Eimreiðin - 01.09.1897, Blaðsíða 60
220
var að virða fyrir mjer, hve hlíðin endurskein fagurlega í því, gul-
mórauð eins og hún var á að líta af bliknuðu fjalldrapa og birki-
laufinu.
Svo leit jeg heim til bæjarins. Hann var með sömu um-
merkjum og þá er jeg skildi síðast við hann, nema að sumar hús-
hliðarnar höfðu verið þaktar nýlega með nýju torfi, byrgðar rifur
og troðið upp í gættir. — Sunnan undir bæjarveggnum austast var
viðarköstur, er rifinn hafði verið og borinn heim, og ætlaður til
eldiviðar. Hjekk gulnað og skorpið laufið á liminu, en sumt var
fallið niður og lá í flekk undir kestinum og kringum hann.
Og vestan undir kestinum sat — jú, þar sat mamma mín á
tveim strengbútum, er lágu hvor ofan á öðrum upp við vegginn.
Við hlið hennar reis upp hrífuskaptsbrot, og var að sjá sem það
hefði verið notað til að ganga við það. Hún hjelt á karlmanns-
vetlingi, sem hún var nýbúin að fella af. Hendurnar lágu í kjöltu
hennar, og hún horfði niður fyrir sig, eins og hún væri að hlusta
eptir einhverju, eða væri í þungurn hugsunum, og mín hafði hún
auðsjáanlega ekki orðið vör.
En hvað undur var hún orðin breytt! Hún var orðin miklu
bognari en þá er jeg sá hana síðast, er jeg fór að heiman. Lík-
ami hennar var visin og fallin saman, gráa hárið hennar var orðið
enn grárra, andlitið enn fölara og hrukkóttara.
Og þegar jeg steig af baki, þá hrökk hún hálfgjört saman.
Hún leit í áttina til min, og þó ekki á mig, heldur eins og út i
bláinn, en með afar-órólegum og spyrjandi svip.
Jeg gekk til hennar og sagði um leið og jeg breiddi út arma
mína til að faðma hana að mjer: »Komdu blessuð og sæl, elsku-
mamma mín!«
Hún kipptist við, er hún heyrði rödd mína, sleppti prjónun-
um og vetlingunum, stóð upp, og var þó svo að sjá sem hún
hefði veika burði til þess, kom með faðminn og bauð mjer munn-
inn til að kyssa á hann; en tilburðir hennar voru svo sem hún
sæi mig ekki, sem værum við stödd í niðamyrkri, og hún sagði
í veikum róm: »Komdu sæll! Guð blessi þig, barnið mitt! Ertu
nú loksins kominn? Jeg hefi beðið og vonað eptir þjer lengi
— lengi, — að þú kærnir, en........og nú tók þyngsla-hóstakviða
fyrir mál hennar.
En að sjá þetta samanskorpna blað! Það þurfti auðsjáanlega