Morgunblaðið - 11.05.2007, Side 62
62 FÖSTUDAGUR 11. MAÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Hallur Krist-jánsson dýra-
læknir fæddist í
Reykjavík 31. jan-
úar 1961. Hann
varð bráðkvaddur í
Hedensted á Jót-
landi 6. maí síðast-
liðinn. Foreldrar
hans eru Kristján
Baldvinsson læknir
og Inger Halls-
dóttir kennari.
Systkini Halls eru
Halldóra, Baldvin,
Kristján Ingi og
Elías.
Eiginkona Halls er Birgitte
Bonde lyfjafræð-
ingur og dóttir
þeirra er Sara
Hallsdóttir Bonde.
Hallur var stúd-
ent frá Mennta-
skólanum í Reykja-
vík og nam
dýralækningar í
Kaupmannahöfn.
Síðustu árin vann
hann sem embættis-
dýralæknir í Vejle í
Danmörku.
Útför Halls verð-
ur gerð frá kirkj-
unni í Hedensted í dag og hefst
athöfnin klukkan 13.
Mig setti hljóðan þegar mér barst
sú frétt að Hallur bróðir hefði orðið
bráðkvaddur í reiðhjólatúr nærri
heimili sínu við Hedensted á Jót-
landi, einungis 46 ára að aldri. Við
þessi válegu tíðindi helltust yfir mig
minningabrot úr æsku og frá seinni
tíð. Við Hallur áttum margar sam-
verustundir, enda einungis þrjú ár
sem skildu okkur bræður að. Við
lögðum stund á hestamennsku í
æsku og stunduðum báðir nám í
Menntaskólanum í Reykjavík. Í
seinni tíð hittumst við sjaldan, enda
heimili okkar hvors í sínu landinu.
Það urðu alltaf þó fagnaðarfundir
þegar við hittumst og margt
skemmtilegt gert.
Árið 1994 heimsótti ég Hall, en þá
stundaði hann dýralækningar á Jót-
landi í námunda við Vejle. Ég fór
með honum í vitjanir á sveitabæi í
tvo daga. Þá áttaði ég mig á að hann
var dýralæknir af köllun, en hann
var einstaklega laginn við að með-
höndla sjúk dýr. Hann var fjölfróður
dýralæknir og ófeiminn við að miðla
af þekkingu sinni. Hallur var hreyst-
in uppmáluð og harður af sér. Í eitt
sinn slasaðist hann þegar hann var
að sprauta belju, nánar tiltekið fékk
hann slæman skurð í lófann. Hann
lét þetta ekki á sig fá, heldur saum-
aði sárið sjálfur og bjó um það.
Hann hafði á orði að hann gerði
þetta frekar sjálfur, heldur að láta
einhvern nýútskrifaðan læknakandi-
dat gera það. Það var ávallt glatt á
hjalla í kringum Hall. Maður vissi
hvar hann var þegar hlátrasköll
heyrðust. Hallur var í senn glettinn
og góðlátlega stríðinn. Á sama hátt
sýndi hann öllum samkennd og
hlýju, en hann var fyrstur allra til að
hafa samband, ef eitthvað bjátaði á.
Hann hafði góða návist og öllum leið
vel í kringum hann.
Ég veit um himins björtu borg
í bjarma sólu hærri.
Þar er ei skuggi, synd né sorg,
hvert sár er grætt og fjarri.
(Sigurbjörn Einarsson)
Hallur, nú ertu farinn á vit feðra
okkar. Megi guð og gæfan fylgja þér
á þeirri leið. Þín er sárt saknað af
öllum. Það er gæfa mín að hafa
kynnst þér og orðið þér samferða í
lífinu. Í hjarta mínu geymi ég minn-
ingar um góðan bróður og mætan
mann.
Þinn bróðir,
Kristján Ingi.
Ég vil heim, ég vil heim
yfir hyldjúpan sæ,
heim í dálítinn dal,
heim að dálitlum bæ.
Hver vill bera mig blítt
um hinn bláheiða geim?
Ó þú síðasti blær!
Vilt þú bera mig heim?
