Morgunblaðið - 19.03.2006, Síða 64

Morgunblaðið - 19.03.2006, Síða 64
64 SUNNUDAGUR 19. MARS 2006 MORGUNBLAÐIÐ K olsvarta gamanmyndin The Matador er frumsýnd hér- lendis um helgina en Pierce Brosnan fer með burð- arhlutverk í myndinni. Nafn hans er auðvitað samofið nafni þekktasta njósnara kvikmyndasögunnar, James Bond, enda hefur hann túlkað séntilmanninn í fjórum vinsælum myndum. Brosnan hefur lagt sig fram við að vera ekki bara í Bond- hlutverkum og í þessari mynd leikur hann veraldarvanan morðingja, sem er mikið fyr- ir kvenfólk (!) en gæti þó ekki verið ólíkari Bond, að minnsta kosti á yfirborðinu. Eftir að hafa rætt við almannafulltrúa og aðstoðarmenn kvikmyndastjörnunnar var ég nærri búin að gefa viðtalið upp á bátinn. Hélt þó í vonina og síminn hringdi loks síð- degis í vikunni, engir aðstoðarmenn heldur beintenging: „Hi Inga, this is Pierce Brosn- an.“ Ekki á hverjum degi sem maður fær slíka kveðju en þessi lína er nóg til að láta hvaða konu sem er kikna í hnjáliðunum. Brosnan virkar ótrúlega hress miðað við það að klukkan er aðeins rúmlega sex um morgun í Vancouver þar sem hann er stadd- ur. Mér skilst hann sé á leiðinni á flugvöll- inn og stefni til Los Angeles. Hann er mjög kurteis og býður af sér mikinn þokka, jafnvel í gegnum símalínuna frá limósínunni, sem ég ímynda mér að hann ferðist í á flugvöllinn. Auðvitað byrja ég á lofræðunni: „Mér fannst þetta frábær mynd og þetta er einhver fyndnasti karakt- er sem ég hef séð lengi á hvíta tjaldinu,“ segi ég og vonast til þess að hann trúi mér. Auðvitað er alltaf verið að ausa þessar kvik- myndastjörnur lofi en í þetta skiptið er hvert einasta orð satt. Brosnan er hreint og beint frábær í þessari stórskemmtilegu mynd. Hann er kurteis, talar yfirvegað með auð- þekkjanlegri röddu og þakkar fyrir sig. „Ég sá handritið og hló mikið að textanum. [Leikstjórinn og handritshöfundurinn Rich- ard] Shepard lagði upp með að gera enn svartari kómedíu en þetta varð bara svona fyndið,“ segir Brosnan en það er allt hljótt í kringum hann. Kannski er hann sjálfur að keyra út á flugvöll, írskar rætur hans leyfa ekki lúxus á borð við limósínur. Hann er lík- legast í Range Rover með skyggðu gleri og talar í farsímann með handfrjálsum búnaði. Brosnan leikur leigumorðingjann Julian Noble, sem er úr tengslum við eigin tilfinn- ingar og annarra og er fylgst með því hvernig hann brotnar niður í myndinni. „Hann er óheflaður og sérstakur maður. Hann er mjög einmana og stendur al- gjörlega fyrir utan samfélagið,“ segir hann en öllum þessum þáttum persónunnar nær Brosnan að koma til skila. Það er ekki hægt að hlaupast á brott frá tilfinningum sínum eða gjörðum. Hann undirbjó sig fyrir hlutverkið með ýmsum hætti. „Ég talaði við afbrotasálfræð- ing í Los Angeles til að fá að skyggnast inn í heim þessara manna. Það er ekki eins og ég hefði áhuga á að tala við þá í eigin per- sónu. Hann gaf mér ágæta innsýn í heim siðblindra. Hann las handritið og greindi persónu mína eins og hvern annan sjúk- ling.“ Julian lendir sífellt í því að segja óviðeig- andi hluti á óviðeigandi stað. Svoleiðis manneskjur geta verið fyndnar en maður vildi ekki vera ein þeirra. „Auðvitað eru ekki allir geðsjúklingar eins og hann en margir komast upp með þessa hegðun vegna þessa að þeir eru sjarmerandi,“ segir hann og Julian er einn af þeim, siðblindur og sjarmerandi. Brosnan sjálfur hefur hæfi- leika til að segja réttu hlutina á réttum stað. Konan ekki hrifin af skegginu Brosnan skartar yfirvaraskeggi í mynd- inni. „Mér fannst það passa við karakterinn, hann er svo sjúskaður. En konan mín er alls ekki hrifin af yfirvaraskeggi. Henni fannst það hræðilegt. Í annarri mynd sem ég er nýbúinn að gera þurfti ég að vera með al- skegg. Hún var ekki ánægð. Í næstu mynd verða engin andlitshár.“ Jafnvel þótt Brosnan hefði ekki leikið Bond er óhjákvæmilegt að bera hvern ein- asta njósnara og leigumorðingja hvíta tjaldsins saman við þessa erkitýpu kvik- myndanna. Slík eru áhrif hans. Bond er allt- af nýrakaður og snyrtilegur, öfugt við Juli- an, sem er ólíkur James en kjarninn nálgast það að vera Bond án glyssins. „Þegar allt kemur til alls er útgáfa [rit- höfundarins Ians] Flemings af Bond ekki alltaf sykursæt. Bond gleypir lyf og svolgr- ar í sig ótæpilegt magn af vodka. Julian er brengluð útgáfa af honum, einhvers konar vondur bróðir hans.