Morgunblaðið - 18.09.2003, Side 45
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 18. SEPTEMBER 2003 45
andlitum samferðafólks. Smá stríðin
en allt saman í græskulausu gamni.
Hún átti svo gott með að sjá spaugi-
legu hliðarnar á tilverunni og þegar
þannig lá á henni þá brosti allt andlit
hennar. Hún var ljóð- og tónelsk og
hafði ánægju af því þegar Þorsteinn
frændi hennar fór með ljóð eftir sig
eða lék á flygilinn góða. Það vakti til-
hlökkun hennar í sumar að draum-
urinn um útgáfu á ljóðum föður henn-
ar var að rætast en skömmu fyrir
andlátið fékk hún að handleika fyrstu
eintök ljóðabókarinnar.
Er Dúna fyllti áttunda áratuginn
var ort til hennar:
Áttatíu ára slóð
áttu farna núna
sama æsku gleðiglóð
geislar af þér Dúna.
Þú hefur margra þrautir leyst
með þolinmæði og gleði
enda jafnan á þig treyst
ef eitthvað mikið skeði.
Liðnu árin þakka ég þér
þau voru okkur gróði.
Allt það besta átt frá mér,
í orði, og kveðnu ljóði.
(Guðrún Valdimarsdóttir.)
Með þessum fátæklegu orðum
kveð ég kæra frænku og þakka henni
allt sem hún veitti mér og mínum.
Börnum, barnabörnum og ættingjum
öllum sendi ég samúðarkveðjur.
Trausti Þorsteinsson.
Það er ekki langt síðan ég þeysti á
vespunni minn niður Nýbýlaveginn
og varð hugsað til Dúnu og torfunnar.
Þegar ég var hvað tíðastur gestur á
Birkigrundinni mátti sjá glitta í húsið
frá Nýbýlaveginum en í dag hafa trén
vaxið svo mikið að það er ekki lengur
hægt og það sést í raun best á trján-
um hve tíminn hefur liðið. Það var
fyrir fjórtán árum að ég kom fyrst á
Birkigrundina og þá var ég skít-
hrædd við Dúnu og vildi helst sleppa
út úr húsi án þess að hitta hana. En
Dúna var nú ekki á því, hún vildi fá að
kynnast þessari stelpu sem barna-
barn hennar var að leggja lag sitt við
og var iðulega vöknuð á undan okkur
og ef hún var ekki komin fram í eld-
hús, þar sem hún var búin að taka til
einhvern morgunmat, þá greip hún
mann alltaf í forstofunni þar sem
maður var að laumast út og lét mann
roðna og blána. Eftir nokkrar heim-
sóknir á Birkigrundina dvínaði
hræðsla mín við Dúnu enda kom í ljós
að hún var algjörlega ástæðulaus því
ljúfari konu er erfitt að finna. Ef það
var eitthvað sem Dúna gat gert fyrir
mann þá var hún boðin og búin til
þess og gerði oft mun meira en hún
var beðin um. Þannig man ég til
dæmis eftir því að þegar við Loftur
vorum að byrja að skjóta okkur sam-
an þá gleymdi ég einhverjum flíkum
á Birkigrundinni – örugglega viljandi
til þess að hafa afsökun fyrir því að
koma aftur í heimsókn – en þegar ég
kom að sækja fötin var Dúna bæði
búin að þvo þau og strauja. Þannig
var Dúna, hugsaði fyrir öllu og vildi
allt fyrir okkur gera og fannst okkur
unglingunum oft nóg um afskipta-
semina. Ekki lét hún okkur heldur
komast upp með það að sofa út á
morgnana, hún var með stunda-
skrána á hreinu og vissi hvenær það
var mál að vakna og linnti ekki látum
fyrr en við dröttuðumst í skólann.
Þetta kann maður allt vel að meta í
dag þótt við höfum líklega þá oft verið
með ólund við hana.
Það er orðið langt síðan ég hef
drukkið kaffi hjá Dúnu eða kíkt í fata-
skáp hennar, sem hún lánaði mér og
ungu stelpunum í ættinni oft eitthvað
úr. Mér eru þó orð hennar minnis-
stæð þegar við Loftur slitum sam-
vistum en þá kom ég til Dúnu til að
kveðja hana. Dúna var nú ekki á því
að kveðja mig og sagði ég gæti sko
vel haft áfram samband við hana þótt
leiðir okkar Lofts lægju ekki lengur
saman, – en auðvitað hlýddi ég því
ekki og það er langt síðan ég hef kom-
ið á Birkigrundina, þar sem mér var
alltaf tekið eins og einni af fjölskyld-
unni.
