Morgunblaðið - 02.02.2001, Blaðsíða 26
ERLENT
26 FÖSTUDAGUR 2. FEBRÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
TVÖ sjávarútvegsfyrirtæki hafa
sagt upp samtals 52 starfsmönnum,
Ísfélag Vestmannaeyja 34 manns og
Fiskiðjusamlag Húsavíkur 18
manns. Í gær var greint frá upp-
sögnum 15 manns hjá Hraðfrysti-
húsi Eskifjarðar hf. og í byrjun des-
ember misstu 80 starfsmenn Nasco í
Bolungarvík vinnuna í kjölfar gjald-
þrots rækjuverksmiðjunnar. Sam-
tals hefur því 147 manns verið sagt
upp störfum hjá þessum fjórum fyr-
irtækjum síðan í desember.
Ísfélag Vestmannaeyja hf. hefur
sagt upp 34 starfsmönnum, 31 konu
og þremur körlum, í kjölfar ákvörð-
unar stjórnar félagsins um að hætta
bolfiskfrystingu og leggja alla
áherslu á loðnuvinnslu næstu vikur.
Ægir Páll Friðbertsson, fram-
kvæmdastjóri Ísfélagsins, sagði að
séð hefði verið fram á að ekki yrði
hægt að útvega umræddu fólki vinnu
á loðnuvertíðinni og því hefði þótt
rétt að tilkynna fólkinu um það.
Ástæða þessa sé sú að einungis
loðnuvinnslan verði í gangi á næst-
unni, en þar sé gert ráð fyrir að vera
með að minnsta kosti 70 starfsmenn í
vaktavinnu. Í liðinni viku hafi verið
gert ráð fyrir 60 starfsmönnum en
sem betur fer verði þeir fleiri.
Kúttmagakot ræður
fjórar konur
Bergey VE, ístogari Ísfélagsins,
kom með um 135 kör af blönduðum
afla, mest ýsu, til Eyja í fyrradag.
Ýsan og þorskurinn fóru í vinnslu
hjá tveimur verktökum Ísfélagsins
en afgangurinn á markað, að sögn
Ægis Páls. Aðgerðaþjónustan Kútt-
magakot fékk 30 kör eða um 13 til 14
tonn og Kinn ehf. 20 kör eða um níu
tonn, en hjá Kinn starfa 17 manns í
saltfiskvinnslu.
Ásmundur Friðriksson í Kútt-
magakoti segir að hann sé venjulega
með um 12 til 15 manns í vinnu en
hann hafi bætt við fjórum konum
vegna þessara auknu verkefna. Svo
geti farið að hann þurfi að ráða fleiri
en það ráðist af framboði á fiski og
hugsanlegu sjómannaverkfalli.
Dökkt útlit
í rækjunni
Atli Viðar Jónsson, framkvæmda-
stjóri Fiskiðjusamlags Húsavíkur,
segir að með uppsögnunum sé fyr-
irtækið að bregðast við aðstæðum í
rækjuvinnslunni og það sé eðlilegra
heldur en að láta reka á reiðanum.
Tvær vaktir hafi verið í gangi en frá
og með 1. mars verði aðeins ein dag-
vakt. Þessu fylgi önnur endurskipu-
lagning og í heildina þurfi að fækka
um 18 manns. „Tilgangurinn er auð-
vitað að ná utan um þessa rækju-
vinnslu, sem er mjög snúin,“ segir
Atli Viðar og bætir við að útlitið sé
ekki gott.
Hann segir að það sé eðlilegt að
menn haldi að sér höndum í rækju-
iðnaðinum. Hráefnisverð sé hátt og
kvóti innanlands hafi dregist mjög
mikið saman, sé kominn í 25.000
tonn.
Miklar uppsagnir hjá sjávarútvegsfyrirtækjum
Um 150 manns
sagt upp störfum
GÓÐ loðnuveiði var út af Vestfjörð-
um í gær og var fjöldi skipa á landleið
með fullfermi. Skipum fjölgar nú óð-
um á miðunum, enda talsvert tregari
loðnuveiði fyrir austan land.
Fimm skip voru á miðunum í Vík-
urál, um 30 sjómílur norðvestur af
Látrabjargi, síðdegis í gær. Tvö skip
hafa þegar skipt yfir í grunnnætur,
Oddeyrin EA og Seley SU, og að
sögn Ómars Sigurðssonar, skipstjóra
á Seley, var þokkaleg veiði. Hann
hafði kastað tvisvar um miðjan dag í
gær og fengið samtals um 300 tonn.
„Það eru stórar torfur víða á þessu
svæði en hinsvegar eru þær ekki
mjög þéttar. Þetta er stór og falleg
loðna en núna virðist ekki vera mikil
hreyfing á henni til suðurs,“ sagði
Ómar.
