vissi ekki, hvað þeim fór frekara í milli,
konunum.
Vistaskiftin voru komin á. Eg var kominn til henn-
ar, sem eg átti það að þakka, að eg varð ekki aumingi,
eins og svo margir aðrir, sem líkt hefir verið ástatt um.
Nú er svo komið, að hún hefir mist alt, nema mig.
En eg ætla ekki að hafa þættina fleiri að sinni.