Um leið og ég þakka þessari ljúfu
kjarnakonu góð kynni sendi ég fjöl-
skyldunni mínar innilegustu samúð-
arkveðjur.
Snæfríður Ingadóttir.
Ég strauk Dúnu frænku um fallega
silfurgráa hárið hennar um daginn.
Það streymdu fram minningar um
allar góðu stundirnar sem við höfum
átt saman allt frá barnæskuleikjum í
stóra garðinum hennar til búsetu á
háaloftinu. Eitt sinn sagði Dúna mér
söguna af ástinni sinni sem hún
geymdi alltaf í hjarta sér. Það var
sorglegt en um leið fallegt að heyra
hana tala um hann Loft sinn sem hún
missti ung. Ég skildi sögu hennar og
fjölskyldunnar betur og dáðist jafn-
framt að henni að koma þremur son-
um sínum vel til manns. Myndin sem
ég mun alltaf geyma af Dúnu verður
af stóru brosi og stoltri konu sem
skilaði hjartahlýjunni til afkomenda
og ættingja alla sína ævi.
Einar Á.E. Sæmundsen.
Í yndislegum gróðurlundi í Foss-
vogsdalnum bjó Guðrún Einarsdóttir
með fjölskyldu sinni. Sem ungur
drengur kynntist ég þessari bros-
mildu, fallegu og góðu konu, og á
margar minningar um gleðistundir á
heimili hennar. Með hlýjunni, sem frá
henni streymdi, hlúði hún að öllu sem
lifði í nálægð hennar og þrátt fyrir
ástvinamissi og mótlæti hafði kjarkur
hennar og gleði ávallt betur í lífsbar-
áttunni.
Á heimili hennar loguðu eldar
landverndar- og skógræktarhug-
sjóna. Sambýli manna og náttúru var
henni og fólkinu hennar einkar hug-
leikið. Mikilvægi þess að tengja borg-
arlíf og útiveru í náttúrunni var eitt af
mörgum baráttumálum hennar, sem
markaði spor í lífi samferðamanna.
Árið 1973 stóð til að malbika yfir
Fossvogsdalinn. Frá heimili Guðrún-
ar var þá skipulögð herferð til að
bjarga dalnum græna. Nú reyndi á
hvort fræin sem sáð hafði verið hefðu
fest rætur í huga manna. Dalnum var
bjargað og þess vegna eigum við nú
aðgengi úr öllum áttum í Heiðmörk-
ina, lunga Reykjavíkursvæðisins.
Líf Guðrúnar var samofið sögu
skógræktar á Íslandi. Faðir hennar
og bróðir voru frömuðir í skógrækt
og elsti sonur hennar núverandi
skógræktarstjóri. Guðrún upplifði
bestu ár skógræktar á Íslandi.
Eftir mikla gróðursæld kveður
Guðrún Einarsdóttir og er til moldar
borin þegar trén fella lauf.
Ég og fjölskylda mín vottum Jóni,
Einari, Yngva og fjölskyldum þeirra
okkar dýpstu samúð við andlát mætr-
ar konu.
Þórhannes Axelsson.
Með örfáum fátæk-
legum orðum kveð ég
hinstu kveðju vinkonu
mína Dagbjörtu Sigur-
jónsdóttur eða Dæju eins og hún var
alltaf kölluð.
Það er aðeins rúmt ár síðan ég sá
hana fyrst í matarboði hjá Guðmundi
syni hennar. En árin og tíminn segja
ekki allt hvað góð kynni varðar.
Dæja var þeirrar einstöku gerðar
að koma ávallt til dyranna eins og
hún var klædd og taka öðrum eins og
þeir voru af djúpstæðu fordómaleysi.
Í samskiptum við hana þurfti enginn
að setja sig í stellingar, aldur, ólíkar
aðstæður og lífsviðhorf máðust út.
Hún var manneskja sem mætti fólki
á miðri leið.
