Morgunblaðið - 15.01.2002, Blaðsíða 32
Halldór Laxness í tilvitnunum í
íslensk bókmenntaverk.
FYRIRSÖGN þessarar greinar er
tilvitnun úr Stuðmannamyndinni
Með allt á hreinu, lögð í munn
danskappans Ólivers Tvist. Átt þú
þér lesandi góður uppáhalds til-
vitnun í íslenskar bókmenntir og
texta?
„Væri þér kringara að vera
heima að búi föður þíns og stanga
úr tönnum þér rassgarnarenda
merarinnar, er þú ást áður en þú
reiðst til þings og sá smalamaður
föður þíns til þín og undraðist er
þú gjörðir slíka fúlmennsku.“
Þessi tilvitnun úr Njálu kom upp
í huga konu nokkurrar þegar hún
var beðin um að nefna í snatri
uppáhaldstilvitnun sína
úr íslenskum bókmennt-
um. Þarna var vitnað í
Skarphéðin Njálsson
sem kynnti sig með
þessum orðum og öðr-
um álíka ófrýnilegum
fyrir Þorkeli háki á Alþingi. Safa-
ríkan og kjarnyrtan talsmáta
Skarphéðins er auðvelt að muna,
og þegar betur var að gáð reynd-
ust fleiri konur og karlar eiga sér
uppáhaldstilvitnanir sem auðveld-
lega runnu af vörum fram í laus-
legri könnun blaðamanns. Tilvitn-
un í Þórberg, Bréf til Láru: „Ég
settist niðrí skógarrunn og skeit,“
var einum viðmælanda ofarlega í
huga; – hvers vegna? Kannski
vegna óvæntra endaloka á yfir-
máta ljóðrænu upphafi setningar-
innar; – hver veit. Þær eru ólíkar
þær tilvitnanirnar sem fólk grípur
til handargagns í daglegu máli.
„Það er margt lífið þótt lifað sé“,
var haft eftir eldri manneskju, en
viðmælandi sem hafði þetta eftir,
taldi lengi að hér væri ekki allt
með felldu, og að spekin væri ekki
speki, heldur merkingarlaus sam-
sláttur tveggja eða kannski fleiri
orðtækja, þar til að á daginn kom,
að svo var ekki. Önnur uppáhalds-
tilvitnun viðmælanda
kom frá Laxness:
„Hvað er það að hanga
á krossi einn eftirmið-
dag miðað við það að
horfa á börnin sín
svelta.“ Þessi er óneit-
anlega sterk, og í henni er fólgin
heil lífssýn.
Íslendingar virðast áhugasamir
um að geta vitnað í texta og speki
annarra. Þetta á við um einstak-
linga, en einnig stofnanir. Hver
kannast ekki við tilvitnuna í Njál á
Bergþórshvoli sem Lörgreglan
hefur tekið sér í munn: „Með lög-
um skal land byggja.“ Og svo vitn-
um við líka í útlenda speki, Cesar
og Cicero ef út í það er farið og
ekki vantar handgengar tilvitnanir
úr Biblíunni, sem hver maður hef-
ur á hraðbergi meðvitað eða ómeð-
vitað.
Samvinna margra
Í tilefni af aldarafmælis Hall-
dórs Laxness í vor hefur Mjólk-
ursamsalan tekist á hendur það
verkefni að gefa út veggspjald, þar
sem mynd skáldsins birtist í gegn-
um tilvitnanir í íslensk bókmennta-
verk. Á veggspjaldinu eru 152 til-
vitnanir í 76 höfunda, en á bakhlið
þess er heimildaskrá og lykill að
skammstöfun höfunda. Vegg-
spjaldinu fylgir verkefnabók, sem
dreift verður til íslenskukennara í
eldri bekkjum grunnskóla. Þar er
að finna allar tilvitnanirnar sem
eru á veggspjaldinu, með heilmild-
um, en auk þess eru kennurum
gefnar hugmyndir að verkefnum
fyrir nemendur sína. Það er aug-
lýsingastofan Hvíta húsið sem
vann veggspjaldið og bókina; út-
litshönnuður var Sverrir Björns-
son, en Elín Hilmarsdóttir hafði
umsjón með efnisöflun og úr-
vinnslu. Að sögn Hrafnhildar Júl-
íusdóttur hjá Hvíta hús-
inu tóku þó fleiri þátt í
verkefninu; efnið er allt
yfirlesið af íslenskri
málstöð, en Mjólkur-
samsalan vinnur náið að
íslenskuverkefnum sín-
um með Íslenskri málnefnd. Rit-
höfundasambandið sá svo um að
útvega leyfi til rétthafa, og Náms-
gagnastofnun sér um dreifingu
verkefnisins auk þess að vista það
á vef sínum, þannig að þarna hafa
margir lagt hönd á plóginn.
