Andvari - 01.01.2000, Page 98
96
EYSTEINN ÞORVALDSSON
ANDVARI
þar sem blekið rann forðum að fingrum
og oddmjóum penna. Nú aftur á móti
blasa við þverstæðar æðar
í snjáðum viðnum og skýrast
af aldri og haustgulri sól
Hannes hafði gert upp við heimspólitíkina og kenningakerfin, eins og áður
segir, og kalda stríðinu lauk skömmu eftir að hann sneri aftur heim. I Jarð-
munum yrkir hann um þessa nýjustu byltingu í „Umskiptunum“ þar sem
„Spilaborgirnar hrundu / eins og dómínókenningin væri loksins komin í
gagnið / Bylting varð bylting varð bylting / varð bylting.“ Þetta þýddi ekki
að skáldið væri hætt að yrkja um þjóðfélagsmál; Hannes hefur einarðar
skoðanir sem fyrr og lætur ávirðingarnar ekki liggja í þagnargildi. Hann
deilir á drápsfýsn mannsins, þröngsýni hans og ójöfnuð, hávaða, mengun
og aðrar plágur samtímans.
Hér hefur verið getið um nokkur af helstu viðfangsefnum í öllum ljóða-
bókum Hannesar Sigfússonar, s. s. heimsmálin, kalda stríðið og aðrar plág-
ur, vandamál skáldskapar, heimkomu útlagans, fallvaltleikann. En yrkis-
efnin eru fleiri í samanlögðum kveðskap hans og skal því minnst á nokkur í
viðbót.
Náttúrutónar
í ljóðum Hannesar Sigfússonar birtist náttúruskynjun og túlkun umhverfis
í sérkennilegu og fjölbreyttu myndmáli. Drjúgur hluti ljóða hans fjallar um
náttúruna. Hann er einstakur náttúruskoðari í hópi skálda þótt hann hafi
ekki gert víðreist í því skyni. Náttúrulýsingarnar eru ekki staðbundnar en
gjarnan tengdar hugarástandi og tónlist. Strax í æskuverkum hans bregður
fyrir glæstum myndum úr umhverfinu, t. d. af vitanum í Dymbilvöku:
Sjá hann rís líkt og prjónandi gæðingur
járnaður glitrandi skeifum
er glampa við hinum skarða mána
Sjáðu logasterk augun er svipast um
milli sviptibyljanna
sjáðu svipuna reidda yfir höfði farmannsins
og sveifludans hinna svipþungu meyja
Síðan áttu náttúrumyndirnar eftir að verða enn tilkomumeiri; þær er m. a.
að finna í mörgum ádeiluljóðunum sem miðla náttúruskynjun ekkert síður
en pólitískum viðhorfum. Seinni hluti ljóðsins „Tveir himnar“ í Jarteiknum