Þegar ég hugsa um Dæju þá dett-
ur mér alltaf í hug setning sem dóttir
mín, þá fimm ára, sagði eitt sinn er
hún kom heim á harðahlaupum er við
vorum nýflutt í nýtt hverfi og þekkt-
um þar engan: „Mamma, mamma
kallaði sú stutta: “Ég hef eignast vin-
konu og hún er hundgömul.“ Vinátta
þeirra varði meðan gamla konan lifði
og varð dóttir mín ríkari af þeim
kynnum. Á sama hátt er ég til muna
ríkari af kynnum mínum við Dæju
þótt þau yrðu ekki löng. Sannar
manneskjur og mannvinir varðveita í
sér barnið allt til enda.
Að hinstu leiðarlokum þakka ég af
einlægni góð og mannbætandi kynni
af góðri konu sem kenndi mér á
stuttum tíma meira en margir aðrir
geta á heilli lífsleið.
Elsku Guðmundur og aðrir ætt-
ingjar og vinir. Ég votta ykkur af al-
hug alla mína dýpstu samúð.
DAGBJÖRT
SIGURJÓNSDÓTTIR
✝ Dagbjört Sigur-jónsdóttir fædd-
ist í Hafnarfirði 13.
september 1920. Hún
andaðist á Landspít-
alanum í Fossvogi 9.
september síðastlið-
inn og var útför
hennar gerð frá
Hafnarfjarðarkirkju
17. september.
Með virðingu fyrir
merkri manneskju og
mætri móður.
Elísabet Ragnarsdóttir.
Við jafnaðarmenn í
Hafnarfirði kveðjum
með þakklæti og virð-
ingu, Dagbjörtu Sigur-
jónsdóttur, sem lést hinn
9. september síðastlið-
inn, tæplega 83 ára göm-
ul. Með henni er genginn
góður og gegn Hafnfirð-
ingur, enda fædd í bæn-
um sínum og bjó þar alla tíð.
Dagbjört, eða Dæja, eins og hún
var jafnan nefnd, var glæsileg kona,
glaðlynd, félagslynd og skemmtileg.
Var hrókur alls fagnaðar í góðum
hópi. Því kynntumst við vel og nut-
um til fullnustu flokksystkini hennar
í Alþýðuflokknum og síðar Samfylk-
ingunni, en hún var alla tíð afar virk í
öllu flokksstarfi, ekki síst starfi
Kvenfélags Alþýðuflokksins.
Dæja var gift Guðlaugi Þórarins-
syni, sem lést árið 1975, og var einn-
ig ötull liðsmaður jafnaðarstefnunn-
ar á sínum tíma. Þau settu svip á
bæinn og eiga fjölmargir Hafnfirð-
ingar góðar minningar af þeim hjón-
um. Stórfjölskylda Dæju var og er
fjölmenn og í Firðinum og lét vel til
sín taka í bæjarlífinu. Synir þeirra
hjóna og uppeldisdætur, barnabörn
og afkomendur aðrir sjá á bak glæsi-
legri og góðviljaðri konu sem vildi
allt fyrir alla gera. Fyrir hönd okkar
jafnaðarmanna sendi ég þeim öllum
okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Dæja var einlægur jafnaðarmaður
og um leið verkalýðssinni alla tíð.
Hún var ævinlega boðin og búin að
rétta hjálparhönd, ef þörf var á. Í
flokksstarfi Alþýðuflokksins lét hún
ekki sitt eftir liggja og var afskap-
lega góður og virkur félagi. Fyrir
það þökkum við flokksfélagar henn-
ar af heilum hug, nú á kveðjustundu.
Guð blessi minningu Dagbjartar
Sigurjónsdóttur.
Guðmundur Árni Stefánsson.
Fitjum sem ung stúlka. Glaðværð
og hamingja yfir því að fá að upp-
lifa sveitina með frændfólkinu sínu
eru mér ógleymanlegar stundir. Að
horfa síðan úr fjarlægð á litla
frænda sinn vaxa úr grasi og verða
tilvonandi bóndi með fjölskyldu í
sveitinni og halda áfram fyrri störf-
um forfeðra okkar var yndisleg
sjón. Sveitin okkar sem á allt undir
því að ungt fólk taki við og haldi
uppi því starfi sem þessi þjóð hefur
meðal annars byggt afkomu sína á.
Á vonarneista hefur verið slökkt í
bili og erfitt að lýsa hvílík sorg ríkir
í hjörtum okkar allra sem til þekkj-
um.
Ég og fjölskylda mín viljum votta
Brynju, foreldrum, systkinum og
öllum ættingjum dýpstu samúð
okkar.
Drífa frænka.