(Jóhannes úr Kötlum)
Okkar Jónatan Ljónshjarta, okk-
ar stóri bróðir er dáinn. Þú Hallur
varst stóri bróðir, tröll að hæð, og
líkamsburðum, en um leið gull af
manni. Lífsglaður, jafnlyndur,
trygglyndur, fjölskyldumaður, sem
þó aldrei vékst frá skyldu stórra
bræðra í að stríða, vernda, og
skamma. Þú varst alltaf sá bróðir
sem við vorum svo stolt af, alltaf sá
sem var stærstur og bestur. Þú
varst góður bróðir, og sannur vinur
vina þinna. Utan frá gastu virkað
hrjúfur og stór, en inni í var sál í
litlum viðkvæmum strák, sem ekk-
ert aumt mátti sjá án þess að
hjálpa.
Þegar við fluttum til Danmerkur,
tókstu á móti okkur, og þitt heimili
var okkar. Þú bjóst lengst af í Dan-
mörku, en samt vitum við engan
meiri Íslending, þar sem þú fylgdist
í fjarska með þjóðmálunum, og
elskaðir náttúru og land. Dugandi
dýralæknir, og varst nú síðast einn
mesti sérfræðingur Danmerkur og
ESB í fuglainflúensu og sóttvörn-
um. Þú naust óbilandi virðingar
sem manneskja og dýralæknir, hjá
starfsfélögum þínum.
Líf þitt var alltaf samundið nátt-
úrunni. Þú ferðaðist um alla Evrópu
með fjölskyldunni. Þess utan varstu
fagurkeri með listrænt eðli, safn-
aðir myndlist og arkitekthönnuðum
húsgögnum af mikilli natni.
Fjölskyldan, Birgitta og Sara,
voru alltaf í fyrsta sæti, og þú hik-
aðir ekki við að gefa þeim hinar
bestu upplifanir. Þú varst alltaf
reiðubúinn fyrir Söru, sem saknar
pabba síns afar sárt og mikið.
Við deildum stóru áhugamáli, í
því að þú kynntir okkur fyrir hjól-
reiðum. Við lögðum drög að því að
hjóla saman yfir Kjöl, og að hjóla
upp Alpe De’Huez.
Á hjólinu fórstu svo þinn síðasta
túr í gegnum stórfenglega beyki-
skóga Greisdal við Vejle, í vornátt-
úrunni sem þú elskaðir, þú sigraðist
á síðustu brekkunni, en sprettaðir
því næst inn í eilífðina. Okkur öllum
til svo sárs missis. Við sem eftir
stöndum skiljum varla enn hvað
hefur gerst, enda kenndir þú þér
einskis meins, varst jafnhraustur og
ávallt fram á síðasta dag.
Við syrgjum þig elsku Hallur, og
finnum svo afar mikið til með Söru,
Birgittu, Lissy, mömmu og pabba
sem hafa öll misst allra mest. Við
munum gera allt til að hjálpa fjöl-
skyldunni í Hedensted áfram og
reyna af okkar mætti að ná tánum
þar sem þú hafðir hælana, bæði fag-
lega og persónulega.
Ekkert hefði getað búið okkur
undir að kveðja þig, söknuðurinn er
svo stór. Eins reið og við getum ver-
ið Almættinu fyrir að taka þig heim
svo snemma, þá vitum við fyrir víst
að í sölum Himnaríkis hljómar öflug
raust, sem einn daginn mun taka á
móti okkur hlæjandi, sitjandi á fal-
legu reiðhjóli, og væntanlega góð-
látlega skamma Elías fyrir að hafa
ekki smurt keðjuna, og vera búin að
kaupa nýtt hjól fyrir Dísu.
Allt okkar hjarta finnur svo til
með ykkur, Sara, Birgitta, Lissy,
mamma og pabbi. Við elskuðum þig
stóri bróðir og mágur, okkar Jón-
atan Ljónshjarta.
Guð blessi þig elsku Hallur,
Elías og Ásdís, Holstebro.
