Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1933, Qupperneq 22
22
neðanverðu. En austur-af honum eru mýrardrög, og sér þar til
gamalla veitustokka. Hefir mýrin hlotið nafnið Veitan (41) af þeim
jarðabótum. En austar er Langi-bakki (42), og er hann að blása.
Hrafnárnar, stóra og litla, renna með-fram Þríhyrningi að austan
og falla í Fiská; fellur hún svo fram með honum að norðvestan.
Takmarka þessar ár hann á tvær hliðar, en verða ekki taldar hér
með örnefnum hans.
Við Hrafná, norðvestur-af Langa-bakka, er smáskúti fyrir kindur,
er nefnist Lága-ból (43). Smérbrekkur (44) heita smá-grastorfur
austan á móti í fjallinu. En ekki er hægt að segja, að smjör drjúpi
af þeim nú; smá-giljaskorningar liggja í gegnum þær. Niður-af þeim,
en suður-af Veitunni, er Þorleifsstaðaból (45). Það er allstórt, tekur
um 100 fjár; voru þar hafðar kindur frá Þorleifsstöðum, einkum
framan-af vetri, fram á síðustu ár. Ummæli eru á því bóli, að ekki
megi moka það út né stinga, þá eigi að verða fjárfellir mikill á
Þorleifsstöðum *). Fyrir sunnan Smérbrekkurnar er Hamragilið (46);
í því eru tvö ból. Háa-ból (47) efst, sem er allstór gapaskúti, og
neðst Nefból (48), á allháu hamranefi; þar lágu kindur öðru hvoru,
meðan fé var haft í Þríhyrningi á veturna.
Bjallinn (49) er efstur í Fljótshlíðarlandi, næstur gilinu. Mörkin
eru á há-Bjallanum, þar sem maður kemur fyrst í Ijós að framan,
af Þorleifsstaða-hlaði. Bjallinn er allmikið graslendi, með grónum
smágiljum. Fyrir sunnan hann, undir austasta horninu, er Kirkjulœkjar-
sel (50); þar var haft í seli frá Kirkjulæk fram á 19. öld. Á þeim
stað hyggja margir, að staðið hafi bærinn »Undir Þrihyrningi«, þar er
Þorkell bundinfóti nam og byggði fyrstur, og oft getur í Njálu. Var
ekki nema eðlilegt, að staðurinn hlyti það nafn, sem hann ber nú,
eftir að farið var að hafa þar í seli frá Kirkjulæk. Um niðurtýnslu á
nafni eða breytingu var ekki að ræða, þar sem bærinn var í raun-
inni nafnlaus áður. Beint upp-af selinu liggur Selsgilið (51), og Sel-
hnúkur (52) heitir vestanvert við botn þess, í miðju fjalli.
Nokkru sunnar er Bólgil (53); það er allstórt og grasi gróið að
neðanverðu. Dregur það nafn af tveimur bólum, sein eru þar hvort
gegnt öðru. Heitir annað Tuidyraða-ból (54), því það er opið í báða
enda, þótt nú sé raunar annar endi þess fallinn saman, en hitt er
nefnt Gapi (55). Áður var haft fé þar frá Kirkjulæk fram-undir jólin.
1) í lok fyrsta tug þessarar aldar, var bólið alveg að fyllast; þá var ekki
annað fyrir hendi en að hlaða upp í munnann, eða stinga það út, og var það
ráð tekið. Það sama ár urðu fjárskaðar miklir á Reynifelli, hrakti í Vötnin og
fennti allt að 180 fjár og týndist. En Reynifells-féð gekk þá alltaf vissan tíma
vetrar í Þríhyrningi, og Reynifells-bóndinn átti ítak í Þorleifsstöðunum.