Elsku frændi, það er svo sárt að
vita til þess að þú skulir vera farinn
frá okkur, kæri systursonur, með
svona stuttum fyrirvara og í blóma
lífsins. Hver gat ímyndað sér það
þegar gangnamenn lögðu af stað á
svona fallegum haustmorgni að
maður ætti eftir að fá þessi hræði-
legu tíðindi. Ég hélt í vonina um að
eitthvað gott myndi fréttast þegar
þyrlan væri komin á staðinn en
raunin varð því miður önnur. Og
eftir stöndum við og spyrjum hvert
annað: Hvað kom eiginlega fyrir?
Hvað olli þessu slysi? Það er svo
sárt að vita það ekki. Það er höggv-
ið stórt skarð í lítið samfélag.
Já, bláköld staðreynd blasir við,
augasteinninn hennar mömmu
þinnar er farinn. Ég hugsaði strax
til hennar, þið sem leituðuð alltaf
hvort til annars þegar eitthvað
bjátaði á, þú varst alltaf kominn um
leið til hennar þegar hana vantaði
hjálp þína. Það tók á að segja afa
nafna þínum þessi sorglegu tíðindi,
því hann hélt mikið upp á nafna
sinn, þið voruð líkir á margan hátt,
það var oft gert grín að því að þú
hefðir fengið það með nafninu, þið
voru nægjusamir, fámálir, hlédræg-
ir og ekki má nú gleyma framsókn-
arblóðinu.
Það er svo stutt síðan þú stofn-
aðir þitt yndislega heimili og þú
sem varst svo duglegur að lagfæra
og fegra húsið ykkar, ekki gat mað-
ur ímyndað sér annað en þú fengir
að njóta þess að vera lengur með
þinni heittelskuðu og litla auga-
steininum sem í vændum er. Þú
sem varst orðinn svo spenntur að
fara með henni í sónar. Ég veit það
bara að þú hefðir orðið góður faðir,
því barnbetri mann var varla hægt
að finna. Þess vegna spyr maður:
Af hverju þarf að taka svona mann
frá okkur sem er í blóma lífsins og
hefur ekki gert nokkrum manni
mein og á alla framtíðina fyrir sér.
Elsku Skúli, mikið er erfitt að sjá
á eftir þér, með þitt fallega feimna
bros. Ég veit að það verða erfiðir
haustdagar hjá foreldrum þínum af
því að þú varst þeim stoð og stytta í
búskapnum enda varst þú búfræð-
ingur að mennt. Það var þitt líf og
yndi að stússast í sveitinni. Þú
tókst þátt í sauðburðinum, fjárrún-
ingi, skítmokstri, heyskapnum,
fórst í leitir og eltist við fé á fjór-
hjólinu þínu. Þetta gerðir þú allt á
milli þess sem þú stundaðir þína
vinnu. Þetta sýnir best hvað þú
varst duglegur og orkumikill strák-
ur, þú varst alltaf að.
Eftir stend ég með yndislegar
minningar um þig og þeim gleymi
ég aldrei.
Á svona sorgarstundu getur ver-
ið gott að hugsa til sólargeislans
sem í vændum er.
Elsku Brynja, Jónína, Níels, Eva,
Guðrún, Helga, Róbert og aðrir
ættingjar og vinir, megi guð vera
með ykkur öllum og veita ykkur
styrk og huggun í sorginni.
Guð geymi þig.
Þín frænka,
Elín Anna.
Síðustu dagar hafa verið erfið-
ustu dagarnir í mínu lífi og vonandi
þarf ég aldrei að ganga í gegnum
nokkuð þessu líkt aftur. Ég er enn
ekki farin að skilja þetta allt saman
og hversu ósanngjarnt þetta er, nú
ertu farinn og kemur aldrei aftur.
Ég er búin að þekkja þig alveg síð-
an ég man eftir mér og ég er búin
að vera að rifja upp lífið og ótrúleg-
ustu atriði koma upp í huga mér.
Ég man þegar við vorum í skóla,
við vorum í sama bekk og þó þú
hafir verið frekar feiminn að eðl-
isfari þá var alltaf fjör í kringum
þig. Þú varst alltaf að gera einhver
prakkarastrik. Ég man þegar þú og
Ísólfur voruð bestu vinir og voruð
alltaf saman. Þegar Ísólfur var
skotinn í vinkonu minni þá varst þú
skotinn í mér og eins og strákar
gera þegar þeir eru skotnir í ein-
hverri stelpu þegar þeir eru 11 eða
12 ára þá voruð þið alltaf að stríða
okkur. Ég man líka þegar við syst-
ur vorum hjá frænkum okkar í Ás-
landi, þá voru þær alltaf að stríða
mér á því að við værum skotin
hvort í öðru. Þær hringdu í þig fyr-
ir mig og spurðu þig hvort þú vildir
byrja með mér, við vorum saman í
nokkra daga. Það er svo fyndið að
hugsa um þetta.
