Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1975, Page 100
virðast fallega og kristilega hugsað. En ég er ekki sáttur við
þessar skoðanir, meðan fullt er viðfangsefna í okkar strjál-
býla landi sem i fyrsta lagi valda því, að rangt er að álykta
um getu okkar til að styðja vanþróaðar þjóðir út frá mikl-
um þjóðartekjum einum miðað við íbúa. Fámennið í hinu
stóra landi veldur því að við þurfum meira fé til samfélags-
þarfa en aðrar þjóðir ef við ætlum ekki að gefast upp við að
búa i landinu. T.d. vantar okkur marga milljarða í vega-
kerfið, — einnig þótt við reiknum með malarvegum að
mestum hluta. Hvers vegna þá að vera með yfirlæti í sam-
skiptum þjóðanna? Við erum á fjölmörgum sviðum þátt-
takendur í alþjóðastofnunum og samstarfi og fyllum á því
sviði okkar hlut. Því minni ástæða er til að færa enn út á
nýtt svið, — að minni hyggju misskilda getu til að miðla af
verðmætaöflun okkar til milljónaþjóða.
Háþróað tækniþjóðfélag er markmið, sem flestir virðast
stefna blint að, til að fullnægja lífsgæðakröfum aldarfars-
ins. Allir, sem biðla til fólksins eftir brautargengi, — til
umboðs- eða fulltrúastarfa fyrir það, sýnist mér að eigi
þarna nokkuð óskilið mál. Það er rík sú kennd í þeim, er dá
tækniþjóðfélagið eins og Mídas kóngur i ævintýrinu, sem
eignaðist ósk, — og óskaði sér að allt yrði að gulli, sem hann
snerti. Þegar óskin rættist, sá hann hvað hann hafði gjört.
Klæði og rúmföt urðu m.a. að gulli. Ég er þeirrar náttúru
eða ónáttúru að vera með tregðu í blóðinu, — þeirrar nátt-
úru sem í tízkumáli heitir að líkindum: staðnaður. F.n þessi
náttúra fylgir mörgum manninum og konunni. Einn af
lærisveinum Sigurðar skólameistara á Akureyri hefir sagt
mér, að sér hafi orðið ógleymanlegt það heilræði Sigurðar,
er hann lagði áherzlu á við nemendur sína: „Ekki að brevta
því sem vel hefir gefist.“ Sigurður skólameistari er eitt af
stærstu nöfnum menntafrömuða okkar og leiðtoga mennta-
skólaæsku. Heyrir þetta e.t.v. undir tízkuorðið: staðnaður?
Tœkni, tœkni. Talað er m.a. um auglýsingatækni. Þið mun-
ið sjálfsagt mörg ykkar úr sjónvarpinu í vetur: Viltu breyta?
Þarftu að bæt.a? Já, auglýsingatækni. Þá er hún fullkomin
er hún freistar fólksins. Oft til góðs, stundum líka til lítilla
104