Morgunblaðið - 15.12.2004, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 15.12.2004, Blaðsíða 30
30 MIÐVIKUDAGUR 15. DESEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ UMRÆÐAN FYRIR nokkru bárust af því fregnir að borgarstjórn, með Árna Þór Sigurðsson í broddi fylkingar, ætlaði ekki að fara út í fram- kvæmdir á gatnamótum Miklu- brautar og Kringlumýrarbrautar á næstu árum eins og það var orðað. Þó eru þessi gatnamót þau lang- umferðarþyngstu og slysamestu á öllu landinu með yfir áttatíu þúsund bíla umferð á dag. Í a.m.k. fimmtán ár hefur ver- ið beðið eftir úrlausn. R-listinn hefur tvisvar tekið umrædd gatna- mót út úr skipulaginu og kvartar yfir því að ríkið sé ekki tilbúið með fjármagn. Borg- ararnir sitja uppi með umferðarhúta og slys. Það hefur því miður ekki komið fram hvert eitt af hinum stóru vandamálum gatnamóta Kringlu- mýrar- og Miklubrautar er. Það eru of fáar akreinar fyrir umferð úr Hafnarfirði, Álftanesi, Garðabæ og Kópavogi sem er á leið vestur í bæ. Það er meira að segja ljóst hvert yfir 80% þeirrar umferðar er að fara. Þetta er fólk á leið vestur á Landspítala – háskólasjúkrahús, Háskóla Íslands og Íslenska erfða- greiningu. Þessi umferð þarf að komast nánast öll upp á Bústaða- vegsbrúna þar sem einungis sex bílar komast yfir á Miklubraut- vestur á hverjum ljósum og allir á rauðu ljósi, með mikilli hættu á aft- anákeyrslu, enda um 60% allra um- ferðarslysa á þessum gatnamótum aftanákeyrslur. Hluti af þessari umferð reynir að komast framhjá umferðarteppunni með því að fara um Hamrahlíðina með tilheyrandi hættu fyrir íbúana og þau börn og ungmenni sem sækja Hamrahlíðar- og Hlíðaskóla. Hvar eru lausnirnar? Það eru til margar lausnir fyrir umferðarmestu gatnamót landsins en R-listinn hefur gert sér úrræða- og aðgerðaleysi að góðu. Steinunn Valdís Óskarsdóttir hefur látið hafa eftir sér að hún sé á móti „blikk- beljunni“ og samþykki ekki nein steypumannvirki á gatnamótum Kringlumýrar- og Miklubrautar. Hún segist vilja efla almennings- samgöngur. Gott og vel. Nú hefur Steinunn Valdís tækifærið enda orðin borgarstjóri. Það væri stórgóð lausn að taka Breiðholtsumferðina og hluta af Kópavogsumferðinni í stokk í gegn- um Fossvogsdalinn sem kæmi upp úr jörðinni nálægt flugvellinum. Þetta er í raun einföld framkvæmd sem myndi létta stór- lega álagi af Kringlu- mýrar- og Miklubraut. Margar lausnir eru svo til fyrir gatnamót Kringlumýrar- og Miklubrautar, t.d. þessi með stokk fyrir Miklubraut undir Kringlumýrarbraut og netta brú yfir Miklu- braut með hringtorgi á milli fyrir alla beygju- umferð. Þetta eru fyr- irferðarlítil gatnamót sem ættu ekki að trufla nálæga byggð meira en nú er. Röng forgangsröðun Þróun umferðarmannvirkja í land- inu hefur verið með endemum síð- ustu tíu árin. Við erum búin að bora yfir 30 kílómetra af göngum um landið en getum ekki sett Miklubraut eða Fossvogsbraut í nokkur hundruð metra stokk! Það er eitthvað bogið við þessa for- gangsröðun. Og svo stendur til að bora tíu kílómetra norður í Héðins- firði! Það er einhver mesta vitleysa sem sett hefur verið á vegaáætlun. Það hafa engir arðsemisútreikn- ingar verið lagðir fram sem rétt- lætt gætu slíka framkvæmd. Það er illa farið með Vegagerðina, sem hefur til margra ára reiknað út arð- semi helstu vega og umferðarmann- virkja, að setja Héðinsfjarðargöng á dagskrá. Það ætti að gera það að algeru forgangsatriði að ljúka við hringveginn áður en borun hefst í Héðinsfirði. Helstu rökin sem heyrst hafa eru að það yki ferða- mannastrauminn til Siglufjarðar! Með sömu rökum ættum við þá að setja hábrú út í Hrísey? Eða ætla Siglfirðingar virkilega að fara að keyra til Akureyrar í vinnu? Eða eru Eyfirðingar allt í einu orðnir svona sameiningarsinnaðir að best sé að taka næstu firði með af því þeim gengur illa að sameina Eyja- fjörð? Norðlendingar líðið ykkur nær. Hvernig væri nú að laga Norðurárdalinn nyrðri og afleggja fjórar einbreiðar brýr í leiðinni. Sá u.