“ Söguþráðurinn í The Matador er áhuga- verður og heldur manni við efnið með óvæntum snúningum. Miðpunkturinn er samband Julians við sölumanninn Danny Wright, túlkaður af Greg Kinnear, sem er heppinn í ástum en óheppinn í viðskiptum. Þeir hittast fyrir tilviljun á hótelbar í Mexíkóborg og taka tal saman. Samtalið gengur brösulega enda eru samskiptahæfi- leikar Julians ekki upp á marga fiska. Svo fer að þeir verða miklir áhrifavaldar í lífi hvor annars. Brosnan talar vel um reynslu sína af því að vinna með Kinnear og útskýrir nánar samband þessara ólíklegu vina. „Julian og Danny eru að hluta til líkir, þeir eru báðir einmana. Danny verður í raun bjargvættur í hans lífi og á endanum bjarga þeir hvor öðrum. Fyrir Danny er Julian líka svali vin- urinn sem hann átti aldrei í menntaskóla.“ Undir lokin er Danny farinn að apa allt eftir honum. Hann er meira að segja kom- inn með yfirvaraskegg þegar Julian bankar upp á hjá Wright-hjónunum í Denver. „Hugmyndin með yfirvaraskeggið var al- gjörlega komin frá Greg og virkaði mjög vel. Þetta kom upp sama dag og við skutum þetta. Hann lét á þetta reyna og allt small saman,“ segir hann en þetta undirstrikar á sjónrænan hátt hversu mikill áhrifavaldur Julian hefur verið í lífi Dannys. Þó að myndin sé fyndin á hún sér dekkri hliðar og er hættan áþreifanleg. „Í þriðja hlutanum þegar Julian fer heim til Dannys og [eiginkonu hans] Bean fær maður á til- finninguna að hann eigi eftir að rústa lífi þeirra, sofa hjá konunni og koma Danny í eintóm vandræði. Julian er á sama tíma mjög brjóstumkennanlegur,“ segir Brosnan. Ekki aðeins fékk Brosnan að skarta yf- irvaraskeggi í myndinni heldur gengur hann í áberandi fötum. „Hönnuðurinn Cat Thom- as hefur verið búningahönnuður í mörgum mynda Tarantinos og er mjög hrifinn af þessum retró-stíl. Mér datt í hug að persón- an gæti verið í kúrekastígvélum en hún fann þessi frábæru ítölsku, renndu stígvél. Karakterinn varð til frá botninum og upp.“ Eftirminnileg sena í myndinni er þegar Julian gengur í nærbuxum og stígvélum í gegnum anddyri á hóteli, og hoppar síðan ofan í sundlaug með bjórdós í hendi. Brosn- an segist hafa haft gaman af því að leika í þessari senu, sem undirstrikar einmanaleik- ann sem umlykur Julian. „Þetta var í anddyrinu á hótelinu sem við bjuggum á. Shepard var mjög hrifinn af út- litinu á því og vildi taka upp þessa senu þarna,“ segir hann en leikstjórinn hefur áð- ur notað hótelanddyri sem vettvang í mörg- um af handritum sínum og smásögum. Magnaðar tökur í Mexíkó Myndin er tekin upp í Mexíkó og fannst Brosnan það magnaður tökustaður. „Þetta er ótrúlega lifandi borg og mikil orka í henni. En því miður er hún mjög menguð. Fjölskyldan hafði áhyggjur af mér og það þurfti að gæta að öryggi okkar þarna,“ seg- ir hann en á svipuðum tíma höfðu borist fréttir af mannránum í borginni. „Við keyrðum um í brynvörðum bílum.“ Mexíkó reyndist fjölbreyttur tökustaður. Til viðbótar við senur sem áttu að gerast í Mexíkóborg var landið notað sem töku- staður fyrir atriði sem áttu að eiga sér stað í Tucson og Denver í Bandaríkjunum, Búda- pest í Ungverjalandi og Manila á Filipps- eyjum. Útkoman er lífleg og ljær myndinni alþjóðlegan blæ. Ekki aðeins leikur Brosnan í myndinni heldur er hann einnig framleiðandi. „Það sem ég er bestur í er að ná saman góðum hópi fólks og ég held það hafi tekist í þess- ari mynd. Ég er með stórgóðan samstarfs- mann [Beau St. Clair]. Hún er alveg frábær í fjárhagshliðinni og allri skipulagningu. Samstarfið gengur vel hjá okkur,“ segir Brosnan á eilítið kristilegri tíma en þegar samtal okkar hófst. „Það var frábær reynsla að gera þessa mynd og hún skilur eftir sig miklar og góð- ar minningar,“ segir hann og lýkur samtal- inu á jafn kurteisan hátt og það byrjaði, rétt áður en hann flýgur úr höndum mér, suður á bóginn til Englaborgarinnar. Siðblindur og sjarmerandi Pierce Brosnan fer á kostum í hlutverki leigumorðingj- ans Julians Nobles í myndinni The Matador, sem frum- sýnd er hérlendis um helgina. Inga Rún Sigurðardóttir ræddi við þennan skemmtilega leikara sem ávallt er minnst fyrir túlkun sína á öðrum manni sem hefur atvinnu af því að drepa og með leyfi upp á það.  Julian Noble er einmana sál sem á fá vini fyr- ir utan flöskuna. Pierce Brosnan er í hlutverki Julians Noble, kvensams leigumorðingja sem er heldur sjúskaðari en útsendari hennar hátignar. Ólíklegt par: Leigu- morðinginn og sölu- maðurinn knái sem Greg Kinnear ljær líf af stakri prýði. ingarun@mbl.is ’Eftirminnileg sena ímyndinni er þegar Julian gengur í nærbuxum og stígvélum í gegnum and- dyri á hóteli, og hoppar síðan ofan í sundlaug með bjórdós í hendi.‘

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.