Andvari - 01.01.2000, Síða 80
78
GUNNAR KRISTJÁNSSON
ANDVARI
hann, um nýtt líf og nýjan tilgang, um nýtt samfélag. Það samræmist því
ekki eðli hennar að vera hlutlaus. Hún á að leiðbeina fólki til þess að taka
afstöðu í erfiðum málum, t. d. í siðferðislegum efnum, og taka afstöðu sjálf
í mikilvægum málum. Ekkert svið þjóðlífsins er undanþegið því erindi sem
kirkjan telur sig eiga við einstaklinga og samfélag.
Kirkjan hefur margar leiðir til að hasla sér völl að nýju innan íslensks
samfélags með því að vera túlkandi, greinandi og leiðbeinandi. Henni eru
allar leiðir færar til að hafa áhrif á hinum pólitíska vettvangi (án þess að
lenda í hinni flokkspólitísku orrahríð), henni standa allar dyr opnar til að
láta um sig muna í umræðu um siðfræðileg málefni samtímans, í hvers kyns
menningarumfjöllun og félagsmálastarfi. En til þess þarf fræðilega undir-
stöðu sem fæst ekki án opinnar og markvissrar umræðu á vettvangi kirkj-
unnar og víðar.
Kirkjan hefur farið aðra leið og horfið í sívaxandi mæli inn í sjálfa sig,
búið sér athvarf í eigin sögu og eigin arfi og eigin heimi. Þetta innhverfa
viðhorf kemur m. a. fram í bréfi frá 10. júlí 2000 sem biskup ritaði prestum
landsins eftir kristnihátíð á Þingvöllum: „ Við skulum ekki láta neikvæða
umrœðu um hátíðina skyggja á gleði okkar. Það vantaði vissulega á fjölda
þátttakenda. En það fólk, sem þarna var, það var kirkjufólkið í landinu, hin
trúföstu, virku og dyggu sóknarbörn kirkjunnar sem ekki bregðastÞ Hér
verður ekki annað sagt en farið sé að slakna á hugmyndafræði þjóðkirkj-
unnar sem flokkar ekki sóknarbörnin, hvorki með þessum hætti né öðrum.
Það er einnig vafasöm lúthersk kirkjuguðfræði að skilja hafrana frá sauð-
unum.
Þótt kirkjan hafi hægt og sígandi stefnt til einangrunar í þjóðlífinu hefur
hún haldið velli með því að standa vörð um helgiathafnir á tímamótum í
ævi einstaklinga, fjölskyldna og samfélags. Reyndar var það eitt megin-
hlutverk hennar alla öldina að sjá einstaklingum og samfélagi fyrir helgi-
siðum auk þess að standa vörð um þau grundvallargildi í hinu kristna þjóð-
ríki sem flestir voru einhuga um. Hún sá hverjum og einum fyrir viðmiðun
í siðferðislegum efnum, kom reglu á líf hans og lífsferil, setti sorg og gleði,
fæðingu og andlát í samhengi hvert við annað og við lífið í heild; og hún gaf
öllu merkingu og innihald. Þessu hlutverki hefur hún haldið og verið um-
gjörð utan um líf manna, einnig þeirra sem eru tvístígandi í málefnum trú-
arinnar. Hún hefur staðið sig allvel á þessu sviði og notið trausts þjóðarinn-
ar. Sem hægfara helgisiðastofnun hefur hún unnið sitt verk óháð allri um-
ræðu um málefni dagsins, vísað á hin gömlu gildi í síbreytilegum heimi og
stundum fallið í þá gryfju að líta á sjálfa sig sem bjargið alda, óbifanlega og
nánast óskeikula í ráðvilltum heimi.