Það er vordagur í Danmörku,
blómaangan í loftinu og góðvinur
minn og nánast uppeldisbróðir í
blóma lífsins, ákveður að fara í hjól-
reiðarferð. Án nokkurs aðdraganda
er hann hrifinn frá eiginkonu sinni
og barni. Agndofa situr eftir fjöl-
skylda og vinir. Hver er tilgangur-
inn með svona mikilli og óvæntri
sorg? Ef til er svar við þeirri spurn-
ingu, verðum við eftirlifandi að
leyfa tímanum að lina sársauka okk-
ar og söknuð og leita huggunar
hvert hjá öðru. Við sem erum bless-
uð með Guðstrúnni vitum að Hallur
nýtur nú grænna grunda í kærleika,
æðruleysi og samvistum með ætt-
ingjum og vinum sem hafa kvatt
hafa þetta líf á undan honum.
Á krossgötum sem þessum birtist
í huga mér mynd af fallegum dreng
með sitt einstaka broshýra andlit.
Nýfluttum frá Svíþjóð, alla leiðina
til Stykkishólms. Ef ég man rétt var
meira að segja smá sænskuhreimur
í fyrstu, í hljómþýðri íslenskunni
hans sem hann þrátt fyrir áralanga
búsetu erlendis talaði óaðfinnan-
lega, enda móðir hans kennari og
faðir hans nýi sjúkrahúslæknirinn í
Hólminum. Með foreldrum hans og
mínum tókust einstök vináttubönd
sem vörðu í marga áratugi, allt þar
til mamma og pabbi létust.
Það sama gerðist hjá okkur börn-
unum, Súsanna systir og Dóra, jafn-
aldrar og bestu vinkonur. Björgvin
bróðir og Baldvin, jafnaldra og
bestu vinir. Ég og Hallur, árinu
yngri, bestu vinir. Aðalbjörg systir
og Kristján Ingi, jafnaldra og bestu
vinir. Bylgja systir og Elías, árinu
yngri, bestu vinir. Í sakleysi og ör-
yggi tveggja heimila ólumst við sam-
an upp, fórum m.a.s. í sama mennta-
skóla sum okkar.
Gagnkvæm virðing foreldra okkar
hvers fyrir öðru smitaðist yfir á okk-
ur börnin og alla mína ævi hef ég
ávallt getað leitað aðstoðar og ráða
hjá Kristjáni og Inger og hef not-
fært mér það óteljandi sinnum. Ég
og Hallur deildum sem börn ekki
einungis heimilum, við vorum saman
í hestamennskunni, skautaferðum,
útilegum og frelsinu sem einkenndi
æskuna okkar. Saman skrökvuðum
við að Villa Zettu um aldur, til að fá
fyrstu launuðu vinnuna okkar í skel-
fiskvinnslunni í Hólminum. Fengum
peninga til að kaupa gúmmíhanska
hjá foreldrunum. Eyddum nóttinni
fyrir fyrsta vinnudaginn saman á
Skúlagötunni í svefnleysi af tilhlökk-
un, með Snata hundinn þeirra sem
svefnfélaga.
Allt eru þetta ljúfar minningar
mínar um æsku okkar barnanna.
Fullorðinsár okkar Halls hafa fyrir
okkur báða verið mörkuð af stórum
fjarlægðum, báðir valið búsetu utan
landsteinanna. Ég eins og er í Suð-
ur- Afríku, Hallur með yndislegri
eiginkonu sinni og barni í Dan-
mörku. Þar lærði hann dýralækn-
ingar. Menntun sem fyllti líf hans
fyllingu. Það að lina sársauka og að-
stoða málleysinganna varð ævistarf
hans.
Fjölskylda Halls kveður nú ást-
kæran eiginmann og föður. Foreldr-
ar og systkini bjartan son og bróður
með glæsilega framtíð fyrir sér. Við,
Varða og Lillians börn, kveðjum
uppeldisfélaga okkar og góðan vin.
Megi Hallur hvíla í ljósinu og njóta
samvista með ættingjum og vinum í
eilífðinni sem bíður okkar allra. Al-
mættið styðji alla syrgjendur í fram-
tíðinni. Minning um góðan dreng lif-
ir.
Guðmundur Aðalsteinn
Þorvarðarson (Bói).