Júpiter ÞH var á leið til heima-
hafnar á Þórshöfn í gær með full-
fermi, um 1.300 tonn. Eins var Sig-
urður VE á leið til Vestmannaeyja í
gær með um 1.500 tonn, auk þess sem
Antares VE og Sighvatur Bjarnason
VE voru einnig á landleið með full-
fermi. Þá kom Sunnutindur SU til
Bolungarvíkur í gærkvöldi með um
500 tonn en bilun kom upp í annarri
aðalvél skipsins.
Alls hafa nú borist um 100 þúsund
tonn af loðnu á land frá áramótum,
samkvæmt samantekt Samtaka fisk-
vinnslustöðva. Mest hefur borist til
fiskimjölsverksmiðja á Austurlandi,
rúm 23 þúsund tonn til Síldarvinnsl-
unnar hf. í Neskaupstað og tæp 20
þúsund tonn til Hraðfrystihúss Eski-
fjarðar. Hinsvegar má búast við að
nú fari meira af loðnu að berast til
verksmiðja vestanlands.
Loðnufrysting að
hefjast í Noregi
Frysting á loðnu fyrir Rússlands-
markað er víða í fullum gangi. Loðnu-
veiðar Norðmanna í Barentshafi eru
nú að hefjast en Norðmenn hafa und-
anfarin tvö ár einnig fryst töluvert af
loðnu á Rússland en áður sátu Íslend-
ingar einir að þessum markaði. Á
fréttavef norska sjávarútvegsblaðins
Fiskaren var í gær greint frá því að
norskir útflytjendur hafi nú boðið
Rússum tonnið af frosinni loðnu á um
23 þúsund krónur en skilaverð til ís-
lenskra framleiðenda hafi til þessa
verið um 27–28 þúsund krónur fyrir
tonnið. Engin loðna hefur þó ennþá
verið fryst í Noregi en samkvæmt
heimildum Morgunblaðsins voru
nokkur norsk loðnuskip á landleið úr
Barentshafi í gær, með samtals um
8.000 tonn. Þeir íslensku útflytjendur
sem rætt var við sögðu óvíst hversu
mikið af því yrði hæft til frystingar,
enda þriggja til fjögurra sólarhringa
sigling af miðunum. Þeir sögðu að
síðustu ár hafi verð fyrir Rússaloðnu
lækkað eftir að frysting hefst í Nor-
egi og viðbúið að svo verði einnig nú.
Góð loðnuveiði úti fyrir Vestfjörðum
Morgunblaðið/Sigurgeir Jónasson
Loðnufrysting fyrir Rússlandsmarkað er nú í fullum gangi víðsvegar um land. Á myndinni er starfsfólk Ísfélags
Vestmannaeyja að frysta loðnu fyrir Rússann, en a.m.k. 70 manns eru í loðnuvinnslu hjá fyrirtækinu.
Skipin fylla sig
í fáum köstum
ÚR VERINU
VÍSINDAMÖNNUM í Bandaríkj-
unum hefur tekist að búa til „frum-
stæðar frumur“ í tilraun sem kann
að benda til þess að líf hafi kviknað
í geimnum og síðan borist til jarðar.
Breska útvarpið BBC hefur eftir
vísindamönnum, sem starfa með
NASA, geimrannsóknastofnun
Bandaríkjanna, að þessar frum-
stæðu frumur líki eftir himnum sem
finnist í öllum lífverum á jörðinni.
Þær voru búnar til á rannsókn-
arstofu í tilraun sem gerð var við
sömu aðstæður og eru í geimnum.
Að sögn BBC er hugsanlegt að
slíkar himnur hafi verið mik-
ilvægur þáttur í að vernda sjálfeft-
irmyndandi sameindir þegar þær
þróuðust í frumstætt líf. Þessar
sameindir kunni síðan að hafa bor-
ist til jarðar með halastjörnum, loft-
steinum eða geimryki og verið
kveikjan að lífi á jörðinni.
„Vísindamenn telja að sameind-
irnar, sem eru nauðsynlegar til að
mynda frumuhimnu og til að líf geti
kviknað, séu út um allan geiminn.
Þessi uppgötvun bendir til þess að
líf geti verið í öllum alheiminum,“
sagði Louis Allamandola, sem fer
fyrir vísindamönnunum. Þeir not-
uðu einföld og algeng efni í tilraun-
inni – ís, metanól, ammóníak og
kolsýring. Þessi efni voru látin
verða fyrir útfjólublárri geislun í
lofttæmi til að líkja eftir aðstæðum
í geimnum. Við þetta mynduðust
föst efni og þegar þeim var dýft í
vatn mynduðu þau himnur, líkar
sápukúlum. Þessar himnur eru ekki
lifandi einar og sér.
