Morgunblaðið - 23.02.2003, Síða 47

Morgunblaðið - 23.02.2003, Síða 47
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 23. FEBRÚAR 2003 47 Genginn er einn helsti frumkvöðull ferðamála á Íslandi, Kristleifur Þorsteins- son á Húsafelli. Krist- leifur hóf fyrir tæpum fjórum ára- tugum rekstur ferðaþjónustu á Húsafelli ásamt eiginkonu sinni, Sigrúnu Bergþórsdóttur. Á þeim tíma þótti rekstur ferðaþjónustu vera hin mesta djörfung, jafnvel þó að Húsafellsbændur hafi um aldir rekið „ferðaþjónustu“ fyrir svanga og þreytta ferðalanga sem komu af Arnarvatnsheiði. Kristleifur sá hins vegar tækifærin sem lágu í nátt- úrufegurðinni, veðursældinni og í öðrum þeim auðlindum sem á Húsafelli eru og búa í Borgarfirði öllum. Í dag hafa flestir Íslendingar komið í Húsafell og þegið þjónustu þá sem Kristleifur ásamt fjölskyldu sinni byggði upp og hefur vaxið og dafnað í gegnum tíðina. Lífshlaupi er lokið og Vestlend- ingar þakka Kristleifi á Húsafelli fyrir kynningu á landshlutanum og óeigingjarnt starf í þágu ferðaþjón- ustunnar. Sjálfar viljum við þakka Kristleifi fyrir lærdómsríka við- kynningu um leið og við vottum ást- vinum hans okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Kristleifs Þorsteinssonar. Ásthildur Sturludóttir, ferðamálafulltrúi Vesturlands, Hrafnhildur Tryggvadótt- ir, forstöðumaður Upplýsinga- og kynningar- miðstöðvar Vesturlands. Frumkvöðullinn, bóndinn og atorkumaðurinn Kristleifur á Húsa- felli er allur. Eftirsjá að persónu hans er mikil sem og virðing fyrir því sem hann áorkaði á langri og farsælli ævi. Líklega geta flestir sem kynntust Kristleifi vitnað um að þar var á ferðinni sá Íslendingur sem hvað best gat borið nafnbótina frumkvöðull með rentu. Í upphafi 7. áratugar síðustu ald- ar bar nafn Kristleifs á Húsafelli oft á góma í umræðu manna á meðal í Borgarfirði, enda voru frumherja- störf hans nýlunda á þeim tíma. Margir voru og tilbúnir til að láta uppi efasemdarraddir um brambolt- ið í honum Kristleifi enda fetaði hann ógjarnan troðnar slóðir. Dreif- býlisfólkið hafði á þeim tíma við- urværi sitt af hefðbundnum land- búnaði og þekkti lítt til annars en að land væri nýtt til beitar og sláttu eins og vaninn var mann fram af manni. En Kristleifur hafði eygt tækifæri í annarskonar búskap; þjónustu við ferðafólk. Húsafells- bændum var sú iðja ekki alls ókunn því ferðalangar á leið milli lands- hluta höfðu gjarnan viðkomu á Húsafelli. Þannig var gestkvæmt hjá foreldrum Kristleifs þeim Þor- steini og Ingibjörgu á Húsafelli á uppvaxtarárum hans. Hann hafði þarna kynnst vísi að þess konar þjónustu frá blautu barnsbeini og efalaust verið búinn að útspekúlera möguleikana sem fólust í þjónustu af því tagi löngu áður en tekin var sú ákvörðun að bregða stóru fjárbúi á Húsafelli, friða skóginn fyrir búfé og byggja upp nýja atvinnugrein fyrstur bænda hér á landi. Þannig átti bernska Kristleifs, einstakar aðstæður á Húsafelli frá náttúrunn- ar hendi og frumherjaeðli hans allt sinn þátt í að jörðin var tekin undir þjónustu við þéttbýlisbúa sem kusu í ríkara mæli að dvelja í sveitinni. Ferðaþjónustan sem hófst form- lega um 1960 óx hratt. Fyrst var KRISTLEIFUR ÞORSTEINSSON ✝ Kristleifur Þor-steinsson, bóndi og hreppstjóri, fæddist á Húsafelli 11. ágúst 1923. Hann andaðist á Grensás- deild Landspítala 7. febrúar síðastliðinn og var útför hans gerð frá Reykholts- kirkju 15. febrúar. boðin gisting og veit- ingasala í íbúðarhús- inu, byggður