Sólin gægist upp yfir fjallsbrún,
grill- og vorilmur í lofti. Fallegur,
bjartur og sólríkur dagur er mér
barst harmafregn. Hallur Kristjáns-
son systursonur minn er látinn,
bráðkvaddur langt fyrir aldur fram,
aðeins 46 ára að aldri. Dillandi org-
andi hlátur, hlýtt faðmlag, fast
handtak, tréklossar, góður maður,
hár, spengilegur, tryggur fjöl-
skyldufaðir, gæddur ríkri kímni-
gáfu, vel menntaður, trygglyndur,
trúr, glaður, vinfastur, góðviljaður
og hlýr. Það er margs að minnast,
fríðleiksbarn, sem varð að góðhjört-
uðum unglingi og er hann óx úr
grasi vinur sem var höfðingi heim að
sækja og ferðalögin urðu allmörg og
alltaf var hlegið. Velviljinn átti í hon-
um mikil tök. Hallur var mikið prúð-
menni, hlýr og raungóður í stóru og
smáu. Augu hans tindruðu er hann
hristist af hlátri. Hallur kom fram
við aðra af blíðu og virðingu. Brúð-
kaup Halls og Birgittu var sérlega
glæsilegt, fjölmenn þriggja daga
veisla þar sem hlátur og gleði skip-
aði ríkan sess.
Með Halli er genginn mikill ætt-
arsómi, öðlingspiltur. Samferða-
menn hans munu minnast hlátur-
milds, trygglynds og heiðarlegs
vinar. Harmur þeirra sem stóðu
hjarta hans næst er mikill. Við höf-
um margs að minnast fyrir þá dýru
gjöf sem Guð veitti okkur í honum.
Hallur lifir áfram í brjóstum okkar
sem elskuðum hann, það er huggun í
harmi að útbreiddur faðmur nafna
hans bíði hans fyrir handan.
Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg,
en anda, sem unnast,
fær aldregi
eilífð að skilið.
(Jónas Hallgrímsson)
Elsku Sara og Birgitta, missir
ykkar er mikill og vottum við ykkur
okkar dýpstu samúð.
Heba, Eyjólfur og börn.
Fimmtudagsmorgun í vikunni
sem leið kom Hallur inn á dýra-
læknastofu okkar til þess að sækja
fóður fyrir hundinn sinn.
Það var sólskin úti og Hallur var,
sem alltaf, í góðu skapi. Var bros-
andi og gekk um og heilsaði upp á
gamla kollega. Hann gaf sér tíma til
að heyra nýjustu fréttir hjá hverjum
og einum, og sagði sjálfur frá sum-
aráætlunum næsta sumars, að fara á
nýkeyptum jeppa til Íslands með
fjölskylduna.
Við kvöddumst með brosi, og
„reynum að hittast sem fyrst og
borða saman“.
Það var því mikið áfall að heyra á
sunnudagskvöld, að sá góði drengur,
Hallur Kristjánsson, væri fallinn
frá.
Eiginkona Halls, Birgitta, hringdi
að kvöldi sunnudags með þær
hræðilegu fréttir að Hallur væri lát-
inn. Í sömu stund lamast eitthvað í
sálu manns og allt verður einhvern
veginn svo óraunverulegt. Og það
fyrsta sem fer í gegnum huga manns
er; hvílíkt óréttlæti!
Hallur var drengur góður, ef nota
má þetta gamla orðfæri, alltaf glað-
ur og léttur í viðmóti og sérstaklega
gáskafullur maður með góðan húm-
or.
Við kynntumst Halli og Birgittu
konu hans þegar Hallur réðst sem
aðstoðardýralæknir hjá okkur í
„Dyrlægegruppen Hedensted“ árið
1989, og við unnum sama næstu tíu
árin eða þangað til Hallur leitaði á
önnur mið og hafði fengið stöðu sem
kennari fyrir dýrahjúkrunarfræð-
inga í Kolding.
Hallur var fær dýralæknir og sér-
staklega vel liðinn af öllum við-
skiptavinum okkar, hvort heldur
sem voru bændur úti í sveit eða
gæludýrafólkið inni í bæ.
