Andvari - 01.01.1990, Page 76
74
MARGRÉT EGGERTSDÓTTIR
ANDVARI
á“ (bls. 117). Orðin svona gömul og þreytt er hún sífellt að nöldra um að
húsið sé orðið fúið og þarfnist viðgerðar. Þannig líkist húsið henni, enda er
það táknrænt fyrir hlutskipti hennar í lífinu. Það er um leið almennt tákn
fyrir hlutskipti kvenna í samfélaginu, þær skorður sem þeim hafa löngum
verið settar, veggina sem þær reka sig á. í því ljósi er athyglisvert hvernig
húsið nær tökum á henni, hvernig hún verður samgróin því.
Gulmaðran er blóm sem tengist æskuminningum Boggu: „Ilmur gulmöðr-
unnar eftir regnskúr vekur upp liðnar kenndir og minningu um brekku ofan
við húsið í þorpinu heima . . .“ (bls. 103). Önnur blóm „hafa lit ellinnar.
Öðru máli gegnir um gulmöðruna. Opnar heim sem er löngu horfinn. —
Heimurinn sem gulmaðran opnar rúmar svo enn aðra heima og eru hver inni
í öðrum líkt og kassar“ (bls. 167). Gulmaðran er táknræn fyrir leit hennar að
sjálfri sér: „Eftir regnskúr angar gulmaðran, ilmur hennar sterkur, vekur
upp minningu — Hvað varð af stelpunni Ellu? Dó hún innan í mér eins og
margt annað? Ekki veit ég hvenær það gerðist. Á þilfari skips og pabbi búinn
að kveðja og stóð veifandi á bryggju? Eegar ég hljóp út úr húsi á vit óvissunn-
ar og á eftir mér skall hurð? Dó kannski ekki fyrr en Knútur fór? Snerti með
gómunum þetta fíngerða blóm svona bjart á litinn og ilmur þess fagnandi;
stendur í moldinni föstum rótum“ (bls. 235).
Meðan sagan er sögð, kemst konan út úr húsinu og finnur aftur ilm gul-
möðrunnar og nær að lokum fundi „konu sem býr í þokunni“. Hún er í senn
tákn lífs og dauða, hjá henni lokast hringurinn. Og þarna í dauðanum finnur
hún þrátt fyrir allt þá fegurð sem var horfin og þá hlýju sem hún hafði misst:
„Við hálsinn á mér gola. Vísast andardráttur og til mín kemur rödd sem eitt
sinn var mér kær“ (bls. 310). Ef til vill hefur sjálf framvinda sögunnar — eða
einfaldlega það að tala og rifja upp — leitt í ljós að þrátt fyrir allt tókst henni
innst inni að viðhalda „neista sem ekki mátti slokkna“ (bls. 299), minning-
unni um ósegjanlega hlýju sem hún finnur að lokum aftur.
En jafnvel í lok sögunnar er óvissan ekki horfin: „Skyldi Daníel bíða
handan árinnar og heimta mig til sín?“ (bls. 310). Sú aðferð Álfrúnar hefur
þegar verið nefnd í þessari grein að láta minningarnar verða skýrari, áleitn-
ari og óþægilegri eftir því sem Iíður á söguna. í lok skáldsögunnar Þel ryðjast
fram af krafti minningar sem áður hefur oft verið ýjað að, þær birtast allt í
einu í nekt sinni, fullar af sársauka. Sama á við um Hringsól. Það er ekki fyrr
en í lokin sem greint er í smáatriðum frá því þegar Bogga fer með son sinn til
Dísu sem átti að gæta hans um nóttina og þegar presturinn kemur til hennar í
vinnuna og tilkynnir henni lát drengsins. Þess vegna er síðasta minning
Boggu verð umhugsunar. Hún er frá þeim tíma þegar hún er nýbúin að
kynnast Knúti, þetta er fyrsta maí og hún ákveður að laumast niður í bæ í
þeirri von að rekast á hann - það hefði verið í samræmi við pólitískar skoðan-
ir hans - til þess að sýna honum „á einhvern hátt að hún væri ekki sú sem