Vísindamennirnir segja að mynd-
un þessara efna bendi til þess að
sum þeirra lífrænu efna sem berist
til jarðar með loftsteinum og geim-
ryki kunni að hafa orðið til á köld-
ustu svæðum geimsins.
Vísindamenn vita ekki hvernig
lífið hófst en talið er að á einhverju
stigi hafi himnur orðið mikilvægar.
„Himnur eru eins og hús. Ef til vill
voru þessar sameindir aðeins timb-
ur sem gerðu efnum, sem geta
myndað líf, kleift að flytja inn og
stofna heimili eða smíða sín eigin
hús,“ sagði bandaríski vísindamað-
urinn Jason Dworkin.
Greint er frá rannsókninni í tíma-
ritinu Proceedings of the National
Academy of Sciences.
Kviknaði lífið
í geimnum?
INNBROTIÐ í Watergate-bygg-
inguna í Washington 1972 komst aft-
ur í sviðsljósið í Bandaríkjunum í
vikunni en þá var einn af þekktustu
sakborningunum í málinu, G. Gord-
on Liddy, aftur sakborningur og að
þessu sinni í málaferlum sem tengj-
ast. Liddy var einn af starfsmönnum
leynilegrar sérsveitar er einn af nán-
ustu samstarfsmönnum Richards
Nixons forseta, John Ehrlichman,
stofnaði og átti hún m.a. að stöðva
hættulegan upplýsingaleka. Á skilti
skrifstofuherbergis sveitarinnar í
Hvíta húsinu stóð „Pípararnir“.
Liddy stjórnar nú vinsælum
spjallþætti í útvarpi en hefur einnig
leikið í sjónvarpsþáttum eins og
Miami Vice. „Það var auðvelt fyrir
mig að leika þorparann, ég þurfti
ekkert að leika,“ sagði Liddy sem
lýsti vandlega skrykkjóttum ferli
sínum í vitnisburðinum.
Hann var kallaður fyrir réttinn af
lögfræðingi Idu „Maxie“ Wells sem
nú er enskukennari í Louisiana.
Wells var 23 ára gamall ritari í að-
alstöðvum demókrataflokksins í
Watergate þegar menn á vegum
repúblikana brutust inn. Hún höfð-
aði nýlega mál gegn Liddy í von um
að fá hann hann dæmdan fyrir æru-
meiðingar og krafðist um fimm millj-
óna dollara, um 430 milljóna króna, í
skaðabætur. Liddy hefur sakað
demókrata um að hafa rekið vænd-
ishring á skrifstofunni í Watergate.
Efnislítill náttkjóll og
afskipti Deans
Yfirleitt hefur verið talið að mark-
mið þjófanna hafi verið að afla gagna
um væntanlega andstæðinga Rich-
ards Nixons forseta í forsetakosn-
ingunum þá um haustið. Liddy segir
að John Dean, sem var lögfræðilegur
ráðgjafi Nixons, hafi verið maðurinn
á bak við innbrotið og hafi unnusta
hans sem þá var, Maureen Biner,
verið í hring símavændiskvenna sem
stjórnað hafi verið á skrifstofunni.
Dean hafi ætlað sér að láta þjófana
klófesta ljósmyndir af Biner í efnis-
litlum náttkjól og hafi myndirnar
verið í skrifborðsskúffu Wells.
Ein af stallsystrum Biners reidd-
ist að sögn Liddys þegar Biner
montaði sig af sambandinu við Dean
og laumaði umslagi með myndunum
í skúffu sem notuð var undir myndir
af nýráðnum stúlkum.
Liddy segir að vændishringurinn
hafi átt að sjá demókrötum fyrir
stúlkum. Hafi þær verið ráðnar úr
hópi Hollywood-leikkvenna en einn-
ig úr röðum liðsmanna í símavænd-
ishring frægrar hórumömmu í New
York, Xavieru Hollander.
Heimildarmaður Liddys fyrir
upplýsingunum um vændishringinn
er fyrst og fremst umdeildur lög-
maður, Philip Mackin Bailley, er
missti á sínum tíma réttindin. Lög-
fræðingur Wells dró í efa að treysta
mætti Bailley, sem hefur átt við geð-
ræn vandamál að stríða og tjáði eitt
sinn lögreglunni að hann væri geim-
vera frá plánetunni Alpha-Centauri.
Hann var einnig dæmdur fyrir að
þvinga konu til vændis og viður-
kenndi brot sitt.
Watergate-málið aftur í sviðsljósið
Vændishringur
á skrifstofu
demókrata?
AP
G. Gordon Liddy á leið í rétt-
arsal í Baltimore í Bandaríkjun-
um á mánudag, ásamt lögfræð-
ingi sínum, Kerrie Hook.