var sölu- skúr og bensínsala, reist smáhýsi til gist- ingar og upp úr því stærri og fleiri orlofs- hús samhliða verslun, sundlaug og annarri þjónustu. Talsverðar tekjur til uppbyggingar fékk Kristleifur af ýmsum mannamótum sem haldin voru í Húsa- fellsskógi og eru landsþekkt. Minnis- stæð er saga frá því um 1970 þegar mjólkurbíllinn, sem oftar, kemur við á fjóshlaðinu á bæ einum á leið sinni úr Húsafelli. Bílstjórinn var hálfskrítinn á svip en vildi íbygginn sýna bónda varning sem Kristleifur hafði beðið hann fyrir þá um morg- uninn. Bílstjóranum var greinilega svolítið brugðið, en jafnframt stolt- ur yfir því trausti sem Kristleifur hafði sýnt honum með að biðja hann fyrir sendingu af peningum í Spari- sjóðinn í Borgarnesi. Þetta voru engir smáaurar því í bílnum voru allmargir sekkir úttroðnir af pen- ingaseðlum. Líklega hærri upphæð en virði bílsins og alls sem í honum var. Þar var saman kominn afrakst- ur af einu sumarmótanna. Með þessu fékk Kristleifur peninga til að byggja hraðar upp þjónustuna. Mótshaldið sem slíkt var honum þó ekki alltaf að skapi. Kristleifur var sannur bindindismaður og gerði sitt til að mótin og samkomur í skóg- inum yrðu skemmtanir án víns, þótt ekki tækist með öllu að koma í veg fyrir það. Að því kom að rafmagn var ekki lengur nægjanlegt til að þjóna vax- andi byggð og því byggði Krist- leifur virkjun í lok áttunda áratug- arins, framleiddi rafmagn og leiddi auk þess heitt vatn um langan veg til upphitunar mannvirkja. Mynd- arlegur golfvöllur reis og húsum fjölgaði þannig að nú eru þau hátt á annað hundrað í skóginum. Allt miðaði þetta að því að bæta þjón- ustuna og auka hagkvæmni í rekstrinum. Nú eru gestir Húsa- fells á sumrin taldir í þúsundum og segja má að færri komist að en vilja. Fyrirtækið er stórt á mæli- kvarða dreifbýlisins, hefur vaxið stöðugt undir stjórn Kristleifs og Sigrúnar konu hans og nú síðast eftir að Bergþór sonur þeirra og Hrefna kona hans tóku við eignar- og staðarhaldi. Kristleifur var á sjötugsaldri þegar börn hans tóku smám saman að leggja rekstrinum lið. Þó var orkan sem í honum bjó enn með ólíkindum. Hann gat þá í auknum mæli framkvæmt ýmislegt sem hann hafði lengi aðeins getað látið sig dreyma um. Hann studdi öt- ullega við uppbyggingu þjónustu við rætur Langjökuls og reyndi m.a. ein tvö sumur að byggja risa- stóran íshelli í jökuljaðrinum og nefndi hann Brúðarsvítuna. Hann fékk takmarkaðan stuðning til verksins en við hverja mótspyrnu, hrun eða óvænta bráðnun íssins virtist sem eldmóður hans yxi, and- stætt við flesta sem hefðu gefist upp og hætt. Á sama hátt var atorka hans við endurbyggingu gamla bæjarins á Húsafelli eftir- minnileg. Húsið virtist flestum að hruni komið enda komið til ára sinna og hafði ekki fengið viðhald um langt skeið. En eftir því sem Kristleifur heyrði fleiri efasemdar- raddir, því staðfastari var hann að ljúka verkinu, sem hann og gerði. Hér hefur einungis verið minnst á fátt eitt sem frumkvöðullinn Kristleifur Þorsteinsson fékk áork- að. Vel hefði mátt nefna hinar ýms- ustu hugmyndir sem margar hverj- ar þóttu framúrstefnulegar þegar þær voru fram settar en munu þykja sjálfsagðari síðar. Þar á með- al nýtingu perlusteins úr Presta- hnjúki, þriggja jökla þjóðgarð þar sem mengandi ökutæki yrðu bönn- uð, vatnsútflutning og heilsustofnun fyrir forríka útlendinga svo eitthvað sé nefnt. Frjó og skapandi persóna virtist endalaust sjá tækifæri þar sem í bland fór