Andvari - 01.01.1990, Page 48
46
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
tekist að blása í sögu sína þaðan ættað. Þessi saga Faulkners hefur reyndar
síðar komið út á íslensku, í þýðingu Guðrúnar Helgadóttur, Griðastaður,
1969. Sverrir Hólmarsson skrifar eftirmála um Faulkner og söguna og gerir
þar glögga grein fyrir inntaki hennar. Skemmst er frá því að segja að líkindi
með þessum sögum, í persónugerð, meginhugsun eða stíl, eru næsta lítil og
mætti lengi rekja dæmi „áhrifa“ ef telja á Guðmund hafa tekið sér Sanctuary
til náinnar fyrirmyndar við Blindingsleik sinn. Hitt telst vart til tíðinda að
sagnaskáld lesi Faulkner og hrífist af þeim heimi sem hann hefur skapað.
Kann því eitthvað af „anda“ sögunnar að vera frá honum runnið.
Guðmundur virðist hafa látið sér vel líka það almenna mat að Blindings-
leikur tæki öðrum sögum hans fram og taldi hana raunar sjálfur „best heppn-
uðu sögu sína“, hefur Matthías Johannessen eftir honum í minningargrein
(Mbl. 16.feb.1990). Pað er því við hæfi nú, að höfundinum gengnum, að rýna
lítið eitt í þessa sögu, kanna hvað það sé við hana sem réttlæti að skipa henni í
öndvegi meðal sagna Guðmundar. Það hlýtur að minnsta kosti að mega líta
á Blindingsleik sem verðugt dæmi þess sem hann gerði best. Sagan var rituð
þegar höfundurinn var á besta skeiði, hálffimmtugur, en með tuttugu ára
feril að baki.
Blindingsleikur er samþjöppuð saga í tíma og rúmi, gerist öll á einni nóttu
í litlu sjávarþorpi á suðurströnd íslands. Aðalpersónan er Birna Þorbrands-
dóttir, ung stúlka sem frá barnæsku hefur þjónað blindum rusta sem misnot-
ar hana, en þessa nótt fer hún frá honum og ákveður að leita æðra lífs. Fyrst
heldur hún til prestsins en grípur þar í tómt, þar næst að Borgartúni þar sem
bjuggu umboðsmaður sýslumanns, Loftur Árnason og kona hans. Þau eiga
tvo syni, annar, Goði, er fæddur með sjúkdóm í blóði og á að deyja, er hafð-
ur að húsgoði. En bróðir hans hét Torfi og átti að lifa, „og þótti lítt athyglis-
verður sem von var.“
Birna hvarflar milli þessara bræðra en Torfi fellir hug til hennar. Á þessari
nóttu losna einnig aðrar hvatir úr læðingi. Vinur Torfa, Theódór í Tröð, ger-
ir alvöru úr þeirri ætlan að ræna maurapúka staðarins, Karl ríka, og munar
ekki miklu að Torfi sé með í því verki. Birna hefur leitað skjóls hjá Karli eftir
að hún snýr baki við hinum dauðamerkta Goða. Hún verður vitni að ráninu
og því að Karl deyr fyrir hendi ræningjans. En einmitt á þessari stundu renn-
ur upp fyrir Birnu að hún ann Torfa sem hún þó óttast að sé brotamaðurinn.
Nú leitar hún hans í ákafa. Theódór örvinglast, rær út á sjó og drekkir sér.
Elskendurnir „ná saman“ en skilja að sögulokum og fara til þjónustu við þá
sem þurfa þeirra mest við, hún til að annast blindingjann sem nú er lamaður,
hann til að sinna málþola fénaði á bæ sínum.
Efnisútdráttur af þessu tagi, svo reyfaralegur sem hann er, segir ekki mik-
ið um söguna. En það er ljóst að fyrir höfundi vakir að segja siðferðilega
dæmisögu um þrár og hvatir manna. í því efni nýtir hann ýmis tilföng. í áður-