Andvari - 01.01.1990, Page 26
24
HJÁLMAR H. RAGNARSSON
ANDVARI
ljósvakans til fjarlægra landa. Fréttir birtust reglulega í íslenskum
blöðum um þá velgengni, sem Jón átti að fagna á erlendum vettvangi,
en það var honum sérstakt kappsmál að sanna fyrir löndum sínum
heima, að frami hans í útlöndum væri raunverulegur en ekki raup eitt.
Hann hafði nokkrar tekjur af þessum flutningi verka sinna en þær urðu
aldrei miklar því að verndun höfundaréttar á tónverkum var á þeim
tíma mjög skammt á veg komin.
Það varð fremur til að ýta undir velgengni Jóns í Þýskalandi en hitt,
að kenningar hans um þjóðlegar rætur listanna féllu í góðan jarðveg
hjá ýmsum hugmyndafræðingum þjóðernissósíalismans, þó svo að
skilningur þeirra á þeim ætti sér aðrar forsendur en þær sem Jón byggði
kenningarnar á. Jón var ákafur þjóðernissinni, eins og tónsmíðar og
skrif hans um listir og menningarmál bera greinilega vott um, og þjóð-
ernistilfinningin átti sér djúpar rætur í hjarta hans, - gegnsýrði alla
hans hugsun:
Eg ólst upp á tíma hörðustu baráttunnar um sjálfstæði íslands og teygaði í mig
ættjarðarástina - ef svo má að orði komast - og ættjarðarstefnuna, svo að hún
var, frá því að eg fyrst man eftir mér, mín sterkasta tilfinning - eins og nokkurs
konar frumstætt náttúruafl, sem óx við áhrif umhverfisins.35*
Jón taldi íslendinga ennþá vera kúgaða af oki hinnar dönsku herra-
þjóðar, og hann sakaði þá um hjáleigumennsku og ræfilskap til bæði
andlegra og líkamlegra starfa. Hann dáði fornmenningu íslendinga,
sem hann taldi hafa verið keyrða í dróma á 13. öld, vegna kúgunar er-
lendra þjóða, og hann vildi endurreisn þeirrar menningar. Þá endur-
reisn taldi hann vera helstu von Evrópuþjóða um menningarlega við-
reisn á tímum ríkjandi niðurlægingar. Það má ætla að kúltúrkenningar
Jóns hafi að ýmsu leyti samrýmst kenningum nasista um endurreisn
norrænnar menningar og yfirburði hins norræna kynstofns fram yfir
aðra, en þó var svo ekki. Hugmyndir Jóns byggðust á rétti smáþjóða til
sjálfstæðis og menningarlegrar reisnar en nasistar stefndu að heims-
yfirráðum og drottnun hins aríska kynstofns yfir öðrum. Hvergi hafa
fundist neinar heimildir um, að Jón hafi gengið erinda hinna þýsku
valdhafa og söguburður um, að hann hafi verið nasisti hefur margsinn-
is verið hrakinn. Þessi söguburður var ekki síst ósanngj arn fyrir þá sök,
að í æðum konu hans og tveggja dætra rann gyðingablóð, og var því
hans nánasta fjölskylda í stöðugum lífsháska vegna ofsókna hinna
blóðþyrstu valdhafa Þriðja ríkisins. Að sögn Jóns bönnuðu nasistar