Andvari - 01.01.2000, Page 112
110
GUNNAR KARLSSON
ANDVARI
upp gerð í trúarbragðadeilunni. Eftir snjalla ræðu um nauðsyn málamiðl-
unar tók hann loforð af mönnum að hlíta þeim lögum sem hann segði upp.
Síðan „vas þat mælt í lggum, at allir menn skyldi kristnir vesa ok skírn
taka, þeir es áðr váru óskírðir á landi hér; en of barnaútburð skyldu standa
en fornu lgg ok of hrossakjQtsát. Skyldu menn blóta á laun, ef vildu, en
varða fjgrbaugsgarðr, ef váttum of kvæmi við. En síðarr fám vetrum vas sú
heiðni af numin sem gnnur.“13
Yngri heimildir skreyta frásögn íslendingabókar af kristnitökunni með
nokkrum minni háttar kraftaverkum og bæta ýmsu við sem kann að varpa
meira ljósi á málið, ef við trúum heimildunum, en þær andmæla íslendinga-
bók varla í nokkru einasta atriði.14 Pví er unnt að ræða aðalatriði kristni-
tökusögunnar út frá íslendingabók einni.
Mörgum hefur þótt kristnitökufrásögn Ara ótrúleg, en ekki veit ég til að
nokkur maður hafi hafnað henni algerlega á prenti. Einar Arnórsson
hreinsaði vandlega úr henni allt sem braut í bága við tvo næstum algilda
mælikvarða hans á trúverðugleika: heilbrigða skynsemi og stjórnskipunar-
lög Grágásar. En meginatriðið í sögu Ara, að kristni hafi verið lögtekin eft-
ir samkomulag heiðinna og kristinna manna á Alþingi, stóðst þá hreinsun."
Aðrir hafa farið svipað að og aðallega reynt að lappa upp á söguna með
því að skýra hvernig það gat gerst að samfélag tæki kristni á svona einfald-
an og friðsamlegan hátt. Sumir hafa sagt að kristni hljóti að hafa verið al-
gengari í landinu fyrir en ráða má af heimildum, aðrir að ásatrúin hafi ver-
ið í hnignun fyrir nokkurs konar trúleysi og þess vegna trúarlegt tómarúm í
landinu. Sumir hafa haldið að íslendingar hafi tekið kristni til þess að kom-
ast hjá íhlutun konungs, aðrir að þeir hafi gert það fyrir konung að taka
kristni og þannig viðurkennt yfirráð hans í raun.16
I kristnisögunni nýju vekur Hjalti Hugason máls á tveimur atriðum sem
kunna að vekja efasemdir um trúverðugleika frásagnar Ara. Annað er það
að ræða Þorgeirs Ljósvetningagoða á Lögbergi, þar sem hann leggur fram
málamiðlun sína, virðist skiptast í kafla samkvæmt aðferðum lærðrar
mælskufræði miðalda, sem þingeyskum heiðingja á 10. öld er varla ætlandi
að hafa kunnað.17 Þetta geta raunar ekki talist mikil tíðindi því varla mun
nokkur maður hafa trúað því fram að þessu að ræða Þorgeirs hafi varðveist
orðrétt í minni manna. Þannig tók Einar Arnórsson fram að Ari hefði að
sjálfsögðu samið ræðuna, „nema ef til vill einhver atriðisorð hennar, svo
sem þau, að slitið mundi friðinum, ef menn sliti í sundur lögin.“18 Hitt er
veigameira, sem Hjalti bendir líka á, að saga Ara af kristnitökunni minni
sérkennilega á frásögn Þorgils sögu og Hafliða í Sturlungu af deilum höfð-
ingjanna Þorgils Oddasonar og Hafliða Mássonar á Alþingi árið 1121, þegar
Ari var sjálfur á miðjum aldri og kannski staddur á þingi.19 Þorgils kom
sekur til þings, eins og Hjalti Skeggjason kristnitökusumarið, ætlunin var