Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1982, Blaðsíða 184
KRISTJÁN ELDJÁRN
ENN EIN USLARÉTT
Skömmu eftir að grein mín um Uslaréttir birtist í Árbók 1980 vakti Sigurjón
Sigtryggsson á Siglufirði, gamall Svarfdælingur, athygli mína á því að enn ein
Uslarétt væri í Svarfaðardal, sú sjötta, og hefði mér sést yfir hana. Uslarétt
þessi væri á Hæringsstöðum, sagði Sigurjón, og myndi hann vel eftir henni,
en nú mundi vera búið að slétta yfir hana.
Allt reyndist þetta rétt vera. Sumarið 1982 fór Þórarinn Jónsson bóndi á
Bakka með mér fram í Hæringsstaði. Hann er uppalinn þar (f. 1918) og
þekkir þar hverja þúfu og hvern stein og man vel eftir Uslaréttinni eins og hún
var áður en sléttað var, á árunum 1950—60.
Hæringsstaðir eru austan Svarfaðardalsár, aðeins utar en Klaufabrekkna-
kot vestan ár, þar sem ein uslaréttin er. Gamla bæjarstæðið á Hæringsstöðum
er nokkru ofar en íbúðarhúsið er nú. Svo sem 75 m suðvestur og niður frá
bæjarstæðinu verður nokkurnveginn hornréttur kriki milli tveggja hárra
grjóthóla, sem í daglegu tali eru kallaðir Hólarnir. í þessum krika, rétt neðan
við veginn sem nú er milli Hæringsstaða og Skeiðs, var Uslarétt, ferköntuð
girðing, og hafði greinilega verið hlaðin úr hnausum, 40—50 m á hverja hlið.
Innan hennar var smágert þýfi. Horn réttarinnar voru lítið eitt bogadregin. í
suðvesturhorninu var að sjá eitthvert smáhýsi, en ekki fannst Þórarni varlegt
að fullyrða að það væri í rauninni réttinni viðkomandi. Austan við réttina var
einnig tóft, ekki áföst henni, og var talið að þar hefði verið hesthús.
Öllu meira er ekki um Uslarétt á Hæringsstöðum að segja. Rétt þessi mun
ótvírætt hafa verið nátthagi og mundi vafningalaust vera þannig skýrð ef
nafnið ylli ekki nokkrum heilabrotum. Ég er nú enn sannfærðari en áður um
að í Svarfaðardal hafa nátthagar verið kallaðir uslaréttir, og væri áhættulaust
að veita orðinu upptöku í samheitaorðabók.
Skal svo að lokum til frekari fræðslu vísað í Árbók 1980, bls. 101 —110.