Elín segir að við vinnslu verk-
efnabókarinnar hafi það fyrst og
fremst verið haft í huga að verk-
efnin nýttust áttunda, níunda og tí-
unda bekk grunnskólans. Hún seg-
ir að ætlunin hafi verið að vinna
verkefnin ekki of ítarlega, heldur
að gefa kennurunum sjálfum kost
á að nýta sér verkefnabókina sem
hugmyndabanka, eins og þeim
sjálfum hugnaðist. Elín safnaði
sjálf tilvitnunum, og studdist að
nokkru við bókina Orð í tíma töluð.
„Ég hafði í huga að reyna að
dreifa þessu jafnt, þannig að til-
vitnanirnar næðu allt frá fornbók-
menntum til okkar daga, og þarna
yrði allt það helsta, Eddukvæðin
og þær Íslendingasögur sem helst
eru notaðar í grunnskólunum. Svo
stiklaði ég á stóru í gegnum sög-
una og tíndi til það sem mér fannst
mikilvægt að hafa, og þar er Hall-
dór Laxness auðvitað fyrirferðar-
mikill. Ég þurfti svo að leggjast í
mikinn lestur til að sjá til þess að
yngri höfundarnir yrðu með, og
einnig að passa upp á konurnar.
Þær eru ekki mikið í tilvitnanabók-
um.“
Kærkomin viðbót
í hugmyndabankann
Haukur Ísfeld, íslenskukennari í
Hvassaleitisskóla, fagnar þessu ís-
lenskuverkefni Mjólkursamsölunn-
ar. „Mér líst mjög vel á þetta og
ég er klár á því að það er hægt að
nota þetta á ýmsan hátt í kennslu.
Hugmyndirnar í verkefnabókinni
er hægt að nýta í umræðum í bekk
og hópumræðum, í ýmiss konar
hópvinnu og einstaklingsverkefn-
um. Það er einnig hægt að nota
þetta sem ritunarverkefni í tíma
og í umfjöllun um orð og orðskýr-
ingar, þannig að ég sé í þessu
möguleika á fjölbreyttri notkun, og
fagna því að hafa fengið
þetta í hendurnar.
Þetta er líka hentugt
fyrir það að hægt er að
taka verkefnin fyrir
jafnvel í stutta stund í
senn, – kannski í tíu
mínútur í tíma og hvernig sem
maður vill; mönnum er alveg opið
hvað þeir gera og ég held að flestir
kennarar séu ánægðir með að fá
að gera þetta á sinn hátt. Mér líst
æ betur á þetta eftir því sem ég
skoða það meira og get sagt að
þetta sé kærkomið innlegg í hug-
myndabanka íslenskukennara.“
„Ég tvista
til þess að
gleyma“
Í vor verða liðin 100 frá fæðingu Halldórs
Laxness. Af því tilefni hefur Mjólkursam-
salan gefið út veggspjald, þar sem mynd
Halldórs birtist í tilvitnunum í íslenskar
bókmenntir. Veggspjaldinu fylgir verk-
efnabók fyrir íslenskukennara.
Morgunblaðið/Golli
Haukur Ísfeld íslenskukennari.
„Það er ekkert
helvíti til nema
vond sam-
viska“
„Ef þeir
þegja, um
hvað þegja
þeir?“
LISTIR
32 ÞRIÐJUDAGUR 15. JANÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ
ÞAÐ er ekki á hverjum degi að Ís-
lendingar fá tækifæri til að heyra í
þjóðarhljóðfærum Kínverja, fiðl-
unni Erhu, og lútunni sem þeir
kalla pípu. Á tónleikum í Salnum í
kvöld kl. 20.00 og á laugardag kl.
15.00, gefst tækifæri til að hlusta á
Hinn þjóðlega tónlistarhóp Kín-
versku kvikmyndahljómsveitarinn-
ar í Peking, leika á þessi hljóðfæri
og fleiri, tónlist frá heimalandi
sínu, og þar á meðal mörg þekkt-
ustu þjóðlög Kínverja. Hópurinn,
sem skipaður er sex hljóðfæraleik-
urum, leikur nýja og forna kín-
verska þjóðlagatónlist á gömul
hljóðfæri, flest ævaforn, og með
sterkar rætur í kínverskri tónlist-
armenningu.
Endurreisn á 20. öld
Tónleikar hópsins hér á landi
eru haldnir til þess að minnast
þess að í desember síðastliðnum
voru liðin 30 ár frá því að Íslend-
ingar og Kinverjar tóku upp
stjórnmálasamband.
