Dagblaðið Vísir - DV - 05.12.1987, Side 30
30
LAUGARDAGUR 5. DESEMBER 1987.
Vísnaþáttur
Þriðji og síðasti hluti
Vetrarkvíða
Viö höldum áfram meö Vetrar-
kvíða Sigurðar bónda Ólafssonar í
Katadal sem hann sendi Þorbjörgu
konu sinni í fangelsið í Kaup-
mannahöfn. Þau hjón voru foreldr-
ar Friðriks sem hálshöggvinn var
vegna morðsins á Natani Ketils-
syni og gesti hans.
Þetta gerðist i Húnavatnssýslu í
lok þriðja tugar nítjándu aldar, eins
og flestum mun kunnugt. Skáld-
Rósa var samtímamaður Sigurðar
og varð síðar kunnara skáld en
hann. Hún hafði verið ein af ást-
konum Natans. Tvær vísur úr
Vetrarkvíða hafa veriö eignaðar
henni. Ég hef mínar heimildir og
ljóðabréf Sigurðar úr bók Theodórs
Arnbjörnssonar sem út kom 1941.
Hann nefnir þrjár konur, tvær af
þeim þjóðkunnar skáldkonur, til
vitnis um að þær hafl ungar heyrt
farið með Vetrarkvíða og þá hafi
enginn nefnt Skáld-Rósu í sam-
bandi við vísur þar - og allar þessar
stökur verið þar. Umdeildu vísurn-
ar eru meöal þeirra fyrstu sem nú
koma.
Svo framt Rínarvarma ver
vit ei dvíni og kraftarnir
og máli ei týna tungan fer,
tryggð skal mína geyma þér.
Þó að kali heitan hver,
hylji dali jökull ber,
steinar tali og allt hvað er,
aldrei skal ég gleyma þér.
Verði sjórinn vellandi,
viða foldin kalandi,
hellubjörgin hrynjandi,
hugsa ég til þín stynjandi.
Eins og allir sjá falla tvö síðustu
erindi þarna inn í efni og gerð alls
kvæðisins og eru rökrétt framhald
þess sem á undan er og á eftir kem-
ur. Rínarvarmaver í fyrstu vísu
þessa þáttar er auövitaö karlkenn-
ing, auðgrund, unnarstorð og
ofnislindaströnd konur.
Meðan lífi auðgrund á
er, og hlíflr guð mér sá,
er gaf mér víf, og gladdi þá,
er gjöld nú drífa synda má.
Mín sú ræða einlæg er,
unnar- glæða storðin hér,
að biðja algæða gnægð, sem ber,
Guð upphæða fyrir þér.
Þar til yndi útvöldum
englar mynda í himninum,
en Hel sig bindur handsölum
hamnum synda náköldum.
Hjá þér safnist heillirnar;
hjartans kafni raunirnar,
yndi dafni, og allt, sem bar,
áður nafnið glaðværðar.
Guðs ímynd, er gisti á tré
gjald þér synda lét í té,
lífs þér yndi og svölun sé
sorgarvindinn á hasti.
■ Himnar, vindar, höfin, lönd,
hvað sem myndar Drottins
hönd,
þinni bindi unun önd,
Ofnis linda fógur strönd.
Áhrif frá séra Hallgrími
Auðsýnileg eru áhrif Passíu-
sálmaskáldsins á þessum kveðskap
öllum, þó eru kenningarnar að
sjálfsögðu úr rímunum sem, ásamt
guðsorðinu, hafa sett svip sinn á
andlegt líf heimilisins. Andi íslend-
ingasagna með hefndarhug þeirra
og hetjudýrkun hefur líka eflaust
átt þátt í að móta hug hins 18 ára
ógæfipnanna, Friðriks, sem ævin-
týramaðurinn Natan, sem þóttist
vera ríkur, hafði náð unnustunni
frá. Hún var enn yngri og gekk síð-
ar í lið með fyrri ástvini sínum og
konu sem Natan hafði svikið. Si-
gríöur hét stúlkan. Hún var dæmd
til þrælkunar en sagt var að ríkur
Englendingur hefði keypt hana
lausa og gifst henni. Það getur ve-
rið þjóðsaga. Hún kom aldrei aftur
til Islands.
Vísur Vetrarkvíða eru 35 og hafa
allar varðveist í uppskriftum í
Húnavatnssýslu:
Óríonslanda þengill þig,
þiljan banda, lífs um veg
á kærleiksanda kjörnum stig
kyssi að vanda fyrir mig.
Himnakóngurinn er beðinn að
skila atlotum bóndans til konunnar
í fangelsinu.
Lifðu í yndi lukkunnar
laus frá vindi mæðunnar.
Rós þér bindi rósemdar
reifalindi Guðs- náðar.
Af engri þurrðu ann ég þér,
öllum burðum lífsinS' hér,
naðurs- furðu nokkur ver
nafn Sigurðar meðan ber.
Brostinn prýði baghendur
bragurinn hlíði líns sendur,
von og stríði venslaður,
Vetrarkvíði réttnefndur.
í næstsíðustu vísunni kennir höf-
undur nafn sitt við Fáfnisbanann.