Þegar við vorum búin með
grunnskólann fórum við sitt í hvora
áttina að lifa lífinu. Hvern hefði
grunað að meira en sex árum síðar
hefði systir mín komið til mín og
sagt mér að hún væri skotin í þér
þar sem við vorum öll að vinna
saman í sláturhúsinu. Hún þorði nú
samt ekkert að gera og var búin að
fylgjast með þér lengi áður en eitt-
hvað gerðist. Og þar sem þið voruð
bæði svo feimin þá varð að leiða
ykkur saman og þegar ísinn var
brotinn þá voruð þið óaðskiljanleg.
Hverjum hefði dottið í hug að þið
ættuð eftir að vera saman og
Brynja hefði ekki getað valið sér
betri mann. Þú gerðir hana svo
hamingjusama. Þið fóruð að búa
saman og fenguð ykkur hund, hann
Pjakk og hana kisu litlu. Þegar þið
svo keyptuð ykkur hús saman og
gerðuð fínt þá áttuð þið alvöru
heimili saman. Þið voruð búin að
reyna lengi að eignast barn og þeg-
ar það svo tókst þá var mikil gleði
hér á bæ. Það var eins og þú
breyttist eins og skot, passaðir kon-
una þína eins og gull. Þú varðst líka
eitthvað svo opnari við alla og varst
farinn að tjá þig meira að segja, en
þú varst nú vanur að vera bara þú.
Þú varst löngu hættur að vera
feimin við mig og mömmu og þú
varst fyrir löngu orðinn einn af
okkur. Við erum svo heppnar að
hafa kynnst þér almennilega og
þekkt þig eins og þú varst. Þú varst
alltaf tilbúinn að hjálpa öllum í einu
og öllu og í einum af mínum síðustu
minningum um þig þá varstu ein-
mitt að hjálpa mér. Kisinn minn
hafði dáið og þú varst að hjálpa
mér að jarða hann. Ég fékk að hafa
hann í garðinum ykkar. Ég var svo
að fara daginn eftir inn á sjúkrahús
og hverjum hefði dottið í hug að
þetta væri í síðasta sinn sem ég sæi
þig. Ég gaf þér einn bjór og þú
sagðir gangi þér vel á morgun. Ég
þakkaði þér fyrir og sagði einfald-
lega, sjáumst. Hefði ég vitað að
þetta væri í síðasta sinn sem ég
ætti eftir að sjá þig þá hefði ég nú
faðmað þig að mér og sagt þér hvað
mér þykir vænt um þig. Ég segi
þér það þá bara núna að mér þykir
óendanlega vænt um þig og þú
varst besti mágur sem ég hefði get-
að átt. Ég mun aldrei gleyma þér
og ég veit að við eigum eftir að hitt-
ast aftur seinna. Ég veit líka að þú
ert hérna og fylgist með okkur og
passar konuna þína og væntanlegt
barn ykkar. Passaðu líka foreldra
þína og systkini þín og litla frænda
þinn. Guð geymi þig elsku Skúli
minn og styrki fjölskyldu þína í
þessari miklu sorg.
Katrín Þóra.
Mig langar að minnast Skúla
frænda.
Hvers vegna þurftir þú að fara
svona fljótt frá okkur? Við Skúli
unnum saman tvö sumur fyrir
nokkrum árum, það var góður tími.
Allt sem átti að gera var ekkert
vandamál hjá honum, bara skella
sér í það. Og síðan hefur Skúli
hjálpað mér vor og haust, síðast
fyrir þremur vikum.
Þá grunaði mig ekki að þetta
væri í síðasta sinn sem við ynnum
saman.
Hafðu þökk fyrir allt og allt og
blessuð sé minning þín, elsku Skúli.
Gunnar.
Fleiri minningargreinar
um Skúla Má Níelsson bíða birt-
ingar og munu birtast í blaðinu
næstu daga.
Sími 562 0200
Erfisdrykkjur