Andvari - 01.01.2000, Side 90
88
EYSTEINN PORVALDSSON
ANDVARI
hættu fyrir, eins og hann orðar það. Þetta var harður dómur í eigin sök og
bágt var að trúa því að öllum veðrum hefði slotað og allt væri þagnað í
ljóðheimi slíks skálds. Enda kom annað á daginn eins og síðar verður frá
greint.
Teikn kalda stríðsins
I Framhaldslífi förumanns lítur Hannes yfir skáldskap sinn í þeim fimm
ljóðabókum sem frá honum höfðu þá komið og ræðir um „teikn kalda
stríðsins sem bókstaflega urðu kveikjur ljóða minna frá Dymbilvöku til
þessa dags“ eins og hann kemst að orði.21
Þetta má til sanns vegar færa, en einkum eru það bækurnar Imbrudagar,
Sprek á eldinn og Jarteikn, sem geyma ljóð um kalda stríðið og ádeilu á
yfirgang og áróður Vesturveldanna. I þessum ljóðum tekur skáldið einarða
afstöðu í heimspólitík og hugmyndafræði en, eins og áður segir, eru þetta
alls ekki opinská baráttuljóð, heldur táknrænn og myndríkur kveðskapur
sem yfirleitt hefur ekki þótt henta fyrir slíkan skoðanaskáldskap og boð-
skap. I Imbrudögum yrkir hann um heimsmálin í dularfullum, sérsmíðuð-
um táknum; dæmi:
Vindurinn snuðraði í pappír
prentuðum orðum, sneri þeim
við, sneri þeim
á snældur dægranna
snúð kufungsins, sneri
glitþráð úr hrímhvítu rykinu
og spann af bleikum himni lauf á limið
lágværan klið af sumri, fjarlægan
þyt söngfugla, sefandi
sálmasöng yfir föllnum englunum
Við höfum orð skáldsins fyrir því að hér sé ort um blekkjandi áróður kalda
stríðsins sem „tókst eftir nokkurt þóf að blinda augað, fyrst með bölmóði,
síðan með glitofnum draumum og hégiljum gamalla trúarbragða.“22 Ljóðið
verður íturljóst við slíka skýringu, en hætt er við að þeir sem velktust á víg-
völlum þessarar köldu áróðursstyrjaldar hafi verið torlæsir á boðskapinn.
Og þótt Hannes væri ánægður með Imbrudaga að loknu verki, varð honum
brátt ljóst að hinn myndsækni, táknræni ljóðstíll, sem honum var innbor-
inn, hentaði ekki til að útbreiða pólitískar skoðanir meðal almennings.
Þetta varð honum áleitið umhugsunarefni og orsakaði vissa togstreitu með
honum eftir að hann lauk æskuverkum sínum, Dymbilvöku og Imbrudög-