Höfundur heimildarbókarinnar,
þar sem allt kvæðið er birt, segir:
„Víst hlýtur sú kona að hafa verið
mikilhæf, sem nýtur ástríkis bónda
síns í gegnum mestu þrengingar,
sem manni geta mætt... Við þetta
áfall var Katadalsheimilið brotið
svo niður, sem verða mátti, og
snéru nú flestir við því baki. í ein-
angrun, fyrirlitningu og skorti
varð Sigurður að ala upp börn sín
í Katadal og geta nú fáir gert sér í
hugarlund, hvílík mannraun það
var... Skömmu eftir aö Friðrik var
tekinn af lífi, en Þorbjörg færð ut-
an, var mjög harður vetur
(-1834—35). Þá lá í stórhríðum frá því
á jólafóstu og fram yfir jól. Vildi
þaö óhapp til í Katadal á Þorláks-
messu að eldurinn dó og ekki hægt
að sækja eld á aðra bæi vegna
hríða,... engan mat að hita,
kveikja ljós eða sjóða... Aldrei
æðraðist Sigurður. Eina ljósið var
að kveða rímur og yrkja stöku við
og viö.“
Utanáskrift: Jón úr Vör,
Fannborg 7, Kópavogi.
Menning
Leitið og þér
munuð finna
eitthvað annað
Ung, há, feig og Ijóshærð.
Höfundur: Auður Haralds.
Útgefandi: Forlagið.
Kilja, 222 bls.
Ég gerði margítrekaðar tilraunir
til að sofna útfrá þessari bók. Las
hana seint á kvöldin, jafnvel
frammá nótt, og snemma á morgn-
ana, um miðjan daginn en allt kom
fyrir ekki. Huröaskellir augnanna,
Óli Lokbrá, var upptekinn í öðrum
augum sem höfðu ætlað að rýna í
aðra bók. En hvort segir þetta
meira um mig eða bókina?
Anna Deisí Douglas, aðalsögu-
hetja bókarinnar, er í flestu tilliti
vonlaus og ekki virðast horfur á
að framtíðin verði skárri en þaö
sem á undan er gengið fyrir upphaf
sögunnar. En þegar allt er endan-
lega komiö á heljarþröm berst
henni óvænt boð um að mæta til
viðtals viö forstjóra stórfyrirtækis-
ins Imperial Global World Wide
Enterprises. Vinna, hugsar Anna,
Deisí.
Nokkrir milljarðar líra
Þegar hún er svo stödd á 7. hæð
stórhýsis stórfyrirtækisins verður
ógurleg sprenging í húsinu og eldur
brýst út. En úr hendi dauðvona
forstjórans tekur hún bréf sem
merkt er Desirée og Desirée er hið
eina skiljanlega sem forstjórinn
lætur útúr sér. Anna Deisí nær að
raka nokkrum milljörðum líra oní
handtöskuna sína úr löskuðum
peningaskáp Imperial Global o.s.
frv. áður en byggingin fuðrar upp.
Anna Deisí bjargast úr eldsvoðan-
um og leitin hefst að Desirée. En
það eru fleiri að leita...
Bókmermtir
Kjartan Árnason
Sagan gerist að mestu í Róm en
einnig að nokkru í Jórdaníu þang-
að sem leikurinn berst þegar hitnar
í kolunum. Og í raun eru tvær sög-
ur sagðar í bókinni samtímis.
Meðan lesandinn fylgist spenntur
með framvindu mála hjá Önnu
Deisí rýfur söguhöfundur frásögn-
ina í lok hvers kafla til að segja
söguna af Auði Haralds sem situr
í Róm við að skrifa söguna af Önnu
Deisí. Við fylgjumst sem sé ekki
bara með baráttu persónanna í
skáldsögunni heldur líka baráttu
höfundarins við að setja saman
þessa bók. Hvað á hún að gera við
persónurnar? Hvaða trixum á hún
að beita? Gvuð almáttugur, hvernig
er þetta hægt! Sér til hugarhægðar
spjallar hún líka við Óskar Wilde.
Stórskemmtilegt og bráðvel til
fundið bragð sem minnir nokkuð á
aðferð Fowells í Konu franska laut-
inantsins. En er enganveginn verra
fyrir því.
Nýtt líf í gömlum klisjum
- Raunar er öll þessi saga bráð-
skemmtileg og hjálpast þar ýmis-
legt að: Auður er snjall stílisti, hún
er hugmyndarík og fyndin, hún
hefur blásið nýju og óvæntu lífi í
gamlar klisjur rómantískra
spennubókmennta og -kvikmynda,
maður veit aldrei hvað gerist næst
og þótt nærvera höfundar sé óum-
flýjanleg, er hann, Auður, aldrei
uppáþrengjandi. Persónurnar eru
dregnar ýktum dráttum og gefur
það sögunni skemmtilegan ævin-
týralegan blæ og meðan ég las
fannst mér alltaf eins og ég væri
að horfa á gamla kvikmynd. Það
SpSf
Auður
eina sem öðruhvoru truflaði mig
við lesturinn voru brandararnir
sem mér fundust stundum fulltíðir
og jafnvel óviðeigandi.
En er þetta bókmenntaverk? spyr
kannski einhver. En ekki hvað?
svara ég þá með annarri spurn-
ingu. Þetta er sagan af stúlku sem
fer til að leita annarrar konu en
finnur sjálfa sig og þrána til lífsins.
Draumaprinsinn
Og þetta er sagan af höfundinum
sem flnnur draumaprinsinn fyrir
söguhetjuna sína en situr sjálfur
eftir umvafinn sama efanum og
áður. Og er það ekki einmitt efinn
sem rekur höfundinn áfram við
skriftirnar?
Nú dettur mér ekki í hug að segja:
Auður! Til hamingju meö þessa
bók! því mig grunar að hún sé nú
orðin ægilega leið á bókinni, ekki
vegna þess að þetta sé leiðinleg bók
heldur vegna nálægðar við hana,
og megi helst ekki heyra á' hana
minnst.
Þessístað segi ég: Lesendur! Til
hamingju með þetta verk! Þið sofn-
ið áreiðanlega ekki útfrá því.