þ.b. tíu km kafli er einhver hættulegasti kafli hringvegarins. Þar er hlykkjóttur og mjór vegur, nánast ekkert uppbyggður, ekki með neinum vegöxlum sem þýðir að þegar bíll mætir flutningabíl þarf hann að víkja út fyrir veg. Nú þeg- ar strandsiglingar eru að leggjast af stóreykst umferð flutningabíla með aukinni hættu. Vantar yfirsýn Það vantar heildaryfirsýn og for- gangsröðun í vegamál. Ég hvet til bættra vega um land allt en við getum ekki látið stóru málin sitja á hakanum í Reykjavík. Þau mann- virki eru líka fyrir alla landsmenn. Því ber auðvitað að fagna að R-listinn skuli vilja setja Sunda- braut á dagskrá, þörf framkvæmd sem kemur öllum vel, en betur má ef duga skal. Sjálfur forseti borg- arstjórnar, Árni þór Sigurðsson, hefur látið hafa eftir sér að hann telji að við getum ekki farið bæði í Sundabraut og Miklubraut, sem hann reyndi svo að draga til baka. Vill ekki einhver taka að sér þetta mikilvæga frumkvæði? Hvað með samgönguráðherrann Sturlu Böðv- arsson? Hér þarf að bretta upp ermarnar áður en stóru borarnir við Kárahnúka sleppa lausir. Er ekki kominn tími til að ríki og sveitarfélög sýni að þau geti unnið að sameiginlegum markmiðum að minnsta kosti í mestu þjóðþrifamál- unum? Þjóðvegagerð í þéttbýli Magnús Halldórsson fjallar um samgöngumál ’Við erum búin að borayfir 30 kílómetra af göngum um landið en getum ekki sett Miklu- braut eða Fossvogs- braut í nokkur hundruð metra stokk!‘ Magnús Halldórsson Höfundur er iðnfræðingur. HINN 16. febrúar 1952 fór Ari Guðmundsson, þá vegaverkstjóri í Borgarnesi, fyrstur manna á bíl yfir sk. Heydal og norður yfir Snæfells- nessfjallgarð. Voru þeir 7 saman á tveimur bílum. Með þessu vildi Ari sanna, að hægt væri að aka þessa leið á vegleysum um hávetur, þegar aðrar leiðir s.s. Brattabrekka væru að- eins færar fuglinum fljúgandi. Hann vildi opna vetrarleið fyrir Dalamenn sem jafn- framt gæti gagnast samgöngum að vetri til frá Norðurlandi, Vest- fjörðum og norðan- verðu Snæfellsnesi. Á þessum tíma voru veittar um 20 þúsund krónur árlega af fjárlögum til væntanlegs Heydalsvegar. Snjó- mokstur í eitt skipti á Bröttubrekku gat á sama tíma kostað um 10 þús- und krónur. Ari spáði því, að með sama áframhaldi yrði vegur um Hey- dal ekki kominn fyrr en upp úr 1970. Það fór reyndar eftir. Kostnaður við vegagerð um Heydal fór margfaldur í snjómokstur á Bröttubrekku á þessum áratugum. Núverandi vegur um Heydal er aðeins á annað hundr- að metra yfir sjávarmáli, en nýi veg- urinn um Bröttubrekku liggur hæst í um 400 metra hæð. Árið áður, 1951, var fyrst hægt að fara á bílum um Skógarströnd og milli Snæfellsness og Dala með ruðn- ingi vegar fyrir Álftafjörð. Það hefur svo tekið tímann sinn að gera þokka- lega akfæran veg þessa leið um inn- anvert Snæfellsnes. Áform um brú yfir Álftafjörð hafa verið slegin út af borðinu og malbikun ekki á dagskrá. Skóg- arstrandarvegur og Heydalsvegur eru hinir gleymdu vegir og það er eins og það muni ekki koma framar vet- ur á Íslandi. Fyrir skömmu vakti ég máls á því, hvort byggðirnar við Breiða- fjörð og á Snæfellsnesi ættu ekki að sameinast í eitt sveitarfélag? Lyk- ilatriði væri bættar samgöngur milli Dala og Snæfellsness með betri vegum um Skógarströnd og Heydal. En fleira kemur til. Ef aðalleiðin til og frá Vestfjörðum færist aftur um Dal- ina með nýjum vegi milli Reykhóla- hrepps og Steingrímsfjarðar, kemur sér vel að hafa greiðan og öruggan vetrarveg um Skógarströnd og