Morgunblaðið - 08.09.2002, Blaðsíða 31
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 8. SEPTEMBER 2002 31
ÞAÐ er löngu kominn tími til að ís-
lenskar nútímakonur taki sig saman
í andlitinu, stundi hópefli og skauti
aftur út á grínsins hála ís, en í seinni
tíð hefur þjóðina sárlega vantað nýja
sýn á heiminn af sjónarhóli hér-
lendra kvenna þar sem bent er á
spaugilegar hliðar tilverunnar.
Skjallbandalagið, sem hefur á að
skipa nokkrum allt of sjaldséðum
sómakonum, hefur verið að þróa efn-
istök sín og stíl að undanförnu, eins
og sjá hefur mátt á stuttum þáttum
þeirra sem sýndir hafa verið á milli
atriða hjá sjónvarpsstöðinni Skjá
einum. Konurnar sem hafa bundist
hér samtökum sækja innblástur í
bresku þáttaröðina Út í hött (Smack
the Pony) og gera nokkrar góðar
hugmyndir þaðan að sínum.
Þetta er ekki hefðbundið leikrit,
heldur er sýningin sett saman úr at-
riðum sem byggjast á sama þema.
Áhorfendur kynnast fjölda ólíkra
persóna sem velta fyrir sér sérstöðu
sinni sem kvenna, hvað þær eigi sam-
eiginlegt og hvað greini þær frá okk-
ur körlum, sem höfum byggt heims-
mynd þessa samfélags eftir eigin
höfði.
Skjallbandalagsstúlkur ná mjög
vel saman í leik auk þess að spjara
sig upp á eigin spýtur þess á milli;
þeim finnst gaman að ganga fram af
fólki og af kvenlegri smekkvísi lætur
þeim best að fjalla um þá líkamshluta
sem konur hafa framyfir karlmenn.
Það sem öllu máli skiptir er að hér er
á ferðinni ferskt efni sem hrærir
hláturstrengina. Persónusköpunin
er í fyrirrúmi og hér spretta fram
ótal nýir karakterar. Arndís Hrönn
Egilsdóttir sýnir t.d. á sér tvær ger-
ólíkar hliðar og tekst jafn vel upp við
báðar, annars vegar sem Gunnhildur
ljóðskáld og hins vegar sem sminkan
Lilja, sem á ákaflega fína spretti í
kappi við Nótt sem túlkuð er af Elmu
Lísu Gunnarsdóttur. Jóhanna Jónas
býr einnig til tvær mjög vel heppn-
aðar manngerðir, hina frásagnarg-
löðu Fanneyju og óstyrka sjálfs-
myndarstyrkjarann Gerði, sem er
feikna vel byggð upp og túlkuð grín-
persóna. Þriðja persóna hennar,
María Lína Mogens, er aftur á móti
fyrirsjáanlegri. Þrúður Vilhjálms-
dóttir og Elma Lísa Gunnarsdóttir
kljást í atriðum þar sem þær eru ým-
ist gerðar sem líkastar í útliti og
háttum eða látbragðið látið byggja
upp andstæðar persónur, eins og í
atriðinu um mæðgurnar Ráðhildi og
Þorbjörgu. Atriðið um kviðmágkon-
urnar Boggu og Karítas er ákaflega
vel leikið og greinilegt að leikstjór-
inn, María Reyndal, hefur ákveðið að
yfirfæra leikstílinn í Karíus og Bakt-
us, sem hún leikstýrði nýlega, yfir á
þessar sérstöku aðstæður. Það er
greinilegt að allt hefur verið þaulæft
enda einkennir mikið öryggi leikinn.
Tískusýningarrampur og flennistór-
ir speglar auk efnislítilla búninga
skapa svo hárrétta umgjörð.
Þrúður nær einnig fantagóðum
tökum á Möggu en Elma Lísa fær í
þetta skipti borðann, veldissprotann
og kórónuna fyrir túlkun sína á list-
dansmeynni Ólöfu – en Áfram, stelp-
ur (eftir Gunnar Edander í þýðingu
Dagnýjar Kristjánsdóttur og Krist-
jáns Jónssonar) hljómar í nýrri út-
setningu undir súludansinum.
Sýningin boðar nýtt skref framá-
við í réttindabaráttu íslenskra
kvenna; þær eru komnar á það stig
að þær geta rifið úr sér „hina innri
blæju“, fleygt henni framan í kvalara
sína og látið allt flakka – svo er
spurning hvort þær tína hana upp úr
ruslinu að leik loknum og koma
henni haganlega fyrir innra með sér
á ný eða láta hana liggja.
Sýningin er stutt – einungis fimm
stundarfjórðungar – enda engum
hollt að hlæja samfellt í lengri tíma.
Hægt er að byggja sig upp fyrir
átökin eða bjarga því sem bjargað
verður að þeim loknum með því að
borða góðan mat í fallegum salar-
kynnum veitingahússins Tjarnar-
bakkans eða að neyta einhvers
styrkjandi drykkjar sem boðið er
upp á allt frá jarðhæð upp í ris í
þessu sögufræga samkomuhúsi.
Það er ef til vill best að enda þenn-
an pistil á tilsvari úr sýningunni, að
vísu upprunalega af öðru tilefni en á
samt jafn vel við hér: „Þetta er búið
að vera töff – en ég mæli með því.“
Hin innri
blæja
LEIKLIST
Skjallbandalagið í Iðnó
Höfundar: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma
Lísa Gunnarsdóttir, Jóhanna Jónas,
María Reyndal og Þrúður Vilhjálmsdóttir.
Leikstjóri: María Reyndal. Dramatúrg:
Kristín Eysteinsdóttir. Tónlistarstjórn:
Úlfur Eldjárn. Ljósahönnun: Halldór Örn
Óskarsson. Hönnun búninga og gerva:
Ásta Hafþórsdóttir. Leikmyndahönnuður:
Snorri Freyr Hilmarsson. Leikarar: Arndís
Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnars-
dóttir, Jóhanna Jónas og Þrúður Vil-
hjálmsdóttir. Föstudaginn 6. september.
BEYGLUR MEÐ ÖLLU
Sveinn Haraldsson
Þrúður Vilhjálmsdóttir í sveiflu.
Morgunblaðið/Jim Smart
AUGLÝSINGADEILD
netfang: augl@mbl.is eða sími 569 1111