hagkvæmni, útsjón- arsemi og samstarf við náttúruna. Að leiðarlokum þakkar stjórn Ferðamálasamtaka Vesturlands framlag Kristleifs til félagsmála greinarinnar í landshlutanum. Hann var einn af stofnendum FV og trúr félaginu til hinstu stundar. Á 20 ára afmæli samtakanna á síð- asta ári þótti sjálfsagt að heiðra Kristleif og konu hans Sigrúnu Bergþórsdóttur fyrir framlag þeirra hjóna til uppbyggingar ferðaþjónustu á Vesturlandi. Vöxt- ur og viðgangur landsins og atvinna til sveita byggist á því að frum- herjar í hópi íbúa þess fái sín tæki- færi, hvatningu og stuðning til að hrinda góðum hugmyndum í fram- kvæmd. Að öðrum kosti yrði engin framþróun heldur í besta falli stöðnum. Fyrir hönd stjórnar Ferðamála- samtaka Vesturlands votta ég Sig- rúnu á Húsafelli, börnum þeirra hjóna, tengdabörnum og öðrum af- komendum mína dýpstu samúð. Magnús Magnússon. Því miður urðu kynni okkar Kristleifs ekki löng í árum talið en svo traust og heil í einu og öllu. Við Kristleifur vissum hvor af öðrum og lengi hafði ég hugsað mér að líta inn til hans á Húsafelli á ferðum mínum um Borgarfjörðinn. En alltaf fór ég fyrir ofan eða neð- an garð á þeirri leið og taldi að sá tími kæmi að fundum okkar bæri saman. Kynni okkar urðu á Heilsustofn- un NLFÍ í Hveragerði fyrir ári þegar af nokkurri tilviljun við urð- um þar herbergisfélagar. Frá fyrstu stundu urðu þarna miklir fagnaðarfundir og Kristleifur fékk þá framlengda dvöl sína í Hvera- gerði til að við gætum átt þar sam- veru og spjall sem lengst. Hann hafði sérstakar skoðanir á mannlífinu og það var fátt eða ekk- ert sem honum virtist óviðkomandi. Kristleifur vildi leggja sitt af mörk- um til að hefja land og þjóð á allan hátt til vegs og virðingar. Það var svo margt sem hann hafði úthugsað á lífsleiðinni og af yfirvegun komist að niðurstöðu. Hann taldi allar eit- urnautnir skerða getu mannsins til átaka og virtist jafnvel ákafari bindindismaður en ég. Síðastliðið sumar heimsótti ég við þriðja mann þau Kristleif og Sig- rúnu konu hans að Húsafelli. Sú heimsókn var mér afar dýr- mæt og kær enda viðtökur þeirra hjóna einstakar og ógleymanlegar. Kristleifur ók með okkur um sveit- ina og sýndi öll þau stórvirki sem áunnist höfðu á þessari góðu og rót- grónu jörð Húsafelli. Ævintýrin blöstu við okkur alls staðar. Þarna hafði iðjumaður lagt sitt af mörk- um. Kristleifur var gæfumaður í einkalífi og hann þakkaði forsjón- inni fyrir þá handleiðslu sem honum hafði hlotnast í lífinu. Ég kem til með að sakna Kristleifs á Húsafelli. Ég auðgaðist af kynnum mínum við hann og heimili hans. Samveran var alltof stutt. Guð blessi einstakan drengskapar- og velgjörðarmann. Sigrúnu og fjölskyldu hennar sendi ég einlæga samúðarkveðju. Árni Helgason, Stykkishólmi. Ég kom til hans tveimur dögum fyrir andlátið og var Sigrún hjá honum. Enda þótt mikið væri af honum dregið var fallega brosið ennþá fyrir hendi svo og þessi ein- staki glampi í augum hans. Spjöll- uðum við saman dágóða stund, og báðir vissu að þetta væri í síðasta sinn. Við kynntumst um hvítasunnu 1981, ég þá gestur á Húsafelli. Ég átti erindi í þjónustumiðstöð stað- arins, og var hann þar einn við störf. Tókum við tal saman og fór vel á með okkur. Spurði ég hann um örnefni svo og um hina ýmsu rekstrarþætti starfseminnar hjá fyrsta ferðabóndanum á Íslandi. Á móti spurði hann um mig og mína hagi. Er við svo kvöddumst vildi hann að ég kæmi heim á bæ næsta dag og þáði ég það. Þessi samtöl