Hin þjóðlega kvikmyndahljóm-
sveit var stofnuð árið 1949 og er
ein elsta hljómsveit sinnar tegund-
ar í Kína og starfar á vegum rík-
isins. Nýtur hún mikillar virðing-
ar. Frá því að hljómsveitin var
stofnuð hefur hún hljóðritað tón-
list við rúmlega 2.000 kvikmyndir,
en auk þess við fréttamyndir og
ótalmarga sjónvarpsþætti. Þá hafa
verið gefnar út fjölmargar hljóm-
plötur, snældur og geislaplötur
með leik hennar. Þegar 20. öldin
gekk í garð var þannig komið fyrir
kínverskri tónlist að einungis var
leikið á fremur fá, þjóðleg hljóð-
færi. Almenningur þekkti ekki til
fjölda gamalla hljóðfæra sem
höfðu verið vinsæl fram eftir öld-
um. Á þriðja áratug síðustu aldar
varð vakning á meðal kínverskra
tónlistarmanna. Tekið var til við
að útsetja gömul þjóðlög fyrir
hljóðfæri sem ekki höfðu verið í
tísku áratugum saman og stofn-
aðar voru litlar hljómsveitir, sem
einbeittu sér að flutningi þjóðlegr-
ar, kínverskrar tónlistar. Eftir
stofnun Kínverska alþýðulýðveld-
isins hljóp mikill vöxtur í þessa
listgrein. Segja má að vinsældir
slíkra hljómsveita hafi náð há-
marki um miðjan 8. áratuginn. En
með tilkomu vestrænna áhrifa í
tónlist hefur þessi tónlistarhefð átt
í nokkurri vök að verjast að und-
anförnu eins og margt sem er
þjóðlegt og á sér fornar rætur.
Hljómsveitin hefur átt ríkan þátt í
að efla þróun þjóðlegrar, kín-
verskrar tónlistar víða um heim og
hlotið frábærar viðtökur hvar sem
hún hefur leikið. Smærri hópar
tónlistarmanna starfa innan vé-
banda hljómsveitarinnar, þeirra á
meðal er sextett sá sem nú heim-
sækir Íslendinga.
Kínverjarnir koma hingað í boði
Kínversk-íslenska menningar-
félagsins, Íslensk-kínverska við-
skiptaráðsins og utanríkisráðu-
neytisins til í tilefni af þessum
tímamótum í samskiptum þjóð-
anna. Fyrr í vetur fóru Sigrún
Hjálmtýsdóttir og Anna Guðný
Guðmundsdóttir til Kína, og héldu
tónleika meðal annars í Forboðnu
borginni í Peking af sama tilefni.
Meðal verkanna sem leikin
verða er eitt frægasta lag hljóð-
færisisns yangquin sem er af salt-
araætt og náskylt ungverska
hljóðfærimu simbalom. Lagið heit-
ir Skipun hershöfðingjans; nafn-
giftin dæmigerð fyrir kínverska
þjóðlagatónlist. Annað lag ekki
síður þekkt, og leikið á blásturs-
hljóðfærið sheng, er Konungur
Qin-ríkisins rýfur fylkingu óvin-
anna. Lagið er byggt á þjóðlagi
sem á rætur að rekja til tímabils
Tang-keisaraættarinnar, 618–907
e.Kr. Hér er lýst hörðum bardaga
sem háður var á þriðju öld fyrir
Krist. Fyrirsát á alla vegu, er enn
eitt þekkt kínverskt þjóðlag, en
það er leikið á kínverska sítarinn
pípu. Þar er lýst bardaga sem háð-
ur var árið 206 fyrir Krist, þar
sem tvær ættir tókust á um keis-
aratignina. Heyra má vagnaskrölt,
vopnaglam og gnegg stríðshest-
anna. Rómantískar nafngiftir kín-
verskra þjóðlaga eru líka margar
og jafnlýsandi og þær sem segja
frá bardögum og stríði. Meðal
þeirra eru Lótusblóm í mánaskini
á fljótsbakka, leikið á pípu og
Máninn speglast í lindinni leikið á
tveggja strengja fiðluna erhu. Auk
einleiksverka leikur hópurinn sam-
an nokkur lög. Hljóðfæraleikarar
Hins þjóðlega tónlistarhóps Kín-
versku kvikmyndahljómsveitarinn-
ar í Peking, eru Li Chunyong, sem
leikur á yangqin, He Yuan á
sheng, Yin Yan á erhu, Yang Fan
á zhongruan, Chen Yu á pípu og
Sun Xin sem leikur á guzheng.
Þjóðlagahópur Kínversku kvikmyndahljómsveitarinnar á tónleikum í Salnum
Ævafornar
bardaga-
lýsingar
Hinn þjóðlegi tónlistarhópur Kínversku kvikmyndahljómsveitarinnar í
Peking sem leikur á tónleikum í Salnum í kvöld og á laugardaginn.