Andvari - 01.01.1990, Qupperneq 17
andvari
JÓN LEIFS
15
píanótækni.l3) Jón æfði af kappi allan veturinn, einkum æfingar í
fingrafimi, og fékk svo góðar umsagnir að loknum vorprófum, að hann
fékk niðurfelld skólagjöldin veturinn eftir.
Síðla þessa fyrsta námsárs í tónlistarháskólanum byrjaði Jón að læra
hljómfræði, en það var ekki fyrr en um það bil ári síðar að hann fór að
sækja tíma í raddskrárlestri og hljóðfærafræði. Tónsmíðanám og nám í
hljómsveitarstjórn fylgdi svo í kjölfarið. Kennarar Jóns við tónlistar-
háskólann voru, auk Roberts Teichmiillers, þeir: Stephan Krehl
(1864—1924) og Emil Paul sem kenndu Jóni hljómfræði og kontra-
punkt; Aladár Szendrei (1884—1976) og Paul Graener (1872-1944)
sem báðir voru þekkt tónskáld. Sá fyrrnefndi þurfti síðar að flýja
Þýskaland vegna uppruna síns á meðan sá síðarnefndi klifraði upp
metorðastigann og varð að lokum eitt háttsettasta tónskáld Priðja rík-
isins; og þeir Otto Lohse (1858-1925) og Hermann Scherchen
(1891-1966), sem leiðbeindu Jóni í hljómsveitarstjórn. Otto Lohse var
hljómsveitarstjóri við óperuna í Leipzig en Hermann Scherchen var á
sínum tíma einn þekktasti brautryðjandi nýrrar og framsækinnar tón-
listar í Evrópu.
Jón útskrifaðist frá tónlistarháskólanum 17. júní 1921, en á loka-
prófinu lék hann verk eftir kennara sinn, Paul Graener, og konzert í f-
moll eftir J.S. Bach undir stjórn Arthurs Bartmuss. Hann hlaut hin
lofsamlegustu ummæli kennara sinna, og af þeim ummælum að dæma
hafði Jón stundað nám sitt af mikilli elju og kappsemi og kennarar
hans, allir sem einn, bundu miklar vonir við framtíð þessa unga tónlist-
armanns. Þegar Jón fór til náms ætlaði hann sér að verða píanóleikari í
fremstu röð. Nú höfðu aðrar greinar tónlistarinnar fangað hug hans
allan, og hafði faðir Jóns, Þorleifur, miklar áhyggjur af því, að Jón væri
að dreifa kröftum sínum um of og hann skoraði á son sinn að takmarka
sig við aðeins eina grein listarinnar. Jón sagði, miklu síðar á ævinni, að
hann hefði átt erfitt með að fallast á þetta sjónarmið, „en reynslan hef-
ur kennt mér, að hann hafði á réttu að standa.“14) Jón hefur líklega gert
sér grein fyrir því, að hann byrjaði alltof seint sitt píanónám til þess að
ná verulega góðum árangri á því sviði, enda lagði hann píanóleikinn á
hilluna skömmu eftir að hann lauk námi. Hann ætlaði sér hins vegar
stóra hluti á öðrum sviðum tónlistarinnar, og framundan beið hans fer-
ill sem hljómsveitarstjóri, músíkrithöfundur og tónskáld, og ferill bar-
áttumannsins fyrir auknum mannréttindum til handa listamönnum.