Morgunblaðið - 26.01.2001, Side 58

Morgunblaðið - 26.01.2001, Side 58
Keppendur á Bocuse d’Or elduðu allir forrétt úr barra og aðalrétt úr lambi. Svona leit afraksturinn út hjá Hákoni. HÁKON Már Örvarsson matreiðslumeistari festi í gær plötu með nafni sínu fyrir utan veitingastað Paul Bocuse fyrir norðan Lyon í Frakklandi en hann lenti á miðvikudag í þriðja sæti í matreiðslukeppninni Bocuse d’Or. Keppnin hefur verið haldin frá árinu 1987 en það var Paul Bocuse, einn virtasti mat- reiðslumaður Frakklands, sem setti hana á laggirnar. Alls fengu 22 matreiðslumenn frá jafnmörgum löndum að taka þátt í keppn- inni að þessu sinni. „Við mættum þarna þrír til Bocuse um morguninn en þar voru einnig komnir nokkrir af fyrri sigurvegurum í keppninni og ýmsir af fremstu kokkum Frakklands auk fjölmiðlamanna. Við skrúfuðum allir plötu með nafni okkar fyrir utan innganginn en að því búnu bauð Bocuse til hádegis- verðar,“ segir Hákon. Kvöldið áður hafði verið haldinn þúsund manna galakvöldverður í Palais de Congres í Lyon og var það matreiðslumaður ársins í Frakklandi sem sá um matseldina, sjö rétta máltíð, þar sem m.a. var boð- ið upp á mat frá öllum styrktaraðilum keppninnar, lamb og barra. „Í lokin kom Bocuse sjálf- ur fram og kallaði okkur þrjá upp á sviðið. Hann hélt þar stutta ræðu og tilkynnti m.a. hvaða hráefni verður notað í næstu keppni, en það verður silungur og nauta- kjöt.“ Hákon segir framtíðina vera alveg óljósa hvað sig varðar. „Ég er ekki með nein fastmótuð áform þótt auðvit- að hafi maður ýmsar hug- myndir. Framtíðin verður hins vegar að ráðast, það er ýmislegt sem kemur til greina. Ætli maður fari ekki yfir kostina á næstunni.“ Hákon kemur heim í dag og hyggjast félagar í Klúbbi matreiðslumeistara og Freistingu taka á móti hon- um í fullum skrúða í Leifs- stöð ásamt ýmsum öðrum velunnurum matargerð- arlistarinnar á Ís- landi. Kona Hákons og mánaðargömul dóttir voru með honum í Frakk- landi síðustu vik- una fyrir keppnina og segir hann það eina sem sé á hreinu með fram- tíðina að hann hyggist verja meiri tíma með þeim næstu dagana en hingað til hefur gef- ist færi til. Frakkinn sigraði Það var Frakkinn François Adamski, frá Restaurant Prunier, sem sigraði í keppninni en Svíinn Henrik Norström, frá veit- ingastaðnum Bon Lloc í Stokkhólmi, og Há- kon voru jafnir að stigum. Dómnefnd úr- skurðaði hins vegar Norström í annað sæti og Hákon í það þriðja. Hákon var um nokkurra ára skeið yfir- kokkur á Hótel Holti en lét af störfum síð- astliðið sumar til að geta einbeitt sér alfarið að undirbúningi keppninnar. Hann hefur um árabil verið í fremstu röð íslenskra- matreiðslumeistara og hreppti meðal ann- ars titilinn matreiðslumaður ársins árið 1997 og sigraði í Mouton-Cadet-mat- reiðslukeppninni árið 1999. Hann starfaði einnig um skeið á veitingastað Leu Linster í Lúxemborg en hún sigraði einmitt í Bocuse d’Or árið 1989. Undanfarna mánuði æfði hann stíft en fyrirtækið Ísberg setti upp fullkomið keppn- iseldhús í húsakynnum sínum fyrir Hákon. Þar voru keppnisréttirnir eldaðir aftur og aftur til að ná sem fullkomnustum