Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1995, Blaðsíða 1
ÞORKELL GRÍMSSON
ÖGURBRÍK
Hin gamla altarisbrík frá kirkjunni að Ögri við ísafjarðardjúp, sem Þjóð-
minjasafn Islands á og ber númerið Þjms. 3435, verður að teljast eitt veiga-
mesta og sérstæðasta listaverk hér á landi úr kaþólskum sið. Hún er í síð-
gotneskum stíl, þróttmikið verk og heildstætt, og varla ýkjur að segja að
hún skipi all virðulegan sess meðal altarisbríka frá miðöldum Vestur-Evrópu
og upphafi nýju aldar. Þær eru annars afar margar, ekki fáar eftir bestu lista-
menn þessara tíma, og á þær er litið sem verðmætar listsögulegar heimildir,
bæði á sviði málaralistar og skurðlistar. Ögurbrík kom til safnsins 12. ágúst
árið 1890, og samdi forngripavörður, Sigurður Vigfússon, um hana lýsingu,
reyndar mjög ófullkomna. Er löngu kominn tími til að taka töflu þessa aftur
til athugunar. Viðgerð fór fram á henni árið 1960. Annaðist það verk Frank
Ponzi listfræðingur, og þurfti hann víða að sinna skemmdum. Er til frá hon-
um rækileg skýrsla um ástand töflunnar fyrir viðgerð, sem og sjálfa við-
gerðina. Fólk hefur haft fyrir satt að Björn Guðnason ríki í Ögri (d. 1518)
hafi gefið kirkju staðarins þennan fágæta grip.
Brík þessi er að öllu leyti erlend, úr tré, og þeirrar tegundar sem kalla
mætti þrenndarbrík (enska: triptych) á íslensku. Henni má þannig lýsa að
segja miðhlutann ílangan, fremur grunnan kassa eða kistu (sbr. þilkistu),
sem snýr á langveg, höfð er hurð eða vængur á hjörum við endana sitt hvor-
um megin, leggja má vængina yfir og ná þeir þá saman við miðju. I kistu
þessari standa alls fjórtán líkneski, skorin í tré, gifsuð, gyllt og máluð, af
1. mynd. Ógurbrík opin. Ljósmyndastofa Þjóðminjasafns. Ivar Brynjólfsson.