Morgunblaðið - 09.03.2001, Qupperneq 25
ÚR VERINU
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 9. MARS 2001 25
RÁÐGARÐUR Skiparáðgjöf efh.
hefur sent frá sér fréttatilkynningu
vegna þess að Ófeigur VE sökk við
bryggju í Huang Pu skipasmíðastöð-
inni í Kína en fyrirtækið hannaði
skipið. Í tilkynningunni er harmað að
starfsmaður skipasmíðastöðvarinnar
skuli hafa látist í slysinu en jafnframt
vill fyrirtækið upplýsa eftirfarandi:
„Það hefur verið vitað síðan í des-
ember á síðasta ári að það vantaði
ballest í skipið og hafa botngeymar
þess því verið fullir frá sjósetningu.
Skipasmíðastöðin gerði hallaprófun
19. desember sl. Útreikningar úr
prófuninni staðfestu að skipið upp-
fyllti ekki stöðugleikakröfur og var
því skilyrði að botngeymar væru full-
ir þar til bætt hefði verið ballest í það.
Samkvæmt upplýsingum sem okkur
hafa borist frá Kína, var ástæðan fyr-
ir slysinu sú að skipasmíðastöðin
hafði tæmt flesta af botngeymum
skipsins. Skipið hallaðist við þetta,
vatn flæddi inn um ófrágengið op á
síðunni og skipið fyllti.“
Ballest vantaði í Ófeig VE
NIÐURSTÖÐUR vetrarleiðangurs
Hafrannsóknastofnunarinnar sýna
almennt tiltölulega háan hita og seltu
í sjónum allt í kringum landið en
rannsóknaskipið Bjarni Sæmunds-
son var í sjórannsóknaleiðangri á
miðunum umhverfis landið 12.–26.
febrúar sl. Ástandið fyrir sunnan og
vestan land var með líku sniði og 2000
en þó heldur heitara fyrir austan-
verðu Norðurlandi og Austurlandi.
Þetta er því fjórði veturinn í röð með
ríkjandi hlýsjávaráhrifum á norður-
miðum.
Helstu niðurstöður hita- og seltu-
mælinga voru þessar: Sjávarhiti fyrir
Suður- og Vesturlandi var 5–6°C, sem
er í góðu meðallagi, og seltan var há
eins og verið hefur frá síðari hluta árs
1997 (35,00–35,20).
Hlýsjórinn að sunnan var þannig
með líkum styrk og undanfarin miss-
eri. Út af Vestfjörðum var hitinn
4–6°C og seltan yfir 35,0. Fyrir Norð-
urlandi gætti hlýsjávarins austur fyr-
ir Langanes (>3°C) og almennt var
ástand sjávar á norðurmiðum eins og
veturinn 2000, þ.e. bæði tiltölulega
hlýtt (2–5°C) og salt (34,7–35,0). Skil-
in við kalda sjóinn að norðan voru úti
yfir landgrunnsbrún. Fyrir Austur-
landi var sjávarhiti um 3°C og selta
um og yfir 34,7, sem er heldur hærra
en í meðallagi. Skil kalda sjávarins að
norðan og hlýja sjávarins að sunnan
voru út af Lónsbugt líkt og oft áður.
Hitastig við botn á landgrunninu
umhverfis landið var 5–7°C sunnan-
lands og vestan nema næst landi þar
sem var kaldara, 3–4°C fyrir Norður-
landi, lækkandi austur á bóginn, og
2–3°C austanlands, allt heldur heit-
ara en 2000.
Í leiðangrinum voru einnig gerðar
kolefnis- og snefilefnamælingar og
sýnum var safnað fyrir Geislavarnir
ríkisins. Að auki var safnað sýnum af
karfa í tengslum við alþjóðlegt sam-
starfsverkefni.
Leiðangursstjóri á rs. Bjarna Sæ-
mundssyni var Héðinn Valdimarsson
og skipstjóri Ingi Lárusson.
