Morgunblaðið - 19.10.2001, Blaðsíða 14
HÖFUÐBORGARSVÆÐIÐ
14 FÖSTUDAGUR 19. OKTÓBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
TEKJUR af hraðlest á milli Reykja-
víkur og Keflavíkur myndu standa
undir rekstrarkostnaði lestarinnar
en eftir stæði framkvæmdakostnaður
sem yrði á bilinu 24,1–29,5 milljarðar
króna. Þetta er meðal niðurstaðna
áfangaskýrslu vegna hagkvæmniat-
hugunar á lestarsamgöngum milli
staðanna sem kynnt var á blaða-
mannafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í
gær.
Það voru breska ráðgjafafyrirtæk-
ið AEA Technology Rail og Ístak hf.
sem unnu skýrsluna fyrir Orkuveitu
Reykjavíkur og Borgarverkfræðing-
inn í Reykjavík. Að sögn Ingibjargar
Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra
var hvatinn að því að gera þessa hag-
kvæmnikönnun umræðan um flutn-
ing innanlandsflugsins úr Vatnsmýr-
inni á nýjan flugvöll annaðhvort í
nágrenni Reykjavíkur eða til Kefla-
víkur. „Það kom strax fram í þeirri
umræðu að ein af forsendum þess að
flytja þessa flugstarfsemi væri að
komið væri á samgöngumáta milli
væntanlegs flugvallar og borgarinn-
ar sem gæti verið það skilvirkur að
hægt væri að flytja þessa flugstarf-
semi úr Vatnsmýrinni,“ sagði hún á
fundinum í gær.
Gert er ráð fyrir þremur lestar-
stöðvum á leiðinni og yrði endastöðin
Reykjavíkurmegin annaðhvort í
Mjódd eða í nágrenni Vatnsmýrar-
innar sem skýrir mun á kostnaðarút-
reikningum, en endastöð nálægt mið-
borginni yrði mun dýrari og myndi
kosta nálægt 30 milljörðum. Ferðir
yrðu að jafnaði á 30 mínútna fresti
meðan Keflavíkurflugvöllur er opinn
en sennilega yrði lengra á milli ferða
utan annatíma, en færi niður í 15 mín-
útur á mesta annatíma.
Verði Mjóddarkosturinn fyrir val-
inu er gert ráð fyrir einfaldri braut-
arstöð í Garðabæ og endastöð nálægt
verslunarmiðstöðinni í Mjódd. Gerð
járnbrautar með endastöð við
Reykjavíkurflugvöll er öllu flóknari
þar sem hún klofnar frá Reykjanes-
braut nálægt Arnarnesvogi og liggur
í göngum undir Kópavog og undir
Öskjuhlíðina að endastöð. Þá yrði
neðanjarðarstöð gerð við Smáralind.
Brautarstöðin í Keflavík yrði við
flugstöðina en við afleggjarann til
Grindavíkur yrði sett brautarstöð við
Bláa lónið, sýni frekari athugun að
það sé arðbært. Í Hafnarfirði yrði
brautarstöðin sennilega í syðri hluta
bæjarins.
Í skýrslunni kemur fram að járn-
brautin yrði lögð austan Reykjanes-
brautar mestan hluta leiðarinnar. Í
byggð yrði brautin víðast tvíspora en
á óbyggðum svæðum einspora en tví-
spor þar sem lestirnar mætast.
Kannaðir voru fjórir kostir varðandi
hvers kyns lest væri hentugust fyrir
umrædda leið, hefðbundin járnbraut,
sporvagnar, tvíhátta járnbraut, sem
sameinar kosti járnbrautar og spor-
vagna og svokölluð sjálfrennireið,
þar sem akstur lestarinnar er sjálf-
virkur og án lestarstjóra sem æki
með. Niðurstöðurnar voru þær að
hefðbundin hraðlest yrði heppilegasti
kosturinn á leiðinni. Býður hún upp á
mestan hraða, eða um 160 kílómetra
á klukkustund, og þannig yrði ferða-
tíminn milli Reykjavíkurflugvallar og
Keflavíkurflugvallar 30 mínútur.
Þetta er jafnframt dýrasti kosturinn.