Hey- dal. Hið sama á við um Norður- landið. Holtavörðuheiðin verður allt- af á sínum stað og hugmyndin um brú yfir Hrútafjörð, beinir sjónum að Laxárdalsheiði sem greiðri leið að vetri til og síðan áfram suður í Borg- arfjörð. Hinn nýi og ágæti vegur um Vatnaleið getur á stundum verið varasamur vegna hálku. Þá kæmi sér vel greið leið um Heydal. Um Dali lágu krossgötur öldum saman og þaðan var fjölfarið út á Snæfells- nes. Brú yfir Hrútafjörð gæti haft umtalsverð áhrif á hringveginn um Ísland og Dalirnir og Snæfellsnes orðið að góðum valkostum á hringn- um. Einnig má minna á hringveg kringum allt Snæfellsnes með bundnu slitlagi, en brátt verður það aðeins innsti hlutinn sem vantar í hringinn. Svona má lengi spinna áfram. Frá því Heydalsvegur opnaðist um 1970, hefur margur ferðalang- urinn átt honum að þakka greiða leið, þegar fannir tepptu för um Bröttubrekku, Holtavörðuheiði og Kerlingarskarð. Þessi leið á sér hins vegar formælendur fáa, þegar um er að ræða ráðamenn á Alþingi og í hér- aði. Hefðbundinn búskapur er nán- ast horfinn á Skógarströnd og fá- menni í sveitum. Engan öflugan þrýstihóp er að finna þegar kemur að baráttunni um fjármagnið í veg- ina. Sagan frá því á öldinni sem leið virðist vera að endurtaka sig og leið- irnar um Skógarströnd og Heydal að gleymast. Þess vegna eru þessar lín- ur festar á blað. Gleymdu vegirnir á Vesturlandi Reynir Ingibjartsson skrifar um samgöngumál ’Engan öflugan þrýsti-hóp er að finna þegar kemur að baráttunni um fjármagnið í vegina.‘ Reynir Ingibjartsson Höfundur er fyrrverandi íbúi í Kolbeinsstaðahreppi. FRÁ því að ég fór að geta lesið bæk- ur hef ég verið mikill bókmenntaunn- andi og fylgst vel með því sem gerst hefur á bókamark- aðnum hverju sinni. En nú finnst mér auglýs- ingamennskan vera orðin alveg yfirgnæf- andi með áróður sinn og oftúlkun í kringum bókaútgáfuna. Tilteknir höfundar, sem tilheyra trúlega hinni útvöldu klíku, eru hafnir svo til skýjanna að það mætti einna helst halda að aldrei hefði verið skrifað neitt fram til þessa sem bragð væri að. Og alltaf er nýjasta bókin sögð sú besta sem frá höfund- inum hefur komið! Klifað er á því í stór- auglýsingum um ein- stakar bækur að þær hafi verið tilnefndar til Íslensku bókmennta- verðlaunanna og útgef- endur þeirra óska höf- undum þeirra opinberlega til ham- ingju með framann og sjálfum sér væntanlega um leið í hljóði til ham- ingju með ábatann. Allt þjónar þetta sölumennskunni en öllu síður bókmenntunum. Svo á að veita fyrrnefnd verðlaun einhvern tíma í janúar svo að nokkrar bækur í hverjum fagflokki njóti þess í jólasölunni að þær hafi verið tilnefndar til þeirra. Í óðagoti sölumennskunnar gefst jafnvel ekki tími til að kanna hvort um frambærileg verk sé að ræða svo verðlaunatilnefningin virðist jafn- vel geta lent af þeim sökum hjá óverð- ugum! Umsagnir „bókmenntafræðing- anna“ fela núorðið í sér æðimikið af gífuryrtum yfirlýsingum sem eiga lítið skylt við skynsamlega yfirvegun og hófstillingu í dómum, en sverja sig því meira í ætt við auglýsingaæði og sölu- mennsku. „Fantagóð bók“ sagði einn speking- urinn og umsögninni var slegið upp í fjölmiðlum hvað eftir annað. Reyndar er ekki ýkja langt síðan önnur bók fékk nákvæmlega sömu umsögn og sama uppslátt. En hvað er fantagóð bók, hvað felst í lýsingarorðinu „fanta- góður“? Í fyrsta lagi er fantur ekki góður og því mikil spurning hvað þetta lýsingarorð segir í raun um viðkom- andi bókmenntaverk. Er kannski átt við að viðkomandi bók sé góð aflestrar fyrir fanta eða það sé gott að drekka Fanta við lestur hennar? Um einn höfundinn var bókuð í fjöl- miðlum umsögnin: „Það er engin spurning, hann er bestur!