Öllum þessum mörgu árum seinna
eru kúabændur úti í sveit enn að tala
um Hall, þennan sterka Íslending
sem kláraði, meðal annars, kvígu-
burð einn og sjálfur eins og ekkert
væri.
Hallur var góður vinur, og hann
og Birgitta voru sérstaklega gott
fólk í viðkynningu. Eftir að Hallur
sótti á önnur mið hélst vinskapur
okkar og við áttum margar góðar
stundir með þeim hjónum.
Við áttum tvisvar sinnum gleðina
af að vera með Halli á ferð á Íslandi,
annað skiptið þegar haldin var nor-
rænn fundur dýralækna á Íslandi og
leiðin lá inn í Þórsmörk með gömlum
leiðbeinendum Halls á Íslandi, góð-
um hluta af fölskyldu hans og öðru
góðu fólki.
Hitt skiptið var þegar við dýra-
læknarnir frá Hedensted og makar
ákváðum að fara í ferð til Íslands og
vorum svo heppin að njóta velvildar
Halls sem hafði staðið fyrir mjög
fínum og áhugaverðum degi fyrir
okkur á Keldum.
Hallur leitaði aftur á ný mið eftir
nokkur ár í Kolding og var ráðinn
sem dýralæknir í Vejle hjá því sem
næst kemst héraðsdýralæknisemb-
ættinu á Íslandi (Veterinærdirekt-
oratet). Með þessu starfi fylgdi það
að þurfa að rannsaka verk annarra
dýralækna og þar á meðal fyrrver-
andi kollega. En þetta reyndist Halli
aldrei erfitt. Hann tók hlutunum
með stóískri ró og gat alltaf með
góðri lund talað sig til um hlutina án
þess að þurfa nokkurn tíma að nota
vald sitt.
Hallur var um árabil valinn af
kollegum sínum til að leiða for-
mennsku í Dýralæknafélaginu í
Horsens og stóð sig vel í því starfi
sem öðru.
Hallur var einstaklega góður fjöl-
skyldufaðir, hafði mjög náin tengsl
við dóttur sína Söru, og elskaði eig-
inkonu sína Birgittu af öllu hjarta.
Hugur okkar leitar á þessari
stundu til Birgittu og Söru. Skyndi-
lega er framtíð þeirra öll önnur.
Hallur er rifinn burtu frá þeim allt
of snemma.
Hann ætlaði sér svo mikið með
fjölskyldu sinni sem hann elskaði of-
ar öllu.
Við sendum hlýjar kveðjur til
Birgittu og Söru, svo og fjölskyldu
Halls á Íslandi og í Danmörku sem
misst hafa kæran son, bróður og
góðan félaga.
Hvíl þú í friði, góði vinur.
Peder og Guðrún
Hallur Kristjánsson
✝
Faðir okkar, tengdafaðir og afi,
ÞORBJÖRN JÓNSSON
frá Grjótá,
Fljótshlíð,
verður jarðsunginn frá Hlíðarendakirkju í Fljóts-
hlíð laugardaginn 12. maí kl. 14.00.
Ágúst Þorbjörnsson,
Arnar Þorbjörnsson, Margrét Jónsdóttir,
Ásdís Þorbjörnsdóttir,
Ásrún Þorbjörnsdóttir,
Ásta Þorbjörnsdóttir,
barnabörn og langafabarn.
✝
Okkar innilegustu þakkir fyrir auðsýnda samúð og
hlýhug við andlát og útför ástkærs eiginmanns,
föður, tengdaföður og afa,
EINARS J. SIGURÐSSONAR,
Torfufelli 19,
Reykjavík.
l
Sigurlaug Ottósdóttir,
Valg. Laufey Einarsdóttir, Þór Marteinsson,
Ottó Einarsson,
Einar Þór Einarsson, Eva Björk Sigurjónsdóttir,
Einar Jakob Þórsson,
Kolbrún Laufey Þórsdóttir,
Sigurlaug Alexandra Þórsdóttir,
Alexander Máni Einarsson,
Erlen Isabella Einarsdóttir.