Andvari - 01.01.1990, Blaðsíða 105
ANDVARI
VAR SNORRI STURLUSON UPPHAFSMAÐUR ÍSLENDINGASAGNA?
103
Það væri raunar miklu auðveldara að skipta Heimskringlu milli tveggja höf-
unda og eigna síðasta hlutann einhverjum öðrum en Snorra, svo mjög sting-
ur sá hlutinn í stúf við það sem áður er komið; en þetta leiðum vér einnig hjá
oss að sinni.
Þá er spurningin: hvenær ritaði Snorri Egilssögu? Um það eru þrjár gátur
á lofti: (1) Björn M. Ólsen taldi, eins og fyrr segir, að Snorri hefði samið
söguna meðan hann bjó á Borg. (2) Sigurður Nordal og flestir aðrir Snorra-
menn telja að-sagan muni samin á milli Eddu og Heimskringlu, einhvern-
tíma á árunum 1225-30. Og þótt menn vilji ekki gefa Snorra söguna skipa
þeir henni einnig, samkvæmt þróunarstiginu, á 3. áratug 13. aldar. (3) Sjálf-
ur hef ég getið þess til að sagan kunni að vera frá síðustu árum Snorra, eftir
að hann kom heim úr seinni Noregsför sinni vorið 1239. Ég ætlaði mér raun-
ar ekki að vera harður á þessari tímasetningu, ég lauk henni upp sem hugs-
anlegum útgöngudyrum. Nú þykir mér næstum því nóg um hve margir eru
farnir að ganga um þessar dyr. En engu að síður tel ég öldungis víst að Egils-
saga sé yngri en Heimskringla.
Náinn skyldleiki er með Heimskringlu, Egilssögu og svonefndum Har-
aldsþætti í Flateyjarbók. Kaflar í ritunum eru alveg orðrétt samhljóða, svo
sem ég hef sýnt í grein sem ég birti í afmælisriti Jakobs Benediktssonar, Sjö-
tíu ritgerðum, 1977. En Egilssaga getur ekki verið heimild bæði Heims-
kringlu og Haraldsþáttar, því að þau rit hafa mikið efni sameiginlegt fram
yfir Eglu. Ef bein rittengsl eru milli Heimskringlu og Eglu svo sem telja má
nálega víst, þá hlýtur Heimskringla að vera fyrirmyndin - og þar með eldri.
Það má og þreifa á því hversu frásagnir Egilssögu eru hér og þar útdráttur úr
því sem stendur í Heimskringlu.
Það skilur glögglega á milli Heimskringlu og Egilssögu að í Heimskringlu
er ekki minnst á Kveldúlf eða sonu hans og enga atburði sem þá varða sér-
staklega. Björn M. Ólsen hefur auðvitað tekið eftir þessu. „Skýringin liggur
beint við,“ segir hann. „Egils saga er æskurit Snorra, skrifuð meðan blóðið
var heitt og áður en hann komst verulega í kynni við Noregshöfðingja.
Heimskringla er skrifuð á efri árum Snorra og eflaust í þeim tilgangi að láta
hana koma fyrir augu Noregshöfðingja, Hákonar konungs og Skúla jarls. ...
Því var ekki nema eðlilegt þó að Snorri í þessu riti sínu vildi ekki láta bera á
þeirri hörðu deilu sem forfeður hans sjálfs höfðu átt við konungsættina.“ -
En nú voru skipti Kveldúlfsættarinnar við Harald konung lengi bæði mikil og
góð samkvæmt Egilssögu, og þætti mér með ólíkindum ef það hefði allt verið
plokkað út úr textanum þegar Heimskringla var samin. Ef menn lesa þessar
tvær sögur hleypidómalaust, þá vænti ég að menn sjái að Heimskringla er
frumheimildin, en síðan hefur frásögnum af Kveldúlfi og sonum hans verið
blandað inn í konungasöguna - sem jafnframt er dregin saman eins og eðli-
legt er af því að verið er að segja sögu Mýramanna, en ekki Noregskonunga.