Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1982, Blaðsíða 169
172
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
„Mynd af heilagri Barböru, telgd úr grágulum leirsteini, aðeins efri
hluti eða vel niður fyrir mitti, fannst í þremur hlutum, sem auðvelt var
að fella saman. Myndin eða likneskið er nú aðeins 3,3 sm á hæð, en
hefur líklega verið um 5,5 sm heilt. Það er haglega telgt, andlitið
nokkuð máð, hár mikið og hrokkið og nær niður á herðar og sveigur um
yfir ennið. Barbara er i flegnum kjól, aðskornum í mitti, barmurinn
hvelfdur, kjóllinn í miklum fellingum neðan beltis. Hún grípur hægri
hendi í kjólinn, og sést, að hann er ermalangur. Skikkju slegna hefur
hún yfir axlir, og fellur hún með stórum, mjúkum fellingum á baki. í
vinstri hendi heldur Barbara á einkunn sinni, turninum, og hvílir hann
við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Turninn er ferstrendur
með undirstöðu neðst, síðan nokkru grennri bol, þar sem tveir gluggar
sjást, sinn á hvorri hlið, slær sér síðan aftur út líkt og neðst, en upp úr
hefur loks verið toppur, sem nú er að miklu leyti brotinn af. Sýnilegt er,
að einhvern tíma hefur verið brugðið knífi á líkneskinu, sennilega til að
kanna efnivið þess, eins og menn gera oft fyrir forvitni sakir. — Lítið
brot úr sams konar eða mjög líkum steini fannst einnig í tóftinni
skammt frá Barbörulíkneskinu. Það er tiltelgt og mætti vel vera úr neðri
hluta myndarinnar, þótt ekki sé hægt að koma því í samhengi nú.“3
Höfundur bendir síðan réttilega á að gripur sem þessi sé vafalaust af þeirri
tegund smálíkneskja, sem menn báru á sér sem verndargripi í kaþólskum sið.
Slíkir gripir eru enn í notkun úti í hinum kaþólska heimi, helgimyndir, sem eru
verndar- og nafndýrlingar eigendanna og þeir geta borið með sér í vösum og
pyngjum og komið haganlega fyrir við bænagerð, þegar hún fer fram utan
kirkjunnar.
Fjöldinn allur af smástyttum líkum þeirri er fannst í Kapelluhrauni, hafa
komið fram við fornleifauppgrefti víðs vegar í Evrópu og er það kannski
engin furða þó að ein slík hafi borist til íslands.
Myndin úr kapellunni, sem reyndar er ekki skorin heldur steypt í þar til
gerðum mótum, er úr svo kölluðum pípuleir, þ.e. ljósri leirtegund, sem
inniheldur mikið kalk og verður gul og hvít við brennslu. Pípuleirinn er eins
og nafnið bendir til sú leirtegund, sem notuð var við gerð krítarpípna fyrr á
öldum.
Leirtegund þessi finnst t.d. ekki í jörðu á Norðurlöndum, en í N.-Þýska-
landi, Hollandi, Belgíu, Frakklandi og Englandi var hún mikið notuð við leir-
kerasmíð, þegar á 13. öld, oftast þó sem ýmiss konar skreyting á hlutum úr
rauðleir.
Á 14. öld er vitað, að í borginni Köln í Þýskalandi var hafinn iðnaður sem
byggðist á pipuleirsframleiðslu. En það er samt fyrst á fyrri hluta 15. aldar að