Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1982, Blaðsíða 171
174
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
styttur.7 Af þessum fundum og öðrum má glögglega sjá að slíkar myndir af
helgum meyjum, svo sem heilagri Barböru, Katrínu og Maríu Magdalenu og
af sjálfri Guðsmóður hafa verið hvað algengastar í kaþólskum sið. Meyjar-
dýrkunin var einnig í mestum blóma í lok miðalda, þ.e.a.s. á sama tíma og
þessar smámyndir verða til.8
Líklegt má teljast að íslenska Barbörumyndin sé einnig upprunnin í
Utrecht, þar sem þar hefur fundist önnur samsvarandi mynd af nákvæmlega
sömu stærð og gerð við götuna Springweg,9 og hefur hún orðið til á einu af
verkstæðunum þar í borg (sjá mynd 2).
Ef myndirnar tvær eru bornar saman þá fer það ekki á milli mála að náinn
skyldleiki hlýtur að vera með þeim. Flest atriði eru eins, en þó er ekki hægt að
segja að þær séu steyptar í sama móti eða samtímis. Uppruninn leynir sér þó
ekki og sömu lýsingu má nota um báðar, nema hvað sú hollenska er öllu
heillegri. Sú mynd hefur verið tímasett til seinni hluta 15. aldar.
Að sjálfsögðu er ekki hægt að segja um með fullri vissu, hvernig litla
Barbörumyndin er komin til íslands og hvenær hún hefur hafnað í smáhýsinu
í Kapelluhrauni. Aðrir munir sem fundust þar eru svo óeinkennandi að ná-
kvæm tímasetning verður ekki gerð út frá þeim, en það er engum vafa undir-
orpið að Barbara er frá kaþólskum tima.
Hingað gæti hún hafa borist með þýskum kaupmönnum eða jafnvel með
enskum eða hollenskum skipum, en varast ber að oftúlka hlutina, því eins vel
gæti hugsast að myndin sé hingað komin með ferðalöngum, sem minjagripur
eða á einhvern annan hátt.
Síðan Barbörumyndin fannst árið 1950 hefur margt gerst. Meðal annars
hefur komið út lítið en merkt rit um heilaga Barböru og dýrkun hennar hér á
landi fyrr og síðar, eftir Sigurveigu Guðmundsdóttur,10 og leikir kaþólíkar
hafa á ný hafið meyna til vegs og virðingar og henni hafa borist áheit, sem
leiddu til stofnunar Barbörusjóðs. Sjóður þessi hefur nú látið reisa brons-
styttu af Barböru, með leyfi þjóðminjavarðar, í rústinni í Kapelluhrauni, sem
um komandi framtíð mun vaka yfir vegfarendum um hraunið.
/ Árósum á messu heilagrar Barböru 4.12. 1982
HEIMILDASKRÁ
1 Kristján Eldjárn: Kapelluhraun og Kapellulág. Árbók Hins íslenzka fornleifafelags
1955—1956, bls. 5—15.
2 Kristján Eldjárn: Hundrað ár í Þjóðminjasafni, Rv. 1973, bls. 88.
3 Sami, (1955—56), bls. 11 — 12.
4 Baart, Jan (með öðrum): Opgravingen in Amsterdam, Amsterdam 1977, bls. 472.
5 Sami, bls. 472—73.