Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1982, Blaðsíða 198
SKÝRSLA UM ÞJÓÐMINJASAFNIÐ 1982
201
un um hvaða kerfi valið yrði. En svo er ráð fyrir gert, að slíkt kerfi taki að
miklu leyti við af mannaðri farandgæzlu, sem nú er.
1. apríl lauk samningstímanum við fyrirtækið Securitas, sem að
undanförnu hefur annazt gæzlu í háskólahverfinu, en þó hélt fyrirtækið
áfram gæzlu safnhússins án þess að greiðsla kæmi fyrir.
Nokkuð var unnið að því í upphafi ársins að merkja gamla safnauka og
koma þeim fyrir á sínum stað. Er þó orðið erfitt um vik, því að þrengsli eru
mjög tekin að baga alla söfnun og starfsemi í húsinu. Nokkuð mun úr rætast
þegar nýju skrifstofurnar komast í gagnið, þá verður hægt að endurskipu-
leggja ýmsa þætti, ekki sízt hvað geymslumál varðar, enda munu einhverjar
vinnustofur losna um sinn.
Ekki virðast þær vonir ætla að rætast, sem menn gerðu sér um það, að
Listasafn íslands flytti úr safnhúsinu og í eigið húsnæði á 100 ára afmæli sínu,
1984. Byggingamál þess ganga hægt og valda þar ónógar fjárveitingar eins og
víðar.
Richard Hördal nemi í forvörzlu hreinsaði og festi málningu á fornan róðu-
kross frá Silfrastöðum, Þjms. 4522. Hann hefur einnig haft sem skólaverkefni
í Kaupmannahöfn aðgerð á myndum af altarisbrík frá Odda, Þjms. 2674.
Fornleifaskráningu þeirri, sem hafin var 1980 og haldið var jafnframt
áfram 1981, var enn fram haldið og vann Bjarni Einarsson fornfræðinemi að
henni. Skráði hann einkum minjar hér í nágrenni borgarinnar í framhaldi af
fyrri skráningu.
Um störf þjóðháttadeildar hefur Árni Björnsson safnvörður samið eftirfar-
andi skýrslu:
,,Sú breyting varð á starfsemi deildarinnar, að Hallgerður Gísladóttir B.A.
var nú í hálfu starfi alfarið við dagleg störf, og skilaði það sér fljótt í stór-
auknum aðföngum. Gert var nýtt átak til að fjölga heimildarmönnum með
samráði við átthagafélög og þá kirkjusöfnuði i Reykjavík, sem halda uppi sér-
stöku starfi meðal aldraðra. Þá var öllum kvenfélögum á landinu skrifað og
þau beðin að benda á líklega heimildamenn. Bar þetta góðan árangur, og voru
hinum nýju heimildamönnum einkum sendar ýmsar eldri spurningaskrár, enda
veitti ekki af að fjölga svörum við mörgum þeirra.
Tvær nýjar skrár voru sendar út varðandi dreifbýlismenninguna, nr. 46 um
vegi og vegagerð og nr. 48 um eldhús og eldhúsverk.
Þá var loks hafist handa um skipulega heimildasöfnun varðandi þéttbýlis-
menninguna, en hún hefur hingað til setið á hakanum. Vann Frosti F. Jó-
hannsson fil. kand. einkum að því verkefni og komust tvær skrár af því tagi út
á árinu, nr. 47 um uppvaxtarár í þéttbýli og nr. 49 um togarasjómennsku, sem
er hin fyrsta af nokkrum áætluðum spurningaskrám um atvinnuhætti í þétt-
býli.