okkar leiddu til þess, að ég tók á leigu hjá þeim hjónum þjónustu- miðstöðina á Húsafelli til eins árs, en árin urðu sjö. Eðli málsins samkvæmt var sam- starf okkar mikið og náið öll þessi ár, og þrátt fyrir hinn gífurlega mannfjölda, sem heimsótti okkur árlega, og ótrúlegustu mál sem á þurfti að taka bar aldrei skugga á samstarf okkar. Hjá Kristleifi voru vandamál ekki til, einungis verkefni, sem þurfti að leysa. Það eru forréttindi að hafa kynnst og fengið að starfa með Kristleifi á Húsafelli. Dagsverki hans hér er lokið. Hann vann það af heilum hug, einurð og af sannri gleði. Við Erla vottum Sigrúnu og fjöl- skyldu samúð okkar. Sveinn Gústavsson. Kristleifur Þorsteinsson er fram- liðinn til þeirra heimkynna er fæst okkar þekkja. Ungur kynntist Kristleifur kenn- ingum dr. Helga Pjeturss um sam- band lífs í alheimi, eins og þær birt- ust í Nýal, og hreifst af þeim. Kristleifur var maður þeirrar gerðar að hann lét ekki segja sér fyrir verkum varðandi skoðanir í þessum efnum fremur en öðrum, enda teljum við að hann hafi búið yfir miklu innsæi og því skynjað hvað var sannast og réttast. Hann taldi einsýnt að líf væri grundvall- arafl í alheimi og að samband væri milli hnattanna. Félag Nýalssinna var stofnað um miðja síðustu öld og var Kristleifur hvatamaður að framgangi þess, enda var hann einn þeirra sem stóðu að stofnun félagsins og gerð- ist snemma ævifélagi og fylgdist því með störfum þess alla tíð. Í sveitum landsins var drjúgur hópur fólks er var sama sinnis varð- andi þá viðleitni vísindamannsins Helga Pjeturss að varpa ljósi þekk- ingar á drauma og ýmis fyrirbæri sem hann taldi vera þess eðlis að samband væri milli lífveranna. Kristleifur var í þeim hópi fólks og vildi leggja þessu málefni meira lið á seinni árum, þegar um hægðist frá erli búskapar og ferðaþjónustu. Hann hafði þá á orði að það væri rétt að „sprikla eitthvað“ á meðan maður héldi lífi. Kristleifur og kona hans Sigrún voru höfðingjar heim að sækja og nutu Nýalssinnar gestrisni þeirra, hlýju, glettni og hjálpsemi er þeir komu að Húsafelli. Ferðalangar komnir í vandræði voru nánast þvingaðir til að þiggja hjálp og alls konar þjónustu og fengu að fljóta með Kristleifi á hraðferð upp á jök- ul til að líta á framkvæmdir við gerð jökulhella. Félag Nýalssinna þakkar Krist- leifi langt og gott samstarf og sakna nú félagarnir vinar í stað. Páll R. Steinarsson, Haukur Sigtryggsson. Þegar ég var yngri forðaðist ég að þurfa að útskýra hvernig ég tengdist Krilla á Húsafelli. Og það var ekki af því að ég vildi ekki tengjast honum. Nei, það var vegna þess að „Hann er maðurinn hennar systur hennar ömmu minnar“ fannst mér hljóma alltof fjarlægt til að það gæti lýst því hvað Krilli, Rúna og Húsafell eru stór hluti af mér. Ég þekki nefnilega fullt af fólki sem gerir sér enga grein fyrir því hvað ömmusystkini manns og þeirra makar geta verið mikilvægur hluti af lífi manns, og fyrir því fólki var ómögulegt að stæra sig af tengslum við Krilla með þessari lýs- ingu. Þetta ríkidæmi mitt, sem er lík- lega meira en flestir eiga, hefur gefið mikið af sér í gegnum árin, en nú hefur stór hluti verið af því tek- inn. Ég er enn jafn montin af að hafa tengst Krilla á Húsafelli og trúi því að ég sé betri manneskja fyrir vik- ið. Ég er viss um að nú verður tekið til hendinni í himnaríki, og er ég illa svikin ef ég kemst ekki í heitan pott á himnum. Þangað til bið ég Guð að geyma Krilla, og styðja Rúnu