Andvari - 01.01.2000, Blaðsíða 86
84
EYSTEINN ÞORVALDSSON
ANDVARI
Það eru ljóðin í Dymbilvöku, fyrstu ljóðabók Hannesar, sem hér urðu til
með þessum einkennilega hætti. Þetta kann að vera prýðilegt dæmi um
skáldlegan innblástur, og svo virðist sem Hannes hafi hugleitt það. En
honum þóttu vinnubrögðin samt fremur líkjast útblæstri en innblæstri, að
þetta hefði kraumað lengi í honum og síðan hefði hverinn gosið. Hann seg-
ir að sér hafi sjálfum þótt undarlega kveðið þegar hann leiddi verk sitt
augum „og var nokkur ráðgáta hvaðan mér hefðu borist öll þessi torkenni-
legu orð og myndir.“14 En hann segir líka að sér hafi verið ljóst að glíman
við Eliot og önnur nýstárleg skáld hafi leyst gosið úr læðingi í undirvitund
sinni.
Þetta er heiðarleg og sannferðug ályktun hjá skáldinu. Fjölmörg minni í
Dymbilvöku eiga uppruna sinn eða skyldleika í verki Eliots. Þótt Eyði-
landið hafi reynst Hannesi ofraun til þýðingar þá hafa mótíf þess og myndir
seytlað inn í vitund hans og síðar ýmist fallið í dropatali eða gosið í fyrstu
ljóðum hans sjálfs. Aðferð Hannesar er líka að mörgu leyti svipuð og í
Eyðilandinu, t. d. form eða áferð textans, brotakenndar frásagnir og mynd-
ir, samhengislausar tilvitnanir og samræður. Málfarið er hinsvegar ólíkt;
stíllinn er einhlítari og upphafnari hjá Hannesi, og tilvitnanir hans virðast
flestar heimatilbúnar og engar þeirra eru á erlendum málum eins og hjá
Eliot. Ljóðstafasetning af ýmsu tagi er í Dymbilvöku allri og gefur henni
ákveðna hrynjandi umfram Eyðilandið. Myndmál Eyðilandsins eru laus-
tengdar raðir af beinum myndum að hætti ímagismans. Sú aðferð er ríkj-
andi í I. kafla Dymbilvöku en síðan er myndmál Hannesar einkum byggt á
sundurleitum myndhverfingum.
Mótíf eru mörg hin sömu í báðum verkunum, t. d. meginmótífin: vatn,
eldur og vindur en þau gegna ekki alltaf sömu hlutverkum. Á báðum stöð-
um er einnig leikið með andstæðurnar líf og dauða. Flest tengsl Hannesar
eru við fyrra hluta Eyðilandsins, einkum „Greftrun hinna dauðu“ og
„Skáktafl“, enda hefur hann ekki brotist öllu lengra sem þýðandi í því tor-
leiði sem Eyðilandið reyndist honum. Sjálfur segist Hannes hafa þýtt hið
endurtekna stef úr Skáktafli „Hurry up please it’s time“ með „Svona upp
með þig það er glas“ sem hann notar sem þrítekið stef í Dymbilvöku. Það
er viss samsvörun í þessum fyrirskipunum þótt upprunaleg merking sé ólík.
I sýnishorninu sem Hannes birtir úr þýðingardrögum sínum í Framhalds-
lífi förumanns má sjá minni sem prýða báða bálkana. Þarna er um að ræða
brot úr upphafi „Skáktafls“ og þar þýðir hann m. a. 79.-81. línurnar, en
þær eru þessar:
Held up by standards wrought with fruited vines
From which a golden Cupidon peeped out
(Another hid his eyes behind his wing)