tökum á öllum vinnubrögðum og tímasetningum auk þess að þróa réttina áfram. Ómetanleg aðstoð Philippe Girardon Ýmsir hafa komið við sögu í undirbún- ingnum en ekki síst ber að nefna Frakkann Philippe Girardon sem á hótel og veitinga- staði suður af Lyon. Hann kom fyrst til Ís- lands sem gestakokkur í Perlunni á fyrri hluta síðasta áratugar og tókust góð kynni með honum og starfsmönnum Perlunnar. Var það ekki síst hvatning og stuðningur Girardons sem gerði að verkum að Sturla Birgisson, yfirmatreiðslumeist- ari Perlunnar, keppti fyrst í Bocuse d’Or árið 1999 og lenti þar í fimmta sæti. Tryggði þessi glæsilegi árangur Sturlu að Ís- lendingar fengu að senda kepp- anda á nýjan leik. Sturla var að þessu sinni einn 22 dómara í keppninni. Girardon kom til Ís- lands síðastliðið haust og að- stoðaði Hákon við að þróa rétt- ina og frá því í byrjun mán- aðarins dvaldi Hákon á veitingastað hans, Domaine de Clairefontaine, í Frakklandi við að fínslípa vinnubrögð sín. Barri og lamb Í keppninni áttu keppendur að elda annars vegar úr barra og hins vegar úr lambi. Fékk hver þeirra tvo heila 2,5 kílóa barra og heilan 15 kílóa lamba- skrokk í byrjun til að vinna úr. Varð að verka skrokkinn frá grunni og réð hver og einn hvaða hluta lambsins hann kaus að nota. Hákon bar rétti sína fram á silfurbökkum og setti á diska. Hann eldaði barrann með humri og svörtum jarðsveppum ásamt fennelsósu, gulrótartimbal, fylltum kartöflum með sveppa- duxelle, tómataconfit og basilk- artöflumauki. Með þessu var einnig borið fram confit af barra og humri í litlu silfuríláti. Lambið hjá Hákoni var eldað á þrjá vegu. Annars vegar sem ballontine, þ.e. í eins konar pylsu úr lambavömb er minnir helst á lifrarpylsu er maður sér hana. Þegar hún er rist upp kemur hins vegar í ljós bragðmikill réttur unnin úr maukelduðum hækli. Þá voru kryddjurta- og hvítlauks- maríneraðar lundir á fatinu ásamt brochette, litlu silfur- grillspjóti með lambabrisi og bógvöðva er gljáður hefur verið í púrtvíni. Með þessu ýmislegt góðgæti annað og timjansoðsósa. Mikil fjölmiðlaathygli Við verðlaunaafhend- inguna vakti Bocuse sér- staka athygli á árangri Hákons og sagði það undravert að fulltrúi 280 þúsund manna þjóðar hefði staðið í hárinu á Frakkanum, fulltrúa 60 milljóna manna þjóðar. Þau okkar sem brögðuðu á réttum Hákons eru hins vegar ekki hissa. Fjölmiðlar um allan heim veita keppn- inni mikla athygli, rétt eins og um stórmót í íþróttum væri að ræða, enda hafa margar skærar stjörnur litið þar dagsins ljós. Hákon Már Örvarsson lenti í þriðja sæti í matreiðslukeppninni Bocuse d’Or í Lyon í Frakklandi Framtíðin er alveg óráðin Verðlaunahafarnir þrír stilltu sér upp ásamt Paul Bocuse fyrir ljósmyndara. Frá vinstri eru á myndinni Henrik Norström, François Adamski, Paul Bocuse og Hákon Már Örvarsson. Að komast á verðlaunapall er einhver mesta upphefð sem matreiðslumaður getur öðlast. Steingrímur Sigurgeirsson fjallar um keppnina og ræðir við Hákon Má Örvarsson sem hreppti bronsið. Reuters FÓLK Í FRÉTTUM 58 FÖSTUDAGUR 26. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.