frænku mína og öll frændsystkinin í sorginni. Guðrún Harpa. Mig langar að minnast Kristleifs frænda míns með nokkrum orðum, nú þegar leiðir skilur. Við vorum að sínu leyti sveitungar, báðir fæddir í Hálsasveit, hann á Húsafelli en ég á Rauðsgili. Steinunn amma mín var föðursystir hans. Fyrstu minningar um Kristleif eru skemmtilegar og bjartar. Þeir feðgar og Guðmundur á Húsafelli komu að hjálpa við hey- skap á Rauðsgili, með vörubíl, sem þá var á Húsafelli. Ekki þótti mér minna ævintýralegt þegar hann kom öðru sinni á nýstárlegu öku- tæki, sem fáir státuðu af á þeim tíma, MB Unimog, sem var þá smá- vaxinn og kvikur og hentaði vel til heiðarferða. Húsfellingar stunduðu veiðiskap á Arnarvatnsheiði, svo sem siður var frá alda öðli. Það sýndi hve lifandi og djarfur Krist- leifur var að gangast í kaup á svo óvenjulegu farartæki. Oft var gest- kvæmt á bænum þegar Kristleifur var að alast upp. Húsafell var fyrr- um í þjóðleið milli Suður- og Norð- urlands, þegar flestir fóru um Stórasand. Kaldidalur var einnig fjölfarnari leið áður fyrr. Þar fóru bílar um, áður en fært var um Hval- fjörð. Samneyti við ferðamenn og ekki síður við listamenn, s.s. Ás- grím Jónsson o.fl. sem dvöldust þar mörg sumur, hefur líka sett svip á uppvöxt Kristleifs. Þar var því rík hefð fyrir því að taka á móti gest- um. Húsfellingar hafa lengi tamið sér iðkun á sjálfstæðri hugsun, sem trúlega er runnin frá þróun sam- ræðulistar á heimilinu í aldanna rás. Gilti það ekki síst um Kristleif, sem oft hefur lagt til ný sjónarhorn í umræðuna á hverjum tíma. Þegar Þorsteinn faðir Kristleifs lét af bústörfum 1958 skiptist Húsa- fell í þrjá hluta. Magnús bróðir hans bjó á I, Guðmundur Pálsson mágur hans á II og Kristleifur á III. Magnús flutti fljótlega að Vatnsnesi í Grímsnesi og seldi hin- um sinn hluta. Kristleifur undi sér lítt við hefðbundin sveitastörf. Hann bjó þó um tíu ára skeið með fjárbú, eða til 1968. Um það leyti voru árlega haldnar glæsilegustu sumarhátíðir sem um getur á Ís- landi. Þar átti metnaður Kristleifs fyrir hönd staðarins áreiðanlega ríkan þátt í að svo vel tókst til. Þarna var ný búgrein að verða til. Það gerðist þó ekki af sjálfu sér. Kristleifur ásamt fleiri góðum mönnum, s.s. Jóhannesi bónda á Syðra-Langholti, gekk í að móta hugmyndir að því, hvernig búa mætti að ferðamönnum samhliða al- mennum búrekstri. Þessar hug- myndir þróuðust í að verða að Ferðaþjónustu bænda. Óhætt er að kalla það með helstu afrekum hans á lífsleiðinni. Þegar ég tók til við að sinna um Ferðamálasjóð, síðar á lífsleiðinni, lágu leiðir okkar saman á sviði ferðaþjónustunnar. Jukust þá kynni okkar til nokkurra muna. Oft spjölluðum við um hinar ýmsu hugmyndir sem hann var að skoða hverju sinni. Sumar komust í fram- kvæmd, aðrar fóru í bið, of stórar fyrir samtímann. Þegar þau Krist- leifur og Sigrún kona hans höfðu komið upp börnum sínum fimm gáfu þau sér tíma til ferðalaga um heiminn. Það var bæði til hvíldar frá amstri starfanna heima fyrir, en ekki síður til að auðga hugann og leita nýrra hugmynda. Við heim- komuna hverju sinni safnaðist fjöl- skyldan saman og hlýddi á ferða- sögur. Hann var hlýr í fasi við unga sem aldna, enda byggðust vinsældir staðarins ekki síst á viðmóti þeirra hjóna. Ég votta Sigrúnu, börnum þeirra og fjölskyldum innilega samúð mína. Snorri Tómasson.  Fleiri minningargreinar um Kristleif Þorsteinsson bíða birt- ingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.