Flutningur innanlandsflugsins
skiptir ekki sköpum
Á kynningarfundinum kom fram
að gangi spár um fjölgun ferðamanna
eftir er talið að tekjur vegna lestar-
innar myndu standa undir rekstrar-
kostnaði hennar. Sagði Ingibjörg
Sólrún að þá væri ekki talið skipta
sköpum hvort Reykjavíkurflugvöllur
flytji úr Vatnsmýrinni eða ekki þó að
vissulega yrðu tekjur meiri ef flugið
flyttist. Sagði Edwin Marks, fulltrúi
AEA Technology og verkefnisstjóri
könnunarinnar, hins vegar ólíklegt
að tekjurnar myndu borga niður
kostnað við að koma upp kerfinu.
„Þetta er mjög algengt í lestarsam-
göngum í Evrópu að lestirnar standa
undir eigin rekstrarkostnaði en það
er mjög sjaldan að þær standa undir
fjárfestingarkostnaðinum. Miðað við
þetta virðist það vera þess virði fyrir
samfélagið að íhuga hvort ávinning-
urinn fyrir samfélagið og ferðaþjón-
ustuna sé kostnaðarins virði,“ sagði
hann.
Kom fram á fundinum að næsta
skref væri að meta slíka þjóðhags-
lega hagkvæmni og segir í skýrslunni
að hugsanlegur ávinningur fyrir
járnbrautartengingu á umræddri leið
sé styttri ferðatími fyrir flugfarþega,
minni þörf á innfluttum orkugjöfum
þar sem um væri að ræða rafmagns-
lestir auk þess sem draga myndi úr
bílaumferð og þar með slysum.
Undirbúningur
tæki 8–10 ár
Í máli Ólafs Bjarnasonar, yfirverk-
fræðings hjá Borgarverkfræðingi,
kom fram að töluvert langt er þangað
til lestin gæti orðið að veruleika því
undirbúningur slíkrar framkvæmdar
einn og sér gæti tekið 8 –10 ár. „Við-
horfið núna er kannski ekki síst að
horfa til þess að taka frá land og
hvernig þetta getur fallið inn í fram-
tíðarskipulag,“ sagði hann. Kom
fram á fundinum að þannig væri
horft til þeirrar vinnu sem nú stendur
yfir varðandi svæðisskipulag höfuð-
borgarsvæðisins og aðalskipulag
Reykjavíkur en hvort tveggja gildir
til ársins 2024. Sagði Ingibjörg mik-
ilvægt að þar yrðu ekki teknar þær
ákvarðanir sem kæmu í veg fyrir að
lestin gæti orðið að veruleika.
Að sögn Ingibjargar yrði fjár-
mögnun lestarinnar sameiginlegt
verkefni ríkis og þeirra sveitarfélaga
sem að henni kæmu og er ákvörðun
þar um háð samþykki þessara aðila.
Hún sagðist þó sannfærð um að í
framtíðinni yrði í ríkari mæli horft til
lestarsamgangna sem fýsilegs sam-
göngukosts. „Ég er sannfærð um að
tíminn mun vinna með okkur í þessu
efni. Víða erlendis í borgum af ann-
arri stærðargráðu en Reykjavík sér
maður að grunngerð þessara borga
er hrunin vegna umferðar,“ sagði
hún og nefndi borgir eins og London
og Moskvu sem dæmi. „Menn komast
ekki leiðar sinnar heldur sitja fastir í
umferðinni þannig að það verður að
taka á þessum málum og þróa aðra
samgöngumiðla en verið hafa hingað
til ef þessar borgir eiga að virka. Ég
held líka að ef eitthvað er muni þetta
verða ódýrara þegar fram líður.“
Fyrsta áfanga hagkvæmniathugunar á lestarsamgöng-
um milli Keflavíkur og höfuðborgarinnar lokið
Þetta er samskonar lest og rætt er um. Gert er ráð fyrir að hún fari á 160 km hraða á klst. þannig að ferðatím-
inn milli Reykjavíkurflugvallar og Keflavíkurflugvallar yrði um 30 mínútur.
Tekjur stæðu undir
rekstrarkostnaði
Reykjavík
Morgunblaðið/RAX
Edwin Marks verkefnisstjóri, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri
og Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, voru
meðal þeirra sem kynntu niðurstöður hagkvæmniskýrslunnar.