Hlýrri sjór fjórða
árið í röð
MJÖG góð loðnuveiði var undan
Krísuvíkurbjargi í gær og var loðn-
an á hægri hreyfingu austur á bóg-
inn, öfugt við það sem sjómenn eiga
að venjast. Góð loðnuveiði var fyrir
austan land í fyrrinótt, skammt ut-
an Hornafjarðar, en loðnan veiðist
þar einungis á nóttunni sem einnig
kemur sjómönnum á óvart.
Faxi RE var á landleið til Þor-
lákshafnar í gær með fullfermi, um
1.500 tonn, og hefur skipið þá veitt
um 15.000 tonn á aðeins 13 dögum.
„Það hefur verið mokveiði úr þess-
ari vestangöngu allan sólarhring-
inn. Losunarmöguleikarnir eru
góðir fyrir okkur á meðan veiðin er
hér fyrir vestan og það hefur því
verið þægilegt að sækja í þetta á
meðan tíðin er góð,“ sagði Ólafur
Einarsson skipstjóri í samtali við
Morgunblaðið í gær. „Menn eru
alltaf að kasta á sömu torfuna og
núna verðum við bara að gæta þess
að fá ekki of mikið því þá springur
nótin. Loðan sígur núna austur með
landinu en venjulega kemur hún að
austan og gengur vestur með.
Þetta er ágætt fyrir okkur sem
löndum hérna á vestari endanum.
Það er farið að sjást töluvert af
hrognum í loðnunni og því styttist
stöðugt í vertíðarlokin. Það er samt
engin leið að segja til um hvenær
hún hættir að veiðast.“
Aðeins voru fjögur loðnuskip að
veiðum fyrir austan land í gær-
morgun og fengu þau góðan afla
austan við Hrollaugseyjar í fyrri-
nótt. Veiðin er hins vegar aðeins á
nóttunni en loðnan leggst til botns í
birtunni. Þetta er óvenjulegt á
þessum árstíma, að sögn Sigurðar
Sigurðssonar, skipstjóra á Erni KE.
„Allt nýtt fyrir manni“
„Þetta er allt saman nýtt fyrir
manni og hefur maður þó verið við
þetta lengi. Ég hef ekki áður séð
svona mikið af loðnu koma í vest-
urgöngunni og hér fyrir austan er
venjulega veiði allan sólarhringinn
þegar loðnan er komin upp á
grunnið. Hér er heilmikil torfa en
hún leggst til botn í birtunni. Við
gengum um 600 tonn í þremur
köstum undir ljósaskiptin og
sprengdum meira að segja nótina í
einu kastinu. Það munar miklu ef
það er hægt að fá góðan afla hér
fyrir austan líka því það er löng
sigling á löndunarhafnir á Austur-
landi frá miðunum fyrir vestan.“
Loðnan í austurgöngunni virðist
vera komin töluvert skemur í
hrygningu en sú fyrir vestan. Heil-
frysting á loðnu hófst hjá Síld-
arvinnslunni í Neskaupstað í gær
og verið er frysta loðnu á Jap-
ansmarkað hjá Skinney-Þinganesi
á Hornafirði. Japansfrystingu hef-
ur hins vegar verið hætt vest-
anlands en hrognavinnsla er nú
komin í fullan gang í Vest-
mannaeyjum. Hjá Ísfélagi Vest-
mannaeyja er nú til dæmis verið að
frysta hrogn á Japansmarkað, auk
þess sem framleiðsla á sykursölt-
uðum hrognum fyrir Svíþjóð-
armarkað er nú meiri en und-
anfarin ár.
Loðnan
kemur
enn á
óvart
Morgunblaðið/Sigurgeir Jónasson
Vinnsla á loðnuhrognum er nú í fullum gangi í Vestmannaeyjum og nóg
að gera, eins og sjá má á þessum starfsstúlkum Ísfélags Vestmannaeyja.