“ Bestur í hvaða skilningi? Af íslenskum rithöf- undum eða öllum rithöfundum? Svona frasar eru einskis virði, að mínu mati, í bókmenntalegu tilliti. Sölumennsku- áróðurinn skín þar hins vegar alveg í gegn. Um eina bókina var viðhöfð umsögnin „guðdómlegur stíll“. Þó er viðkomandi höfundur ekkert sérlega þekktur eða viðurkenndur meðal þjóðarinnar. Einn höf- undur var svo í ofanálag sagður betri en Laxness! Ég held að það sé ver- ið að skapa gjá milli al- mennings og „bók- menntafræðinganna“ í þessu landi. Og það eru sjálfir sérfræðingarnir sem standa að því verki. Þeir dásama bækur út- valinna gæluhöfunda sem eru að rembast við að skrifa hástemmt um einhverja hluti, oftar en ekki einhverjar innan- skammir sínar og ann- arra, meðan almenn- ingur reynir að verða sér úti um lestrarefni sem venjulegt fólk getur skil- ið. Bókmenntafræðing- arnir hafa, að mér finnst, gengið fram í því í seinni tíð að gera bókaþjóðina afhuga bókum með dýrkun sinni á því sem þjóðin metur greinilega ekki mik- ils. Í bókmenntalegu tilliti horfa þeir sí- fellt á nýju fötin keisarans. Ég er sannfærður um að þessir gæluhöfundar sem eru hafnir svo til skýjanna í dag af vinum og samstarfs- mönnum í bókmenntageiranum verða gleymdir um leið og opinber umfjöllun tengdra hagsmunaaðila er að baki. Gíf- uryrðin um stílsnilld og stórhæfni þessara manna munu gleymast fljótt þar sem inneignin fyrir þeim er tak- mörkuð. Gömlu höfundarnir munu hins vegar halda velli og verða lesnir áfram þegar þessir gervihöfundar nús- ins verða horfnir í skuggann. Ég gef lítið fyrir Íslensku bók- menntaverðlaunin sem slík enda fæ ég ekki séð annað en þau séu beinlínis út- gerðarþáttur beinna hagsmunaaðila í sölu bóka hér á landi. Sannar bókmenntir eru hins vegar lífsnauðsyn fyrir menningu hverrar þjóðar. Á öllum tímum hafa það verið andlegir yfirburðamenn sem hafa skapað sönn stórvirki í bókmenntum. Verk þeirra verða með sjálfbærum hætti vitnisburður um verðleika þeirra. Slíkir yfirburðamenn verða hins vegar aldrei skapaðir með sölu- mennsku og áróðri. Bókmenntaleg afturför Rúnar Kristjánsson skrifar um bókmenntir Rúnar Kristjánsson ’Gömlu höfund-arnir munu hins vegar halda velli og verða lesnir áfram þegar þessir gervihöf- undar núsins verða horfnir í skuggann.‘ Höfundur er bókmenntaunnandi. ANDSTAÐA yfir- gnæfandi meirihluta Ís- lendinga við innrásina í Írak er ekkert til að fara með í felur. Þvert á móti. Þess vegna er flestum fagnaðarefni að hópur íslenskra borgara undir nafni Þjóðar- hreyfingarinnar gengst fyrir fjársöfnun til að kynna afstöðu okkar á alþjóðlegum vettvangi. Einhverjir upplifa þó sem guðlast allt sem túlka mætti sem gagn- rýni á stjórnvöld og velja forvígismönnum söfnunarinnar alls kyns uppnefni og orðskrípi, en láta rök liggja milli hluta. Mark- miðið er að hræða fólk frá því að gagn- rýna og láta að sér kveða. Það er ekki gott. Siðað samfélag er borið uppi af borgurunum sjálfum og láti þeir ekki til sín taka eins og siðað fólk, þá grafa þeir undan lýðræð- inu. Íslendingar mega gagnrýna afglöp stjórn- valda og ber siðferðileg skylda til þess – sér- staklega á tímum þegar það er mjög illa séð. Lát- um ekki efla með okkur vanmáttartilfinningu. Við erum ekki aðeins melt- ingarvegur, neytendur sem greiða atkvæði á fjögurra ára fresti, held- ur borgarar sem bera ábyrgð á að veita stjórn- völdum aðhald. Þess vegna borða Íslendingar ekki bara SS-pylsur heldur hringja líka í söfn- unarsíma þjóðarhreyf- ingarinnar, 90-20000. Það er gott. Íslendingar borða ekki bara SS-pylsur Hjörtur Hjartarson skrifar um söfnun Þjóðar- hreyfingarinnar Hjörtur Hjartarson ’Látum ekkiefla með okkur vanmáttartil- finningu.‘ Höfundur er kynningarstjóri.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.